131. löggjafarþing — 91. fundur,  16. mars 2005.

Fjárhagsstaða ellilífeyrisþega.

[15:56]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Ég verð þó að lýsa yfir miklum vonbrigðum með þau viðbrögð sem ég hef fengið af hálfu stjórnarliða í þessari umræðu í dag. Fyrir það fyrsta var hæstv. ráðherra því miður alvarlega fastur í fortíðinni í tali sínu þrátt fyrir að spurningar mínar heyrðu til framtíðar.

Í annan stað töluðu hv. þingmenn stjórnarliða um eignarskattinn, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins. Það kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar að helmingur lífeyrisþega í þessu landi fái í sinn hlut 475 millj. sökum eignarskattsbreytinga frá því í desember. Ég vil minna hv. þingmenn á að þetta mun ekki koma í buddu lífeyrisþega á þessu ári. Ég vil líka minna hv. þingmenn á að fasteignaskatturinn er að hækka gífurlega hjá fólki um allt land. (Gripið fram í: Það eruð …) Eitt ár er mjög langur tími hjá eldri borgurum, mjög dýrmætur tími.

Hvað um hin 15 þúsundin, virðulegur forseti, sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson minntist ekki á? Hvað um hin 15 þúsundin sem fá ekki þessar 475 millj. í sinn hlut út frá eignarskattsbreytingunum? Þetta eru einmitt sömu einstaklingarnir og eru í hópi þeirra 10 þús. lífeyrisþega í landinu sem búa svo til undir fátæktarmörkum, ef ekki allir. Menn verða að horfast í augu við sannleikann og stöðuna eins og hún ríkir í dag á Íslandi og mæta með reisn og göfuglyndi þessum vanda í okkar ríka landi. Ég hvet ráðherra til að koma með eitthvað annað til mín en starfshóp eða starfsnefnd.

Það mun ekki leiða til verkloka í þessu máli, heldur ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um það hvort eigi að bregðast við þessu með göfuglyndi og reisn eins og þarf að vera.