131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:04]

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum. Það má segja að innihald frumvarpsins sé ekki ýkja mikið en það tengist býsna stóru máli. Hér er fyrst og fremst lagt til að sú dagsetning sem ákveðin var í lögum sem samþykkt voru fyrir tæpum tveimur árum um það að sameiningarkosning ætti að fara fram 23. apríl 2003 fari þess í stað fram 8. október árið 2005.

Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er ástæðunnar fyrir þessari seinkun er ekki að leita í störfum sameiningarnefndar sem hefur fjallað um sameiningu sveitarfélaga heldur í þeirri vinnu sem fram hefur farið í svokallaðri tekjustofnanefnd sem hefur tekið mun lengri tíma en áætlað var. Í raun má segja að sameiningarnefnd hafi verið búin að ljúka störfum sínum innan þess tímaramma sem gefinn var. Sá sem hér stendur, sem hefur tekið nokkurn þátt í því starfi, getur staðfest að þar hefur verið nokkuð góð samstaða um öll mál og vinnuferlið verið hið eðlilegasta, enda má segja að samsetning þeirrar nefndar sé til mikillar fyrirmyndar og hópurinn náð vel saman.

Vandinn í tekjustofnanefndinni hefur verið sá að þar var samsetningin allt önnur. Þar voru eðlilega aðilar frá sveitarfélögum en hins vegar fulltrúar ríkisvaldsins, eingöngu embættismenn sem væntanlega hafa þurft að bera flestallt undir þá sem þeir hafa umboðið frá. Ég hygg að það skýri mjög hve illa starfið hefur gengið í þeirri mikilvægu nefnd. Það liggur ljóst fyrir að sameining sveitarfélaga hlýtur að taka mið af niðurstöðu tekjustofnanefndar. Sagan segir okkur að meginvandamálið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga hefur tengst tekjustofnunum. Það var miður að tekjustofnanefndin skyldi samansett eins og raun ber vitni. Þar hefðu þurft að vera fulltrúar pólitískra afla, þ.e. sækja eftir tilnefningum frá þingflokkum eins og gert var í sameiningarnefndinni. Ég er sannfærður um að þá hefði starf nefndarinnar gengið betur fyrir sig og niðurstaða samninganna orðið stærri og tryggari til framtíðar en við fáum að heyra í ræðu hæstv. ráðherra nú.

Því miður verður að benda á að tekjustofnanefnd hefur starfað, að vísu misjafnlega vel þann tíma, í á annað ár. Það er sama hversu mikið hæstv. ráðherra reynir að gera úr niðurstöðum nefndarinnar, auðvitað er niðurstaðan vonbrigði. Þau vonbrigði spretta ekki af því að aðeins sé tekið á bráðavanda og aðeins áfangi í rétta átt heldur vegna þess að tíminn var ekki nýttur til að skoða tekjustofnana frá grunni, endurskoða grundvöll tekjustofna sveitarfélaganna. Ég er sannfærður um að ef svo hefði verið gætum við stigið miklu stærra skref núna til að tryggja það mikilvægasta í þessu öllu, þ.e. traust á milli ríkisvaldsins og sveitarfélaga. Sá grundvöllur er nauðsynlegur ef við ætlum að ná árangri í sameiningu sveitarfélaga. Það er t.d. ljóst að þegar þetta traust er ekki til staðar verða tillögur um sameiningu sveitarfélaga ekki stærri en raun ber vitni. Auðvitað hefði þurft að stíga miklu stærra skref en tillögur sameiningarnefndar taka mið af stöðu mála í dag og hvað raunhæft geti talist miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi.

Tekjustofnanefnd hefur að sjálfsögðu ráðið mestu um þetta. Það er engin tilviljun að það þurfti á haustdögum að semja sérstaka viljayfirlýsingu um starfið í nefndinni til að koma henni af stað aftur. Hún var raunverulega komin í strand. Ég hef oft sagt það í þessum ræðustól að ég er sannfærður um að metnaður hæstv. ráðherra er mikill í þessum efnum. Núna er það að vísu ekki eins og það var um daginn, að hæstv. ráðherra sat einn á ráðherrabekkjunum. Hér er annar hæstv. ráðherra líka. En ég held því miður að hæstv. ráðherra hafi verið býsna einangraður í ríkisstjórninni við þetta mikilvæga verkefni og skort hafi skilning í ríkisstjórninni á því hve mikilvægt verkefnið er. Þess vegna eru tillögur tekjustofnanefndar ekki stórfenglegri en þetta.

