131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:28]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Einhver kjaftagangur sem hv. þingmaður heyrir einhvers staðar úti í bæ getur ekki talist valdníðsla af hálfu ríkisstjórnar. Það sem skiptir mestu máli er að í fáum málum hefur verið unnið jafnlýðræðislega og í þessu. Það eru fulltrúar frá sveitarfélögum og frá pólitískum flokkum, að vísu ekki Vinstri grænum en það gefur hv. þingmanni tæpast tilefni til að álykta sem svo að hér sé um valdníðslu af hálfu ríkisstjórnar að ræða. Hvergi og líklega ekki í nokkru máli hefur verið haft jafnmikið samráð við sveitarstjórnarfólk og í þessu máli, enda er tillaga sameiningarnefndar mjög einróma.

Hvað varðar tekjuskiptinganefndina hefur það tekið langan tíma af því menn hafa verið að semja. Menn hafa komist að samkomulagi eins og er hægt að ná í þessu. Það er að vísu einn úr tekjuskiptinganefndinni sem skilar séráliti en í þessu mikla deilumáli um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga er það (Forseti hringir.) í rauninni mesta furða að menn skuli hafa náð svona (Forseti hringir.) mikilli sátt.