131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:57]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef hv. þm. Jóni Gunnarssyni líður betur með það að ég segi að þetta séu milljarða útgjöld fyrir ríkissjóð og á sama tíma milljarða tekjur fyrir sveitarstjórnir get ég alveg gert það. Mér finnst það bara ekki skipta öllu máli.

Hv. þingmaður spurði hvort mér þættu þessar tillögur ásættanlegar eða gæti lifað við þær, og ég segi já. Mér finnst þessar tillögur góðar. Það er mjög erfitt að breyta tekjustofnum, við vitum það, og það hefur gengið mjög illa að gera það vegna eðlis sveitarfélaga. Ég lýsti hérna hvernig Seltjarnarnes fékk 40 millj. kr. aukreitis í vasann þegar aðstöðugjaldinu var breytt, 40 millj. á ári á meðan önnur fóru allt öðruvísi út úr því.

Niðurstaðan sem var fengin núna er sú að þéttbýlu sveitarfélögin fá ákveðna hluti í gegnum fasteignaskattana en dreifbýlu sveitarfélögin fá fjármuni í gegnum jöfnunarsjóðinn og húsnæðiskerfið. Það var reynt að finna leið þannig að allir fengju eitthvað.