131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:59]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Frumvarpið sem er til umfjöllunar ætti ekki að þurfa að valda miklum deilum og sjálfsagt er að það hljóti afgreiðslu hið allra fyrsta. Það fjallar í raun ekki um annað en að slá á frest kosningu um sameiningu sveitarfélaga. Ástæðan er að hluta til sleifarlag ríkisstjórnarinnar við sameiningarvinnuna og undirbúningsvinnuna, enda segir í greinargerð m.a., með leyfi forseta:

„Ástæðan fyrir því að færa þarf kosningadag fram til haustsins 2005 er tvíþætt: Annars vegar tók lengri tíma en gert var ráð fyrir að ná samkomulagi í tekjustofnanefnd um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og því dróst að sameiningarnefnd kynnti endanlegar tillögur sínar.“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar er ástæðan sú að undirbúningur atkvæðagreiðslu um tillögur sameiningarnefndar er kominn misjafnlega vel á veg á einstökum svæðum.“

Við þessu er ekkert að segja. Þetta eru staðreyndir máls og að sjálfsögðu er eðlilegt að menn samþykki þessar breytingar á sveitarstjórnarlögum þar sem gert er ráð fyrir að fresta þessari kosningu. Um það ætti ekki að þurfa að hafa mörg orð.

Menn hafa hins vegar haft nokkuð mörg orð í tengslum við þessa umræðu og ástæðan er að sjálfsögðu sú að þetta er hluti af mun stærra máli. Allar götur frá því í ágúst árið 2003 hefur í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar verið unnið að sameiningu sveitarfélaganna í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga sem einnig hefur sett sér það markmið að stuðla að slíkri sameiningu. Því miður verður að segjast eins og er að aðkoma ríkisstjórnarinnar að sameiningarferlinu hefur ekki verið sem skyldi. Að sjálfsögðu hefur þar sumt verið ágætlega gert en í öðrum efnum illa og sumt er mjög ámælisvert.

Það er tvennt sem ég vildi vekja máls á í sambandi við þá umræðu og má sameina það undir heitinu reglustikuaðferðin. Menn hugsa þessi sameiningarmál mjög í svart/hvítu. Það er annaðhvort eða. Menn sjá ekki möguleika á millistigum. Ég ætla að taka dæmi. Það er rætt um að sameina nánast allt Snæfellsnesið í eitt sveitarfélagi. Það er nokkuð sem ég hef ákveðnar efasemdir um. Ég hef hlustað á sveitarstjórnarmenn á Snæfellsnesi setja fram rökstuddar efasemdir hvað þetta snertir. Þá spyr maður sjálfan sig: Hvers vegna eru ekki skoðaðar millileiðir, vegna þess að það gefur augaleið að í sumum tilvikum getur það verið til hagsbóta fyrir sveitarfélögin að sameinast um tiltekin rekstrarverkefni, hugsanlega sem lúta að sorphirðu svo maður taki dæmi héðan af höfuðborgarsvæðinu eða almenningssamgöngum? Hér hafa menn myndað byggðasamlög um slík verkefni og spurning er hvort slíkt væri ekki hægt á Snæfellsnesi svo annað dæmi sé tekið þannig að við stillum fólki ekki upp gagnvart valkostinum annaðhvort eða. Reyndar tel ég að byggðasamlagsrekstrarformið sé að mörgu leyti gallað og það ætti að vera úrlausnarefni fyrir Alþingi að finna fyrirtæki eða rekstrarfyrirkomulag sem sameinaði í eitt kosti hlutafélagsins og kosti ríkisreksturs. Byggðasamlagið gerir það ekki að öllu leyti.

Það áhersluatriði sem ég vildi setja fram hér er þetta: Við eigum ekki að stilla fólki upp gagnvart valkostinum annaðhvort eða. Það er hægt að fara ýmsar millileiðir. Í þessu samstarfi hefur sú hugsun hins vegar ekki fengið að njóta sín. Menn hugsa þetta allt samkvæmt reglustiku og stundum og í allt of ríkum mæli úr fjarlægð, því miður.