Auðvitað er hægt að segja að tillögurnar séu ákveðinn áfangi en fleira jákvætt verður vart sagt um þessar tillögur. Þær eru því miður enn einu sinni smáskammtalækningar. Þar er tekið á bráðavanda sem safnast hefur upp vegna þess að menn hafa ekki tekið á honum jafnharðan eins og menn hefðu átt að gera. Það á að taka nokkur ár í að leysa bráðavandann, gera sérstakt átak núna á árunum 2005–2008 til að taka á bráðavandanum. En varanlega lausnin á þessu máli er ekki til staðar. Þar er eingöngu talað um að árlegur ábati sveitarfélaganna verði um 1,5 milljarður kr. Það er auðvitað ekki viðsættanlegt til framtíðar. Ég óttast, frú forseti, að tillögur tekjustofnanefndar tryggi ekki þá sátt sem nauðsynleg er til að við náum þeim mikilvæga áfanga í að efla sveitarstjórnarstigið að sveitarfélögin verði stærri og öflugri. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að það er vissulega er einn angi af byggðamálunum. Og líklega væri það eitt stærsta byggðamálið og raunhæfasta til að efla byggðirnar og styrkja landsbyggðina. En þá þurfum við að tryggja traust milli sveitarstjórnarstigsins og ríkisvaldsins. Ég óttast að þessar tillögur nái ekki að byggja upp slíkt traust. Við munum því ekki ná eins stórum og miklum áfanga í sameiningu sveitarfélaga og við þyrftum að gera.

Það er einnig nauðsynlegt að velta aðeins fyrir sér verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og þeirri ágætu verkefnisstjórn sem hafði umsjón með því verki. Vissulega er það rétt hjá hæstv. ráðherra að nokkrir málaflokkar hafa verið ræddir og ýmislegt verið reifað í þeim efnum. Jafnframt höfðu allir þann skilning á því máli að einhverjar áfangaskýrslur mundu koma áður en endanleg niðurstaða fengist í málið. Þær áfangaskýrslur hafa hins vegar ekki komið. Það hefur ekki náðst neitt samkomulag um neitt annað en að láta málið bíða. Þetta er grundvöllur þess að við getum skapað sveitarstjórnarstiginu viðunandi stöðu, þ.e. að það liggi fyrir hvaða verkefni við ætlum að flytja. Hvaða tekjur þurfa að fylgja með og hve stór þurfa sveitarfélögin þá að vera? Við vitum, þrátt fyrir að við ætlum, miðað við tillögur sameiningarnefndar, að fækka sveitarfélögum úr 101 í 46, að áfram verða til staðar lítil sveitarfélög sem ekki hafa burði til að taka við frekari verkefnum. Sum hver þeirra eiga nóg með það sem þau hafa nú.

Frú forseti. Hægt væri að hafa langt mál um svo mikilvægt efni, eflingu sveitarstjórnarstigsins. Vissulega væri full ástæða til að taka það fyrir lið fyrir lið. En vegna þess að hæstv. félagsmálaráðherra valdi þá leið að kynna í fyrsta skipti niðurstöður tekjustofnanefndar, þ.e. samkomulag sem þar virðist hafa orðið án þess að full samstaða sé um það, þá er auðvitað nauðsynlegt að ræða það nánar. Það sem ég gerði áðan er ég lýsti yfir vonbrigðum mínum með að tíminn, á annað ár, skuli ekki hafa verið nýttur til að stokka upp tekjustofnana. Mér skilst að öllum tillögum frá fulltrúum sveitarfélaganna um grundvallarbreytingar á því hafi í raun og veru verið hafnað af fulltrúum ríkisvaldsins. Fróðlegt væri ef hæstv. félagsmálaráðherra gæti fært rök fyrir því að fulltrúar ríkisvaldsins hafi hafnað öllum slíkum breytingum. Það hlýtur að vera nauðsynlegt, ef við ætlum að skapa frið til framtíðar, að annað form sé á þessu en er í dag.

Það er einnig óviðunandi að engin leið önnur skuli finnast en sú sem allt of oft hefur verið farin áður, að láta fjármuni eingöngu renna inn í jöfnunarsjóð. Því miður verður að taka undir það sem hér hefur komið fram, að reglur þar eru orðnar svo flóknar að það finnast ekki margir á landinu sem skilja þær til hlítar. Þeir virðast örfáir, ef þeir eru þá til, sem skilja þær algerlega til hlítar. Það er óviðunandi fyrir sveitarfélög, sem þurfa eins og aðrir aðilar að gera rekstraráætlanir fram í tímann, að búa við það ár eftir ár að geta ekki áætlað tekjur sínar úr jöfnunarsjóði og þar af leiðandi ekki gengið almennilega frá fjárhagsáætlunum sínum.

Það er þó eitt sem ekki má gleymast í umræðunni að það er augljóst mál, og það hafa allir fulltrúar samþykkt í tekjustofnanefndinni, að fjárhagslegur vandi er til staðar hjá sveitarfélögum, ella hefði nefndin ekki starfað og ella hefði nefndin ekki komist að þeim niðurstöðum sem hún hefur þó komist að.

