131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[13:04]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að ég geti deilt þeirri skoðun með hv. þingmanni að það er mikilvægt að vanda sig í þessu. Þess vegna hefur verkefnið tekið lengri tíma en ætlað var, af því að menn vanda sig.

Það hefur komið mér á óvart, og örugglega líka hv. þingmanni, að hin formlegu samskipti ríkis og sveitarfélaga í gegnum tíðina, í áratugi, hafa ekki verið mjög formleg og ekki sem skyldi. Eitt af því sem fram kemur í tillögunum er að menn eru staðráðnir í að koma því á með formlegri hætti, bæta þessi samskipti til að byggja upp traustið. Þegar það traust hefur verið skapað eru samskiptin orðin eðlilegri og meiri sveigjanleiki í samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga.

Varðandi verkefnatilflutninginn þá liggja tillögur verkefnisstjórnar á borði ríkisstjórnarinnar. Það var aldrei gert ráð fyrir því að þau kæmust strax á, fyrst yrðu sveitarfélögin stækkuð og síðan yrðu verðmiðarnir fundnir. Hins vegar er unnið að því sérstaklega í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti að undirbúa flutning á þessum velferðarpakka sem er gífurlega stór með það í huga að færa hann frá ríkinu og yfir til sveitarfélaga. Sérstök nefnd innan heilbrigðisráðuneytisins skoðar þann þátt og sérstakur verkefnisstjóri innan félagsmálaráðuneytisins skoðar þeirra þátt. Sú vinna er öll í fullum gangi. Ég trúi því að þegar sameiningarferlinu lýkur, ég trúi ekki öðru heldur en tekjuskiptingardeilurnar þær verði settar niður þótt þær haldi áfram, fari menn á fullu í að færa verkefnin yfir. Þar með styrkjum við byggðir landsins, einstök sveitarfélög og hækkum þjónustustig við almenning í landinu.