131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar.

[13:44]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er gleðilegt að íslenskur skipasmíðaiðnaður er orðinn samkeppnishæfur við þann pólska en hann hefur verið helsta samkeppnisógnin á þessum markaði. Sá litli munur sem var á tilboðum Slippstöðvarinnar á Akureyri og pólskrar skipasmíðastöðvar er skýrt dæmi um þetta. Eins hafa íslenskir útgerðarmenn valið að semja við íslenskar skipasmíðastöðvar frekar en þær pólsku. Það segir einmitt stóra sögu um hvernig einkamarkaðurinn hagar sér í samkeppnisumhverfi. Það eru þó ákveðin vonbrigði að ekki var fylgt eftir þeim tillögum sem urðu til í samvinnu Samtaka iðnaðarins og iðnaðarráðuneytisins haustið 2002 eftir að málið kom upp 2001.

Hæstv. forseti. Ég legg til, til þess að við höfum stöðuna fyrir framan okkur, að ef það verður endanlegt að varðskipin fari til Póllands í viðgerð að þessu sinni (Gripið fram í.) verði Ríkisendurskoðun falið að fylgjast með endurbótum á varðskipunum í Póllandi og það verði kannað ofan í kjölinn hver verði endanlegur kostnaður fyrir íslenska ríkið. Það kæmi mér í það minnsta mjög á óvart ef það verður niðurstaðan þegar öll kurl koma til grafar að það tilboð sem við höfum nú á borðinu sýni réttan kostnað. Ríkisendurskoðun ætti að vera fullfær um til að skoða hvað er rétt í þessu efni. Það vita allir sem farið hafa með skip utan í slipp að það kostar mikið og fáir trúa því þeim tölum sem Ríkiskaup hafa nefnt í því sambandi. Ég tek undir það með forsvarsmönnum Slippstöðvarinnar að jákvæðni hafi vantað í þetta mál.

Hæstv. forseti. Það skiptir þjóðarbúið miklu máli að íslenskur iðnaður sé samkeppnisfær, ekki síst þegar horft er til viðhalds og smíði skipa. Auðvitað verður eyþjóð eins og við erum að horfa til þess. Ég fagna því að (Forseti hringir.) iðnaðarráðherra hefur því ákveðið að fylgja eftir þeim tillögum nefndarinnar sem hún hefur nú í höndum.