131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:38]

Hjálmar Árnason (F):

Virðulegur forseti. Í rauninni er verið að fjalla hér um afskaplega lítið mál, þ.e. frumvarpið snýr einungis að því að fresta atkvæðagreiðslu um sameiningu sveitarfélaga sem lögum samkvæmt á að fara fram 23. apríl. Af ástæðum sem raktar hafa verið í umræðunni í dag er talið skynsamlegt, og það byggir á tillögu sameiningarnefndar, að láta þá atkvæðagreiðslu fara fram 8. október en heimila þó þeim sveitarfélögum sem það kunna að vilja að efna til sameiningarkosningar fyrr. Flóknara er frumvarpið ekki.

Eins og vænta mátti hleypur umræðan um þetta einfalda frumvarp út um víðan völl, enda er um stórmál að ræða. Ég tel þó nauðsynlegt enn einu sinni til upprifjunar að minna á hver verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er í dag. Eins og margsinnis hefur komið fram eru 70% opinberra stjórnsýsluverkefna í höndum ríkisins og um 30% í höndum sveitarfélaganna. Þetta er öfugt hlutfall við það sem við sjáum í öðrum ríkjum, nágrannaríkjum okkar, og þá hljótum við að spyrja hvaða áhrif það hafi á samfélagið hjá okkur. Segja má að það hafi þau áhrif m.a. að lýðræðisleg ákvarðanataka er minni hérlendis en í nágrannaríkjum okkar vegna þess að ákvarðanatakan er miðstýrðari hér þar sem um 70% verkefnanna eru í höndum ríkisins. Er það líklega ein ástæða þess að stjórnsýslan hefur vaxið svo mikið í kringum höfuðborgina sem raun ber vitni þar sem höfuðstöðvar ríkisins eru þar. Því fylgja störf og þar fram eftir götunum. Valddreifing hér er því í rauninni miklu minni en menn eiga að venjast í nágrannaríkjum okkar og hefur þar af leiðandi mikil áhrif á alla þjónustu.

Á sama tíma hafa kröfur samtímans um almannaþjónustu farið mjög vaxandi sem betur fer. Sveitarfélögin vilja bregðast við kröfum samtímans og vilja hækka þjónustustigið hjá sér og sækjast jafnvel eftir verkefnum til ríkisins til þess að geta sinnt þessari þjónustu o.s.frv. Það er líklega í ljósi þess sem farið er af stað með átak um að efla sveitarstjórnarstigið með það í huga að draga úr þessu hlutfalli, 70:30, og færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Það er líklega af þessum ástæðum sem menn velta upp hugmyndinni um að stækka sveitarfélög til þess að gera minnstu sveitarfélögin betur í stakk búin til að taka við verkefnum. Sveitarfélag með um 40 íbúa er ekki mjög burðugt til að taka við stórum verkefnum og bæta þjónustu íbúa sinna. Það liggur í augum uppi.

Það er væntanlega með það í huga að auka tekjur sveitarfélaga með verkefnum sem Samband íslenskra sveitarfélaga tekur frumkvæðið. Það er rétt að árétta það að að frumkvæði Sambands íslenskra sveitarfélaga er lagt upp í þessa för, upphaflega til að sameina sveitarfélög af þeim ástæðum sem ég hef nefnt hér, og það er sambandið sem leitar til félagsmálaráðuneytisins um að fara í þetta átak. Síðan fer það átak af stað eins og hér hefur komið fram.

Það er jafnframt ákveðið að fara þá lýðræðislegu leið að skipa sérstaka sameiningarnefnd, skipa sérstaka tekjuskiptingarnefnd og verkefnisstjórn til þess að vinna þetta á sem lýðræðislegastan hátt. Ég segi það enn og aftur að fá mál hafa líklega fengið jafnlýðræðislega umfjöllun og þau mál sem sameiningarnefndin hefur unnið. Haldnir hafa verið fundir sem líklega skipta hundruðum með fulltrúum allra sveitarstjórnarmanna í landinu þar sem sameiningarnefnd hlustaði á hljóðið í sveitarstjórnarmönnum, heyrði óskir þeirra og byggði tillögur sínar á því. Lengra er gengið, sveitarstjórnarmönnum er gefinn kostur á því að bregðast við þeim hugmyndum og sameiningarnefnd tekur tillit til ýmissa ábendinga um fyrstu hugmyndirnar.

Þess vegna er alrangt að halda því fram eins og hér hefur verið gert að um einhverja misbeitingu valds eða ofríki af hálfu ríkisvaldsins sé að ræða. Það er beinlínis rangt því að líklega hafa fá mál fengið jafnlýðræðislega umfjöllun og meðferð eins og sameiningarmálið.

