131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[10:54]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Bara rétt til að upplýsa hv. þingmann, sem raunar er einnig sveitarstjórnarmaður, að þá stóð ekki til að endanlegar tillögur um verkefnatilfærslur milli ríkis og sveitarfélaga lægju fyrir fyrr en í haust. Það hefur alla tíð legið fyrir, undirskrifað af fulltrúum bæði ríkis og sveitarfélaga, aldrei staðið annað til. Hins vegar komu fram ákveðnar hugmyndir frá verkefnisstjórn verkefnisins, og kom fram í ræðu minni áðan, sem hafa verið til sérstakrar umfjöllunar, ekki síst í heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytum. En tillögur verkefnisstjórnar lutu ekki síst að því að færa ákveðin verkefni á sviði velferðarmála frá ríki til sveitarfélaga.

Hins vegar hefur líka legið fyrir að það er alveg sérstakt verkefni og því þurfa að fylgja tekjustofnar. Því hef ég marglýst yfir bæði hér á Alþingi, hæstv. forseti, og annars staðar á opinberum vettvangi.

Hv. þingmaður spyr af hverju ég hafi ekki margfaldað með 20 eða 30. Það sem við erum hér að ræða og ég var að kynna eru tvíþættar áherslur, annars vegar varanlegur tekjuauki fyrir sveitarfélögin, sem verður 1,5 milljarðar kr. á ári að liðnum þessum þremur árum, hins vegar sérstök átaksverkefni, m.a. með sérstakri innspýtingu í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga upp á 700 millj. kr. á ári. Það samkomulag tekur til þriggja ára. Þess vegna er margfaldað, hæstv. forseti, með þremur en ekki 20 eða 30.

Hv. þingmaður spurði einnig hvort full sátt væri í tekjustofnanefnd um þessa niðurstöðu. Hv. þingmanni er fullljóst að svo er ekki. Einn fulltrúi sveitarfélaganna í tekjustofnanefndinni skilaði séráliti og við því er í sjálfu sér ekkert að segja. Það er ágæt sátt um niðurstöðuna.

Ég tel, hæstv. forseti, að auðvitað liggi alveg fyrir að hvorugur aðila sé fullkomlega ánægður enda er það yfirleitt ekki þannig þegar tekist er á um hlutina. Menn ná ákveðinni niðurstöðu sem ég tel ásættanlega og raunar mjög góða fyrir sveitarfélögin.