Það er athyglisvert sem hæstv. ráðherra byrjaði á að vekja athygli á og eins og fram kom í andsvari áðan er það býsna gamalt mál, þ.e. að öll lagafrumvörp eigi að vera kostnaðarmetin. Hæstv. ráðherra hefði frekar átt að gera okkur grein fyrir því hvernig á því standi að það hefur ekki verið svo undanfarin ár. Ég er sannfærður um að ef þannig hefði verið að verki staðið hefði vinnan í tekjustofnanefndinni verið miklu léttari vegna þess að þá hefði verið hægt að koma til móts við sveitarfélögin jafnóðum, m.a. þegar ýmis skattalagafrumvörp voru í vinnslu í þinginu.

Annað sem hæstv. ráðherra fjallaði reyndar ekki mikið um en ég tel vera nokkuð mikilvægt varðar endurskoðun sveitarstjórnarlaga. Fróðlegt væri ef hæstv. ráðherra gæti farið nánar út í hverju er verið að velta fyrir sér þar. Er verið að velta fyrir sér að sveitarstjórnarlögin verði endurskoðuð með það fyrir augum að efla sveitarfélögin, að stækka sveitarfélögin, að skapa einhvern grunn í lögunum til þess, auka t.d. hvata til að sveitarfélögin verði stærri eða er verið að velta fyrir sér heildarpakkanum um hvernig við viljum sjá sveitarfélögin eftir einhvern ákveðinn árafjölda?

Ég sagði áðan að það væri sorglegt að menn fyndu ekki aðra boðlega leið en þá að auka ætíð fjármuni í jöfnunarsjóð. Þess vegna er nauðsynlegt þegar verið er að ákveða að bæta 700 millj. kr. á ári í sjóðinn að heyra frá hæstv. ráðherra hvort farið hafi verið nokkuð nánar í það hvernig úthluta eigi peningunum. Það er afar sérkennilegt og við höfum séð það því miður allt of oft að ákveðin upphæð er send í jöfnunarsjóðinn en svo er eins og enginn viti hvernig hún var fundin og hvernig eigi að fara með hana. Það er auðvitað eðlilegra að fyrst sé ákveðið hvað eigi að gera og síðan sé upphæðin fundin sem þarf til að framkvæma það sem menn vilja. En þannig hefur það ekki verið og væri fróðlegt að vita hvort hæstv. ráðherra geti upplýst okkur um það hvort nákvæmlega sé ákveðið hvernig 700 millj. skuli skipt á milli sveitarfélaganna, eða hvort þetta sé hin hefðbundna aðferð við að bæta fjármunum í jöfnunarsjóð, að einhver upphæð er fundin í reikningsdæmi og svo þurfa menn að finna út úr því hvernig henni verður dreift.

Einnig er athyglisvert með fasteignaskattinn að þar skuli þetta eiga að gerast í þremur áföngum og byrjað með 200 millj., svo 400 millj. og síðan 600 millj. sem síðan eigi að halda áfram. Hvaða reglur gilda um þetta? Liggur fyrir nákvæmlega á hverju ári á hverju eigi að byrja og hvernig þetta eigi að þróast og hvað skuli nákvæmlega undanskilið? Hæstv. ráðherra nefndi virkjanir. Það vekur auðvitað undrun mína að þrátt fyrir hina miklu vinnu á annað ár skuli menn ekki hafa fundið neina niðurstöðu í þeim efnum. Eins og við vitum hafa sveitarfélögin gert mjög háværar kröfur um að ekki sé gert upp á milli framkvæmda við virkjanir. Við vitum að greidd eru gjöld af ákveðnum hluta, þ.e. stöðvarhúsunum, meðan virkjanir gera það ekki. Við höfum mjög gott dæmi um þetta austur á landi þegar gömlu sveitarfélagamörkin voru. En þrátt fyrir hin nýju sveitarfélagamörk fær aðeins eitt sveitarfélag tekjur af virkjuninni þar sem stöðvarhúsið er, en það sveitarfélag sem leggur til allt vatnið, leggur til grunninn að öllu saman, fær ekkert fyrir mannvirkið sem þar er. Þetta er afar ankannalegt og það er sérkennilegt þegar menn á annað borð eru að taka á þessu að ekkert skref hafi verið stigið varðandi þetta.

