131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[10:49]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég frábið mér vorkunnsemi hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Það er ekki lágt risið á þeim sem hér stendur. Ég er satt best að segja þvert á móti mjög ánægður með þá niðurstöðu sem náðst hefur. Ég tel að það skipti verulega miklu máli fyrir sveitarfélögin að hafa úr að spila á næstu þremur árum 9,5 milljörðum kr. meira en þau hafa haft. Er það ekki allnokkur árangur, hv. þingmaður? Ætli það skipti ekki sveitarfélögin töluverðu máli að hafa úr þessum fjármunum að spila?

Ætli það skipti þau ekki líka töluverðu máli að hafa varanlega, þegar þessu tímabili lýkur, úr 1,5 milljörðum meira að spila en þau hafa haft? Ég hefði haldið það. Og ég hefði haldið að það skipti þau sveitarfélög mestu máli sem hafa það hvað verst að verið er að auka framlög í jöfnunarsjóð, það er verið að létta álögum af sveitarfélögunum, koma stórkostlega til móts við þau við rekstur félagslega íbúðakerfisins. Þetta eru atriðin sem þung áhersla var lögð á af hálfu sveitarstjórnarmanna.

Það er auðvitað þannig að það næst ekki saman um öll atriði, ýtrustu kröfur, þegar menn leggja upp í vinnu sem þessa. En ég er ánægður, hæstv. forseti, ég tel þetta góða niðurstöðu, það er hátt á mér risið og það er engin ástæða til að vorkenna þeim sem hér stendur.