131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[13:01]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er fagnaðarefni að hv. þingmaður hafi svipaða framtíðarsýn og ég varðandi framtíð sveitarfélaganna og verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Það er líka að hluta til þess vegna held ég sem menn settu upp það ferli sem við ræðum um núna, þ.e. að horfa á þetta heildstætt: sameiningu sveitarfélaga, tekjustofna og verkefnaflutning. Það er auðvitað ekki hægt að neita því að það veldur vonbrigðum að hinir þættirnir, þ.e. tekjustofnarnir og verkefnaflutningurinn, skuli ekki vera kominn lengra og hafi ekki náð vissum áfanga sem settur sé fram í skýrslu eða öðru slíku þannig að menn gætu skoðað myndina í heild sinni.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að menn blönduðu hér öllu saman en það er eðlilegt að menn blandi þessu saman vegna þess að þetta sameiginlega hlýtur að vera það sem byggir upp traustið á milli aðilanna, eins og ég reyndi að sýna fram á í ræðu minni að væri grundvöllurinn að því að ná þessum markmiðum.

Ég sagðist óttast og hafa áhyggjur af því að þær tillögur sem nú liggja fyrir séu því miður enn einu sinni bráðabirgðaredding og að þar sé tekið lítið skref til framtíðarinnar varðandi tekjustofnana. Ég óttast að það hafi áhrif á sameiningarferlið og á þær tillögur sem sameiningarnefndin leggur fram. Ef við náum ekki sveitarstjórnarmönnunum með þá er borin von að við náum því markmiði sem sett er í þeim tillögum.

Ég leyfi mér að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að eðlilegt sé að nýta þann tíma sem fram undan er til að endurskoða og skapa vonandi nýjan grundvöll í lok apríl. Væri ekki eðlilegt að við horfðum til að þar yrðu stigin einhver skref þannig að við næðum a.m.k. að tryggja samstöðu um að láta þær tillögur sem sameiningarnefndin hefur lagt fram fylgja með þannig að við fáum sveitarstjórnirnar í lið með okkur við að berjast fyrir þeim?