Segja má að það sé fastur liður þegar eitthvað er gert í tekjustofnum sveitarfélaga að tekið sé á hinum félagslegu íbúðum og auðvitað ekkert nema gott um það að segja en eins og við vitum eru fjármunirnir komnir frá sveitarfélögunum þannig að þetta er ákveðin hringekja sem þarna á sér stað. Hins vegar er gleðilegt í þessu að settar séu reglur varðandi hinar nýju fasteignir því að þær reglur sem hafa gilt eru algerlega úreltar og væntanlega verið að stíga skref þar. En þrátt fyrir að ákveðin jákvæð skref séu stigin er heildarniðurstaðan sú að allt of stutt skref er stigið, hér er fyrst og fremst um bráðabirgðaráðstafanir að ræða sem koma því miður ekki nægjanlega til móts við sveitarfélögin, því að eins og fram hefur komið og við vitum voru þau rekin með um 3 milljarða halla árið 2003 og jafnvel með meiri halla árið 2004. Hér er hins vegar eingöngu talað um 1,5 milljarða til varanlegra bóta í fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og það er einfaldlega allt of lítið skref.

Frú forseti. Rétt að lokum vil ég aftur nálgast málið út frá því lagafrumvarpi sem hér liggur fyrir. Verið er að fresta hinni mikilvægu kosningu um sameiningu sveitarfélaga. Með þeim tillögum sem hæstv. ráðherra kynnti, en ég vil hafa þann fyrirvara á að ég hef ekki séð þær í endanlegum búningi og eingöngu hlýtt á hæstv. ráðherra og þess vegna ekki náð öllum tillögunum í smáatriðum, en því miður sýnist mér að þær tillögur séu ekki til að auka líkur á því að við náum að stíga nægilega stórt skref í sameiningu sveitarfélaga.

Eins og ég sagði áðan hefur samstarfið og vinnan í sameiningarnefndinni verið mjög gott. Tillögur sameiningarnefndar taka mið af því ástandi sem er í samskiptum ríkis og sveitarfélaga og hvernig verkefnum um eflingu sveitarstjórnarstigsins hefur miðað. Mér finnst þeim hafa miðað of hægt, þ.e. á öðrum vígstöðvum en í sameiningarnefndinni. Það sem ég óttast fyrst og fremst er að þrátt fyrir að tillögur sameiningarnefndarinnar geti ekki talist mjög róttækar þó gerð sé tillaga um að menn fækki sveitarfélögunum um helming óttast ég að tillögur tekjustofnanefndar, ef ekki verða gerðar einhverjar verulegar breytingar á þeim á næsta stigi sem mér skilst að eigi að vera í lok aprílmánaðar, muni tillögurnar því miður jafnvel setja ýmsar tillögur sameiningarnefndar í loft upp. Það er ótti sem mér finnst að hæstv. ráðherra eigi að taka alvarlega og eigi að beita áhrifum sínum til að nota það svigrúm sem þó er til loka aprílmánaðar, til að reyna að stíga stærra skref, vegna þess að ég er sannfærður um og hef sagt það áður í umræðum um þessi mál að efling sveitarstjórnarstigsins er eitt af stærstu málum í íslensku samfélagi í dag og það má ekki stíga feilspor á þeirri leið. Þess vegna verða allir að leggjast á eitt við að reyna að bæta þær tillögur sem hér liggja fyrir. Ef það er hægt þegar samstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga verður endurskoðaður og þegar gerð verður ný yfirlýsing um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga er það tækifæri sem verður að nota, vegna þess að það er þá það eina sem eftir er til að tryggja að sveitarstjórnarmennirnir komi með okkur. Og þannig verður það að vera, enda er þetta samstarfsverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisvaldsins og algerlega nauðsynlegt ef við ætlum að ná árangri í sameiningu sveitarfélaga að þeir tveir aðilar standi saman og vinni saman að verkinu. Þess vegna verður að nota þann stutta tíma sem þó er eftir til að byggja upp þetta mikilvæga traust á milli ríkisvaldsins og sveitarstjórnanna svo við getum tryggt að sveitarstjórnarmennirnir nái árangri. En sveitarstjórnarmennirnir verða að vera með í för og bera fyrst og fremst fram tillögurnar um sameiningu sveitarfélaga. Ef ekki er ég hræddur um að verkefnið hafi mistekist.

Ég vil endurtaka að ég er sannfærður um að hæstv. félagsmálaráðherra hefur haft fullan hug á því að láta verkefnið takast. Ég held því miður að meðreiðarsveinar hæstv. ráðherra í ríkisstjórninni hafi ekki veitt honum nægan stuðning til verksins. En ég veit, frú forseti, að ýmsir aðilar í öðrum flokkum eru reiðubúnir til að standa við bakið á hæstv. ráðherra við allar góðar tillögur við að efla sveitarstjórnarstigið. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að leita þar sem stuðninginn er að finna en ekki berja hausnum við steininn þar sem menn hafa greinilega engan áhuga á verkefninu.