131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[14:05]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram ágæt umræða í allan morgun um það frumvarp sem nú er til umræðu, um breytingu á sveitarstjórnarlögum, og fjallar í meginatriðum um að breyta þeim kjördegi sem gert var ráð fyrir til að kjósa um sameiningu sveitarfélaga. Ákveðið hafði verið að kjördagur yrði 23. apríl í fyrri samþykkt okkar á Alþingi en nú er lagt til að kjördagurinn verði færður aftur til 8. október, að því undanskildu að sveitarfélögin sem hafa unnið að sameiningarhugmyndum mjög ákveðið og með fullum þunga, Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit, Hvítársíðuhreppur, Kolbeinsstaðahreppur og Skorradalshreppur kjósi um sameiningu sína þann 23. apríl.

Sameiningarnefndin hefur starfað í átakinu til eflingar sveitarstjórnarstigsins og full samstaða var um það í nefndinni að fara fram á að færa kjördaginn. Ástæðan var tvíþætt, annars vegar tók það lengri tíma en gert hafði verið ráð fyrir að ná samkomulagi í tekjustofnanefnd um breytingar á tekjustofnum sveitarfélaga og því dróst að sameiningarnefnd kynnti endanlegar tillögur sínar. Hin ástæðan var sú að undirbúningur atkvæðagreiðslu um tillögur sameiningarnefndar er kominn mjög misjafnlega á veg. Gert er ráð fyrir því í tillögunni að samstarfsnefndirnar sem álíta að þær muni verða komnar betur af stað með tillögur sínar og gera ráð fyrir að geta kosið um sameiningu fyrir 8. október, að leyft verði að fara í gang með það ferli og ég tel það mjög heppilegt.

Við sem höfum starfað í átakinu um að efla sveitarstjórnarstigið hefðum viljað að verkefnið í heild gengi hraðar, ekki síst með tilliti til þess að sveitarstjórnarkosningar eru vorið 2006. Það er mikið álag á sveitarstjórnarmenn sem vinna að sameiningarmálum og því vildum við að undirbúningsferlinu væri lokið á góðum tíma fyrir sveitarstjórnarkosningar því eðlilega tekur undirbúningur væntanlegra kosninga mikinn tíma frá kjörnum fulltrúum.

Við skulum muna að þetta var niðurstaða fulltrúa úr sameiningarnefnd þar sem allir flokkar eiga fulltrúa sína innan borðs og fulltrúar sveitarfélaganna eru mjög öflugir í þeirri nefnd. Um þetta er því mjög góð samstaða, en meginmálið er að unnið verði áfram að verkefninu og að sem best samstaða náist meðal íbúa landsins um að sameina sveitarfélög. Eftir alla vinnuna við tillögugerð taka íbúar einstakra sveitarfélaga afstöðu til þeirra tillagna sem á endanum koma fram hjá sameiningarnefnd og verða væntanlega kynntar á morgun á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Átakið um eflingu sveitarstjórnarstigsins felur einkum í sér að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Að fækka fámennum sveitarfélögum með sameiningu sveitarfélaga og aðlaga tekjustofna sveitarfélaga að breyttum verkefnum og breyttri sveitarfélagaskipan. Ef tillögur sameiningarnefndar verða samþykktar hefur náðst verulegur áfangi í eflingu sveitarstjórnarstigsins og þá er hægt að snúa sér að því að flytja aukin verkefni til sveitarfélaganna.

Það hefur lengi legið í augum uppi að velferðarverkefni ýmiss konar ættu betur heima hjá sveitarfélögunum í nærumhverfi notendanna en hjá ríkinu. Ég nefni sérstaklega málefni fatlaðra þar sem búið var að vinna mjög öfluga vinnu við að flytja til sveitarfélaganna en náðist ekki samstaða um á lokastigum þess sem var búið að undirbúa fyrir tveimur til þremur árum, en nú skapast vonandi skilyrði til þess að sá málaflokkur verði fluttur til sveitarfélaganna. Einnig hafa fleiri málaflokkar verið ræddir, eins og fram hefur komið í umræðunni, sem eiga betur heima hjá sveitarfélögunum.

Hæstv. félagsmálaráðherra kynnti í morgun þær tillögur tekjustofnanefndar sem nú liggja fyrir. Ég tel að með þeirri niðurstöðu sem náðist í tekjustofnanefndinni séu komnar fram mjög góðar tillögur um að efla fjárhag sveitarfélaganna, sérstaklega þeirra sveitarfélaga þar sem sárast brennur. Auðvitað skiptir máli að sveitarstjórnarstigið í heild sé sem öflugast, ekki eingöngu stóru sveitarfélögin sem hafa það mikla tekjustofna að þau telja sig ekki þurfa að nýta þá til fulls. Þess vegna hefur vinnan að undanförnu hjá tekjustofnanefndinni snúið að því að koma með tillögur sem snúa að sveitarfélögum þar sem hefur verið rekstrarvandi og tekjuhalli sem á sér ýmiss konar uppruna og með verkefnið hefur verið unnið af fullum heilindum hjá tekjustofnanefndinni, sérstaklega á síðustu mánuðum. Nú eru því komnar mjög góðar tillögur sem hæstv. félagsmálaráðherra fór mjög vel yfir í morgun og ég ætla ekki að endurtaka það allt saman.

