131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[14:21]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sá ástæðu til að lýsa yfir sérstakri ánægju með þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir frá hluta tekjustofnanefndar. Mér þykir það svolítið undarlegt þar sem ég held að fáir séu ánægðir með niðurstöðuna, hvort sem um er að ræða fulltrúa ríkis eða sveitarfélaganna.

Hv. þingmaður er annað hjólið undir verkefnisstjórnarvagninum sem stýrir þessu átaki til að sameina sveitarfélög og efla þau, með hv. þm. Hjálmari Árnasyni og formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni. Þess vegna hélt ég að hv. þingmaður hefði fylgst með því hvernig þessir hlutir hafa gengið fyrir sig og vissi betur en svo að standa í ræðustóli Alþingis og lýsa yfir sérstakri ánægju eða fögnuði með niðurstöðuna.

Hinn 16. febrúar héldu félags- og fjármálaráðherra fund með verkefnisstjórn, sem hv. þingmaður er í, um eflingu sveitarstjórnarstigsins þar sem þeir greindu frá því að fulltrúum ríkisins í tekjustofnanefnd væri veitt umboð til að leggja fram nýjar tillögur. Jafnframt kom fram af hálfu ráðherranna að ekki væri mögulegt að koma frekar til móts við sjónarmið fulltrúa sveitarfélaganna í tekjustofnanefnd. Með öðrum orðum, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra funduðu með verkefnastjórn og gerðu henni grein fyrir því að nú skyldi stilla fulltrúum sveitarfélaga upp við vegg og segja: Hingað og ekki lengra. Takið þetta eða þið fáið ekki neitt. Eftir alla þá mánuði sem reynt hafði verið að ná vitrænu samkomulagi í nefndinni er þetta niðurstaðan, eftir fund hæstv. ráðherra með verkefnisstjórn þessa sérstaka verkefnis.

Mér þykir undarlegt að hv. þingmaður tali eins og um sé að ræða frjálst samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga, samkomulag sem aðilar beggja megin borðs séu ánægðir með. Fulltrúar sveitarfélaganna lýsa því yfir að þeir líti eingöngu á þetta sem áfanga í rétta átt. Fulltrúar ríkisins líta svo á að tímabundið sé vandinn leystur en hins vegar þurfi að gera meira. Því spyr ég hv. þingmann: Er hún sammála því að hér sé eingöngu um lítið skref í rétta átt að ræða?