Hitt atriðið sem fellur undir reglustikuaðferðina er sýnu verra. Það er sú valdstjórnarárátta sem er augljós í öllu þessu ferli, að slá á puttana á fólki með reglustiku. Þetta er augljóst í öllu þessu ferli. Hvernig gerist það? Í fyrsta lagi er sameiningarnefndinni sem hefur undirbúning að sameiningu sveitarfélaga með höndum og undirbúning að kosningum með höndum fært mjög mikið og lögbundið vald í hendur. Hún stillir upp valkostum sem fólk síðan stendur frammi fyrir. Ef fólkið ekki kýs í samræmi við þær niðurstöður sem sameiningarnefndin vill fá þá eru höfð uppi sömu vinnubrögð og tíðkast í Evrópusambandinu gagnvart kjósendum, að það er bara kosið þangað til rétt niðurstaða er fengin.

Í lögum um sveitarstjórnarmál segir, með leyfi forseta:

„Sameiningarnefnd getur ákveðið að leggja fram nýja tillögu um sameiningu sveitarfélaga ef tillaga nefndarinnar er felld í atkvæðagreiðslu. Atkvæðagreiðsla um þá tillögu skal fara fram á tímabilinu október 2005 til janúar 2006 og skal gera nýja kjörskrá ...“

Með öðrum orðum, ef fólkið kýs ekki í samræmi við það sem sameiningarnefndin ákveður þá er bara gert hið sama og laxveiðimaður gagnvart laxinum. Hann þreytir hann þangað til hann er öruggur um að ná honum á land. Þetta er hugsunin. Því miður hef ég orðið var við það einnig innan stjórnsýslunnar og innan stjórnmálanna að þeir sem ekki makka rétt fá að gjalda þess. Þeir fá að gjalda þess í framkvæmdum á vegum ríkisins á því svæði sem um er að ræða. Þetta er því miður staðreynd, nokkuð sem fram hefur komið þegar félagsmálanefnd Alþingis hefur verið kynnt þessi mál. Þetta er valdstjórnarhlið þessa máls sem ég tel afar vafasama.

Síðan er hitt. Ég gat um það áðan að átaksverkefni ríkisstjórnarinnar sem nú stendur yfir og hófst í ágústmánuði árið 2003, því fyrr hefur verið reynt að sameina sveitarfélög, byggði því miður á mjög vafasömum vinnubrögðum. Það var tekin ákvörðun um það, pólitísk ákvörðun um að halda tveimur þingflokkum utan þeirrar vinnu, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokknum. Þeir áttu að vísu að fá að sitja á áhorfendabekkjunum, í áhorfendastúkunni. Þeir máttu fylgjast með. En þeir áttu ekki að koma að nefndarvinnunni á jafnræðisgrunni. Um þetta fóru fram bréfaskriftir á milli þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs annars vegar og ríkisstjórnarinnar og sérstaklega hæstv. félagsmálaráðherra hins vegar. Hæstv. ráðherra hafnaði aðkomu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eða þingflokks hennar að þessari vinnu á jafnræðisgrundvelli. Hún mátt fylgjast með, en svona á svipuðum nótum og við erum að fá að fylgjast með því sem nú er að gerast, þ.e. að menn dreifa hér gögnum nánast um leið og Alþingi er skýrt frá málinu. Þar vísa ég í gögn sem koma frá tekjustofnanefnd.

Hins vegar verð ég að segja að mér finnst það miklum mun betra að hæstv. félagsmálaráðherra skuli þó hafa þann hátt á, og það finnst mér gott, að kynna Alþingi þessar tillögur áður en hann mætir til leiks hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og leggur þær þar á borðið. Þetta er að sjálfsögðu sú röð sem á að hafa á hlutunum, að kynna fyrst á Alþingi það sem heyrir Alþingi til.