Núna heyrist manni hins vegar á ýmsum hv. þingmönnum sem hér hafa talað í morgun að öllu sé ruglað saman, og a.m.k. tveir ef ekki þrír fulltrúar Samfylkingarinnar sem hér töluðu virðast vera að drekkja sér í því að blanda öllu hugsanlegu saman og reyna að búa til einhverjar deilur. Ég skil það hins vegar svo að talsmaður Samfylkingarinnar í þessu máli, hv. þm. Einar Már Sigurðarson, tali á öðrum nótum, enda hefur hann fylgt þessu máli frá upphafi og þekkir það betur.

Það liggur alveg ljóst fyrir að deilur á milli ríkis og sveitarfélaga hafa staðið í áratugi og þær munu halda áfram, deilur um hvernig skipta eigi kökunni, hvernig skipta eigi skattpeningunum á milli ríkis og sveitarfélaga vegna verkefna sem þessi tvö stjórnsýslustig framkvæma. Þær deilur verða aldrei settar niður í eitt skipti fyrir öll. Þess vegna á það ekki að koma neinum á óvart að mál tekjustofnanefndar hafi dregist. Það hefur dregist vegna þess að þetta er stórt mál og þetta er viðkvæmt mál. Það eru skiptar skoðanir milli ríkis og sveitarfélaga um það hvernig deila eigi kökunni, það er ekkert nýtt. Sú deila mun halda áfram.

Því er það alveg með ólíkindum að hér hafi a.m.k. tveir hv. þingmenn Samfylkingarinnar komið upp og haldið því fram að það sé ekkert í þeirri niðurstöðu sem fékkst hjá tekjustofnanefndinni. Hún er ekki sammála. Það hefur komið fram. Einn nefndarmanna, bæjarstjórinn í Hafnarfirði, Lúðvík Geirsson, Haukamaður með meiru, skilar séráliti. Hann er ekki sammála því sem aðrir skrifa undir.

Það er beinlínis rangt og beinlínis fölsun að halda því fram, eins og hv. þm. Kristján L. Möller gerði, að í tillögunum sé ekkert sem snertir fjármuni. Fyrir liggur að á þremur árum þýðir þetta tilfærslur fjármuna til sveitarfélaga, viðbót upp á 9,5 milljarða. Menn geta farið í alls konar leikfimiæfingar og margföldunaræfingar en þetta eru þær tölur sem liggja á borðinu, 9,5 milljarðar. Og það sem meira er, það eru 1,5 milljarðar varanlega eftir þetta þriggja ára tímabil. Þess vegna er beinlínis rangt að koma í ræðustól og segja að í tillögunum sé ekkert.

Það eru auðvitað engir alveg sáttir um þetta, hvorki ríki, sveitarfélög né sveitarfélögin innbyrðis. Þetta er samt verulegur árangur sem hlýtur að verða horft á jákvæðum augum í því skrefi að efla sveitarstjórnarstigið.

Jafnframt liggja fyrir mjög skýrar tillögur um með hvaða hætti sameiningarnefnd telur skynsamlegast að láta atkvæðagreiðslu meðal fólksins fara fram um sameininguna. Enn komum við að rangindum sem flutt hafa verið í þessum ræðustól í umræðunni í dag, um að verið sé að beita valdi gagnvart þegnum landsins. Ég hef nefnt hvernig sameiningarnefndin vann og út á hvað ganga tillögur hennar? Þær ganga út á að láta fólkið í sveitarfélögunum taka hina endanlegu ákvörðun. Þannig var lagt upp með verkefnið og þannig verður því lokið. Það er lýðræðislegasta leiðin sem til er, að íbúarnir fái að kjósa um með hvaða hætti þeir vilja skipa sveitarfélögum sínum.

Grundvallarspurningin sem menn verða að svara er hvort menn vilji horfa á það sem Samband íslenskra sveitarfélaga lagði af stað með í upphafi ferðarinnar, sem var einungis að sameina sveitarfélög. Inn í það dróst að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga og inn í það kom líka að færa tekjur frá ríki til sveitarfélaga. Ef menn ætla hins vegar að standa hér áfram og blanda þessu öllu saman og beina athyglinni frá því sem er kjarni málsins tel ég að menn séu beinlínis að vinna gegn einni stærstu stjórnsýslubreytingu sem Alþingi hefur rætt um og farið í gegnum, þá eru menn að vinna gegn því að efla sveitarstjórnarstigið. Þá eru menn að vinna gegn því að hækka þjónustustig og vinna gegn því að auka lýðræði í landinu með því að færa sveitarfélögunum aukin verkefni og þar með að lyfta þjónustustiginu.

Ég hvet því til þess í umræðunni, sem mun örugglega standa fram eftir degi, að menn horfi á upphaf verkefnisins og horfi á það sem blasir við, það sem liggur á borðinu en fari ekki að rugla saman óskyldum hlutum eins og borið hefur á í umræðunni.