131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[10:57]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé að hæstv. ráðherra er að tala við hv. þm. Hjálmar Árnason. Hann ætti kannski að spyrja hann meðan hann er að tala við hann þarna í dyrunum hvort það hafi ekki verið kynnt þannig á Suðurnesjum á kynningarfundi sem verkefnisstjórn stóð fyrir, sem hv. þm. Hjálmar Árnason er formaður fyrir, að fyrst yrði farið í að ákveða hvaða verk ætti að flytja, síðan mundu menn velta fyrir sér hvaða stærð þyrfti að vera á sveitarfélögum til að taka við þeim verkefnum og svo í síðasta lagi hvaða fjármunir þyrftu að fylgja til að sveitarfélögin gætu sinnt þeim.

Það var svardagi af hálfu formanns verkefnisstjórnar að svona yrði farið í málið og ekki öðruvísi, og rétt væri hjá hæstv. ráðherra að spyrja þingmanninn um það.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji þær tillögur sem hann var að kynna okkur að tekjuskiptum eða auknum tekjum sveitarfélaga nægja sveitarfélögunum til að komast út úr þeim hallarekstri sem þau hafa verið í. Ég veit ekki betur en að á árinu 2003 hafi hallarekstur sveitarfélaga verið yfir 3 milljarðar kr. og það sem hér er verið að kynna eru 1,5 milljarðar í besta falli á næsta ári upp í þann halla.