Það er svo önnur saga og annað mál hvernig til hefur tekist í þessu starfi, hve óhönduglega hefur tekist til í öllu þessu starfi og hve miklum sjónhverfingum og blekkingum er beitt þegar ríkisstjórnin er að kynna sínar tillögur. Ég hef ekki mikla áhyggjur af því sannast sagna hvernig sú orðræða fer fram hér og nú vegna þess að við erum að tala um hluti sem snerta hag sveitarfélaganna og þeirra sem búa víðs vegar um landið svo mikið að fólk mun finna á eigin skrokki hver alvara er að baki þeim hástemmdu yfirlýsingum sem hér komu úr munni hæstv. félagsmálaráðherra um bættan hag sveitarfélaganna. Ég hef því miður miklar efasemdir um að það sem hér er verið að færa fram skipti sköpum. Ég vísa m.a. í varnaðarorð sem komið hafa frá gagnrýnum aðilum innan tekjustofnanefndar.

Við erum hér með sérálit bæjarstjórans í Hafnarfirði, Lúðvíks Geirssonar, þar sem kemur fram mjög hörð gagnrýni, mjög hörð málefnaleg gagnrýni á þær hugmyndir sem tekjustofnanefnd hefur sent frá sér. Hér segir m.a., með leyfi forseta:

„Mikill einhugur hefur ríkt meðal sveitarstjórnarmanna um að afar brýnt sé að ná fram sanngjarnri leiðréttingu á tekjuskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaganna þannig að fjárhagsstaða sveitarfélaganna sé bætt og þeim tryggður aukinn og traustur tekjugrundvöllur.“

Þetta er rétt. Um þetta eru sveitarfélögin í landinu öll sammála. Við fengum fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga á ráðstefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þegar þessi vinna var að hefjast. Þá voru reistar kröfur af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem eru ekki í nokkru einasta samræmi við það sem við erum að sjá núna koma frá ríkisstjórninni. Þetta er staðreynd. Þess vegna furða ég mig á þeim linkulegu viðbrögðum sem koma víða úr þeim ranni nú. En sem betur fer eru til menn sem standa vel í lappirnar og ég er að vitna hér í álitsgerð frá Lúðvíki Geirssyni og geri það enn, með leyfi forseta:

„Það samkomulag sem nú liggur fyrir er ákveðinn áfangi en hann er langt í frá ásættanleg lausn og fullnægir engan veginn réttmætum og sanngjörnum kröfum sveitarfélaganna í landinu um leiðréttingu og jöfnuð. Enn er langt í land að tekið sé af alvöru á þeim víðtæka vanda og þröngu fjárhagsstöðu sem sveitarfélögin búa almennt við, m.a. vegna tekjuskerðingar af skattkerfisbreytingum og margvíslegum kostnaðarauka á síðustu árum, í mörgum tilfellum vegna einhliða ákvarðana ríkisvaldsins. Í þessum tillögum er engin grundvallarbreyting sem máli skiptir til að tryggja tekjugrundvöll sveitarfélaganna til framtíðar. Rétt er í því sambandi að vekja athygli á því að fulltrúar ríkisins taka það sérstaklega fram að þessar tillögur séu það ýtrasta sem hægt er að ganga á því tímabili sem um er að ræða. Þetta er skýr yfirlýsing um að hér er enn og aftur um skammtímalausnir að ræða.“

Ég er að vitna í greinargerð frá bæjarstjóranum í Hafnarfirði þar sem hann gagnrýnir harðlega vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og að hér sé einvörðungu verið í rauninni að pissa í skóinn sin. Hann segir að þetta séu skammtímalausnir, hér sé ekki hugað að framtíðarlausnum.

Hann heldur áfram, með leyfi forseta:

„Að mati undirritaðs geta sveitarfélögin ekki gengið frá þessu samningaborði nema tryggð sé árleg föst tekjuaukning fyrir utan aðrar leiðréttingar og tímabundnar aðgerðir sem þetta samkomulag felur í sér. Aðeins með þeim hætti er tryggð lágmarksleiðrétting á tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.“

Síðan er vitnað í hvernig samningaviðræðurnar hafi staðið með hléum í ríflega ár og að nánast allar tillögur um úrlausnir af hálfu ríkisvaldsins hafi byggst á skammtímalausnum í stað þess að af sanngirni sé tekið og heildstætt á almennum tekjugrunni sveitarfélaganna og horft um leið til framtíðarskipunar sveitarstjórnarmála í landinu.

