131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[10:58]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það má segja að fjallið hafi tekið jóðsótt og lítil mús fæðst, sennilega bara andvana. Það er ansi kyndugt að horfa á ráðherrann kynna þessa tillögu sem er ekki neitt neitt. Hér stendur formaður verkefnisstjórnar, hv. þm. Hjálmar Árnason, (Gripið fram í.) hér sitja meðreiðarsveinar hæstv. félagsmálaráðherra sem hafa farið um landið til að kynna hinar stóru og miklu tillögur. Hjá Framsóknarflokknum hefur verið talað um Kasper, Jesper og Jónatan sem meðreiðarsveina hæstv. forsætisráðherra. Mér sýnast Rip, Rap og Rup vera hér nú sem hafa farið með þessar miklu tillögur sem eru svo ekki neitt neitt.

Hér er komið nokkrum dögum fyrir sameiningarkosningar og boðað að þeim skuli frestað til 8. október. Það er talað um tekjustofnana, þar átti heldur betur að taka til hendinni en ekkert er gert af neinu viti. Ég hvet hæstv. félagsmálaráðherra til að nota þá aðferð sem hv. þm. Jón Gunnarsson hvatti hann til áðan. Nota frekar 20 ár til að margfalda hvað þetta er mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélögin í landinu, jafnvel 30 ár. Þá eru þetta stórkostlegar tölur. Þá kemur ekki berrassaður félagsmálaráðherra í ræðustól til að segja hvað er verið að lagfæra.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvaða orð á að nota yfir þetta en mig langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra miðað við það sem hér er verið að gera, fresta þessu fram á haustið, þessum stórkostlegu tillögum sem hafa verið boðaðar um allt land: Er þetta nokkuð annað en klúður?