131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[10:47]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Skiljanlega var ekki hátt risið á hæstv. félagsmálaráðherra þegar hann gerði grein fyrir stöðu mála hvað varðar átak í eflingu sveitarstjórnarstigsins. Í fyrsta lagi er sameiningarkosningum frestað til haustsins, í öðru lagi liggur ekkert fyrir um áform um verkefnatilfærslu og í þriðja lagi fæddist nákvæmlega ekki nokkur skapaður hrærandi hlutur í tekjustofnanefndinni svokölluðu.

Hæstv. ráðherra hælir sér af því að nota peninga sveitarfélaganna sjálfra í varasjóði íbúðalána, sér til tekna. Hann hælir sér af því að endurgreiða virðisaukaskatt af framkvæmdum vegna fráveituframkvæmda sem hafa staðið í heil 10 ár, telur sér það til tekna. Hann hælir sér af því að ríkissjóður ætli loksins að fara að greiða skatta af íbúðarhúsnæði í sveitarfélögum sínum — en ekki samkvæmt almennum reglum, nei, samkvæmt sérreglum ríkissjóðs. Hann hælir sér af því að nú eigi að fara að kostnaðarmeta áhrif laga, frumvarpa og reglugerða sem snerta sveitarfélög beint eða óbeint. Ákvörðun um þetta lá fyrir árið 2000, herra forseti, í þeirri tekjustofnanefnd sem þá starfaði en ekkert hefur gerst í tíð forvera hæstv. félagsmálaráðherra né hans sjálfs. Nú á að nota þetta loforð enn og aftur.

Herra forseti. Þetta er satt að segja dapurleg niðurstaða og ég hef allan skilning á því að hæstv. ráðherra — sem kemur fyrir þingheim eftir tveggja ára setu á ráðherrastóli og skilar þessu — tali hvorki hátt né mikið.

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga er enn þá lykilatriði. Það er einasta leiðin sem menn finna til að nálgast þetta, að bæta í sjóðinn tímabundið, þennan sjóð sem núna telur í kringum 10 milljarða kr. Enn og aftur á að leggja til atlögu við það að endurmeta og laga til regluverk sjóðsins sem ég þori að fullyrða að aðeins kannski 5 eða 10 einstaklingar kunna skil á. Slík er flækjan þar á bæ.

Nei, herra forseti, ég vorkenni hæstv. félagsmálaráðherra (Forseti hringir.) vegna þessarar niðurstöðu.