Hæstv. forseti. 9 milljarða ávinningur fyrir sveitarfélögin skiptir auðvitað gífurlega miklu máli. Það skiptir mjög miklu máli fyrir öll sveitarfélögin, en sérstaklega fyrir þau sem hvað höllustum fæti standa. Eins og einnig hefur komið fram í umræðunni eru varanleg áhrif af tillögunum 1,5 milljarðar á ári hverju og skiptir stóru og miklu máli fyrir sveitarfélögin.

Hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verður áfram mikið. Á meðan sveitarfélögin eru svo misjöfn að stærð og gerð og flatarmáli og ýmislegt annað sem ber á milli þegar borið er saman sveitarfélag og sveitarfélag, þá verður jöfnunarsjóðurinn að vera til staðar. Menn hafa gjarnan gagnrýnt það í umræðu á þinginu að jöfnunarsjóðurinn stækki og stækki og gegni sífellt meira hlutverki. En við því verður ekkert gert meðan sveitarstjórnarstigið og sveitarfélögin í landinu eru svo ólík sem raun ber vitni.

Menn hafa gjarnan tekið ýmis dæmi því til rökstuðnings. Ef við berum saman Raufarhöfn og Reykjavík eða Kópasker og Kópavog erum við auðvitað ekki að tala um sams konar sveitarfélög. Til þess þurfum við auðvitað að hafa jöfnunarsjóðinn til að takast á við það verkefni að jafna á milli sveitarfélaganna.

Jöfnunarsjóður hefur margþætt hlutverk. Eitt þeirra er að veita fólksfækkunarframlög. Á síðasta ári fengu 38 sveitarfélög fólksfækkunarframlög, sem segir þá sögu að vandi sveitarfélaganna er ekki síst af byggðalegum toga. Sá tilflutningur fólks í landinu sem orðið hefur gerir það að verkum, þegar íbúum sveitarfélaga sem byggt hafa upp ákveðna þjónustu fækkar, að færri eru eftir til að standa undir þeirri þjónustu sem sveitarfélögin eiga að veita.

Í umræðunni um tekjustofna sveitarfélaga var á tímabili talað um að hugsanlega ætti að hækka útsvarsheimildir sveitarfélaga. Reyndin er sú að 30 sveitarfélög hafa ekki fullnýtt útsvarsheimildir sínar. Það segir auðvitað nokkra sögu að þar eru stærstu og öflugustu sveitarfélögin. Hæstv. forseti, af því má sjá að almenn hækkun á útsvari hefði ekki skilað þeim sveitarfélögum sem eiga við fólksfækkun og tekjusamdrátt að stríða neinum árangri. Slíkar aðgerðir, eins og vinna tekjustofnanefndar þróaðist, hefði ekki haft þau áhrif sem til var ætlast var til.

Þegar menn glíma við fjárhagsvanda, m.a. vegna fólksfækkunar og af öðrum orsökum verður ekki við það ráðið með slíkum almennum aðgerðum. Þar fyrir utan höfum við stefnt að því að lækka frekar skatta heldur en hitt, í því góða efnahagsástandi sem ríkt hefur í landinu. Verulegt átak hefur verið gert í því eins og fram hefur komið á undanförnum mánuðum. Á Alþingi voru afgreiddar miklar og ánægjulegar breytingar á skattkerfinu fyrir áramót. Þess vegna kom mjög á óvart tillaga frá þingflokki Vinstri grænna um að hækka útsvarsprósentuna um 1%, sérstaklega þegar litið er til þess að þau sveitarfélög sem átt hafa í vanda hefðu í raun ekki hagnast að neinu marki við slíka breytingu. Það að einmitt þetta skyldi vera lausn þingflokks Vinstri grænna á fjárhagsvanda sveitarfélaga kom mjög á óvart. En tillögur stjórnarandstöðunnar hafa fremur verið í þá áttina, ekki verið ábyrgar og ólíklegt að þær mundu skila verulegum árangri. Það er því ánægjuefni að nú skuli komin niðurstaða af nefndarstörfum fulltrúa sveitarfélaganna og ríkisvaldsins um hvernig verði leyst úr fjárhagsvandanum.

Þegar það kemur síðan að því að flytja verkefni — vonandi eflum sveitarstjórnarstigið svo að það verði hægt að flytja ákveðin verkefni yfir til sveitarfélaganna — þá fylgja auðvitað þeir tekjustofnar með sem til þarf og verður samið þá samhliða. Ég endurtek að sumir málaflokkar eiga mun betur heima hjá sveitarfélögunum en hjá ríkinu. Ég nefni enn og aftur málefni fatlaðra í því samhengi, þau verkefni er hægt að samþætta vel félagsþjónustu sveitarfélaga og eiga vel heima þar.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar. Menn hafa farið vel yfir þær tillögur sem lagðar hafa verið fram og þær munu kynntar á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á morgun. Við vonum að öll sú vinna sem í hefur verið ráðist verði til að efla sveitarstjórnarstigið og ég trúi því að það verði niðurstaðan á endanum.