131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:02]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það lagðist lítið fyrir kappann, hæstv. félagsmálaráðherra í þessari ræðu. Ekki bætti hann úr.

Má ég minna á það, virðulegi forseti, að hæstv. félagsmálaráðherra er fyrrverandi. varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga sem bæjarfulltrúi í Hveragerði. Hæstv. félagsmálaráðherra talaði, meðan hann var ekki þingmaður og ekki félagsmálaráðherra, sem varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga um að sveitarfélögin í landinu hefðu verið hlunnfarin um 1,5 milljarða á ári vegna breytinga á skattkerfi þegar mönnum var gert kleift að breyta rekstri sínum úr einkarekstri yfir í einkahlutafélög. Þetta voru orð hæstv. félagsmálaráðherra meðan hann var í hinum fötunum.

Nú er hann hins vegar kominn í ríkisstjórn þar sem hann þarf m.a. að semja við hæstv. fjármálaráðherra og þá leggst lítið fyrir kappann. Hæstv. félagsmálaráðherra kemur hingað berrassaður með nánast ekkert til að redda sér frá því klúðri sem þessi frestun er.