131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:26]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um skattahugmyndir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem stjórnarsinnar eru að gera lítið úr og snúa út úr. Í greinargerð með þeirri tilteknu tillögu okkar segir, með leyfi forseta:

„ Því fer fjarri að flutningsmenn telji þá ráðstöfun sem frumvarpið gengur út á einhverja allsherjarlausn. Æskilegast væri að breytingar af þessu tagi væru liður í heildarendurskoðun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga sem nauðsynlega þarf að fara fram og er forsenda þess að hægt sé í framhaldinu að ráðast í áfanga til eflingar sveitarstjórnarstiginu.“

Síðan gerum við grein fyrir þeim hugmyndum sem við viljum að séu teknar til skoðunar á því, ekki bara varðandi útsvarið, en ég legg áherslu á að hugmyndir okkar um að beina heimild til útsvarshækkunar til sveitarfélaganna voru settar fram eftir að ljóst var að ríkisstjórnin ætlaði að hrinda í framkvæmd hugmyndum sínum um tekjuskattslækkun. Hugmyndir okkar hafa hins vegar byggt á öðrum þáttum sem við höfum gert rækilega grein fyrir, föstum tekjustofnum sem við viljum að sveitarfélögin fái aðkomu að.

Varðandi valdstjórnina vísaði ég í fyrsta lagi í skipan nefndarinnar þar sem tveimur tilteknum þingflokkum var haldið fyrir utan starfið, máttu ekki koma inn á jafnræðisgrunni, máttu bara sitja í áhorfendastúkunni.

Í öðru lagi vísaði ég í sveitarstjórnarlög um heimildir nefndarinnar til að láta fara fram atkvæðagreiðslu þangað til „rétt“ niðurstaða væri fengin.

Í þriðja lagi sagði ég að látið hefði verið að því liggja í mín eyru af hálfu stjórnsýslunnar að þau sveitarfélög sem ekki mökkuðu rétt væru látin gjalda þess í framkvæmdum á vegum hins opinbera. Ef þetta er ekki valdníðsla og ef það er ekki slíkur andi sem hér svífur yfir vötnunum veit ég ekki hvað á að kalla það.