131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar.

[13:37]

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Umræðuefnið hér er samkeppnisstaða skipaiðnaðarins. Vil ég því byrja á að fara stuttlega yfir þróunina hvað varðar skipaiðnaðinn, bæði hér á landi sem og innan ESB og Evrópska efnahagssvæðisins.

Skipasmíðaiðnaður hér á landi hefur dregist saman nokkur undanfarin ár. Sé litið aftur til ársins 2000 voru um 850 manns starfandi í innlendum skipasmíðaiðnaði en í fyrra var talan komin niður í um 560 manns. Hefur þessi þróun m.a. orðið vegna breytinga á samsetningu íslenska fiskiskipaflotans auk annarra utanaðkomandi þátta. Innan ESB voru leyfðir ríkisstyrkir í skipasmíðaiðnaði allt til ársloka 2000 þegar svokallaðir rekstrarstyrkir til skipasmíða voru felldir niður í aðildarlöndum ESB og þar með á Evrópska efnahagssvæðinu. Þó var leyfð aðlögun að banni við ríkisstyrkjum sem leiddi til þess að hægt var að fá slíka styrki greidda út allt til ársins 2003. Þessi niðurfelling framleiðslutengdra ríkisstyrkja til skipaiðnaðarins innan ESB opnaði fyrir nýjan möguleika fyrir íslenskan skipasmíðaiðnað og sýndi í raun fram á samkeppnishæfni hans, þ.e. ef alþjóðleg samkeppni er stunduð á grunni jafnræðis. Nokkurrar bjartsýni gætti því hjá innlendum aðilum á þessum tíma allt þar til fréttir tóku að berast frá ESB um nýjar leikreglur fyrir skipaiðnaðinn.

Í árslok 2003 staðfesti framkvæmdastjórn ESB nýjan starfsramma fyrir skipasmíða- og skipaviðgerðaiðnaðinn undir fyrirsögninni „LeaderSHIP 2015“. Það var ákveðið að skilgreina skipaiðnað á EES-svæðinu sem hátækniiðnað og því verður heimilt að greiða niður allt að 20% af þróunarkostnaði viðkomandi skips. Evrópskir samkeppnisaðilar virðast nú þegar hafa nýtt sér þessar heimildir með þeim afleiðingum að þeir bjóða lægra verð. Þetta kann að gera samkeppnisstöðu íslenskra skipasmíðastöðva erfiðari. Því tel ég mikilvægt að íslensk stjórnvöld fylgist vel með áframhaldandi þróun og vinni frekari úttektir á þessu máli.

Hæstv. forseti. Um mitt ár 2003 skipaði ég nefnd sem átti m.a. að kanna breytingar á starfsskilyrðum skipasmíðaiðnaðarins hér á landi þar sem áhersla væri lögð á að greinin gæti keppt við erlenda keppinauta á grunni jafnræðis. Nefndin var skipuð fulltrúum frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Samtökum iðnaðarins og skipaiðnaðinum. Skýrslu nefndarinnar var skilað til mín í febrúar 2005. Helstu niðurstöður voru:

1. Endurgreiðslur aðflutningsgjalda verði 6% í stað 4,5%, eins og þær eru nú.

2. Umrædd endurgreiðsluprósenta verði leiðrétt afturvirkt þannig að í stað 4,5% endurgreiðslu gildi 6% frá og með árinu 2002.

3. Lagagrunnur verði treystur.

4. Stjórnvöld taki afstöðu til þess á grunni frekari úttekta hvort farin verði hér á landi sú leið sem gert er ráð fyrir í LeaderSHIP 2015 og leiðbeinandi reglum ESB.

5. Tryggt verði að alþjóðlegar viðgerðar- og viðhaldskröfur verði uppfylltar.

Þessar niðurstöður nefndarinnar hef ég kynnt fyrir ríkisstjórn og mun fylgja því fast eftir að farið verði eftir meginniðurstöðum nefndarinnar hvað endurgreiðsluhlutfall aðflutningsgjalda varðar.

Hæstv. forseti. Íslenskur skipasmíðaiðnaður veitir fjölda manns atvinnu. Mikill iðnaður dafnar enn fremur við hlið skipasmíðaiðnaðarins. Því er ekki eingöngu um að ræða skipaiðnað í þrengstu merkingu, heldur ekki síður um grundvöll og framtíð annarrar tækni- og veiðarfæraframleiðslu sem honum tengist. Íslenskur skipaiðnaður hefur sýnt það hin síðustu ár að hann er fyllilega samkeppnishæfur við erlenda keppinauta hvað verð og gæði varðar. Dæmin sanna að það bil sem var milli innlendra og erlendra aðila í þessum iðnaði er nær horfið og má vitna til orða forsvarsmanna meðal bæði íslenskra útvegsmanna og íslenskra skipasmíðastöðva sem taka undir þá fullyrðingu. Er sú þróun einkar ánægjuleg.

Markmið mitt sem iðnaðar- og viðskiptaráðherra er að búa iðnaðinum þau starfsskilyrði að samkeppni við erlenda keppinauta fari fram á grunni jafnræðis. Því markmiði mun ég leitast við að fylgja eftir með úrbótum (Forseti hringir.) sem byggja á fyrrgreindu nefndaráliti.