Ég vitna enn í bæjarstjórann, með leyfi forseta:

„Þetta er ekki niðurstaða sem sveitarstjórnir munu sætta sig við heldur enn ein bráðabirgðalausnin sem því miður mun ekki koma samskiptum ríkis og sveitarfélaga í það eðlilega og réttláta horf sem nauðsynlegt er. Má búast við í kjölfar þessa að sveitarfélögin endurmeti afstöðu sína til að taka við frekari verkefnum af ríkinu við svo búið. Með vísan til þessa get ég ekki samþykkt eða skrifað upp á þessar tillögur.“

Hér vitnaði ég í greinargerð bæjarstjórans í Hafnarfirði sem gagnrýnir mjög harðlega það sem frá ríkisstjórninni er að koma.

Í athugasemdum með frumvarpi ríkisstjórnarinnar er vísað í samningaferlið og átak hennar til að sameina sveitarfélögin. Þar segir, með leyfi forseta:

„Átakið felur einkum í sér þrennt: Að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga,“ — þetta þekkjum við — „að fækka fámennum sveitarfélögum með sameiningu sveitarfélaga“ — þetta þekkjum við — „og aðlaga tekjustofna sveitarfélaga breyttum verkefnum og breyttri sveitarfélagaskipan.“ Þetta þekkjum við einnig.

Hvernig er eðlilegt að forgangsröðin verði í þessu efni? Að sjálfsögðu þarf að byrja á því að skilgreina hvað menn vilja að verði hjá sveitarfélögunum, að skilgreina og kanna fjárþörf sveitarfélaganna. Það þekkjum við. Við þekkjum þá þörf. Síðan þarf á varanlegan hátt að tryggja þeim tekjustofna.

Hverjir skyldu hafa lagt fram tillögur í því efni? Hverjir skyldu hafa gert annað og meira en að standa hér í ræðustól og gagnrýna aðra? Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Við höfum margoft sett fram tillögur um hvernig við viljum standa að þessum málum. Við fluttum nú síðast frumvarp sem gerði ráð fyrir því að styrkja sérstaklega tekjustofna sveitarfélaganna til frambúðar. Þegar ríkisstjórnin ákvað að lækka tekjuskattshlutfallið um 2 prósentustig lögðum við fram tillögu um að heimildir sveitarstjórna til hækkunar útsvars yrðu rýmkaðar sem þessu næmi og þannig yrðu færðar frá ríki til sveitarfélaga tekjur sem kæmu til móts við þær þarfir sem sveitarfélögin hafa.

Þetta er ein tillaga af mörgum sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sett fram, raunhæfum tillögum til að treysta fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Við teljum að ríkisstjórnin hafi staðið að verki á óábyrgan hátt. Það eru miklar sjónhverfingar, mikil leiktjöld, en þegar til kastanna kemur er innihaldið afar rýrt. Auk þess leyfi ég mér að ítreka að valdstjórnarleg aðkoma ríkisvaldsins að sameiningu sveitarfélaga er ekki til þess fallin að skapa það andrúmsloft sem leiðir til þess að fólk leiti hagkvæmustu lausnanna. Ég held ekki.

Ég held líka að við höfum í of ríkum mæli, þá beini ég því til okkar allra, hugsað þessi mál í svart/hvítum lausnum. Það eru til millilendingar, millilausnir. Sveitarfélög geta haft samstarf og samráð sín í milli um tiltekna þætti þótt þau gangi ekki í einu og öllu í sömu sængina. Þar vísa ég til samstarfsverkefna sem m.a. hefur verið stofnað til hér á höfuðborgarsvæðinu og víða um landið. Ég spyr: Hvers vegna reyna menn ekki slíkar lausnir annars staðar — ég nefndi áðan Snæfellsnesið — í stað þess að þröngva mönnum öllum í sama mótið?