131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[14:25]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar tveir aðilar ræða saman á sanngirnisgrunni, báðir jafnréttháir og komast að niðurstöðu, þá kallast það samkomulag. Þegar tveir aðilar setjast niður og ræða saman en annar er stærri og sterkari og þvingar hinn til að fallast á sín sjónarmið þá er það ekki samkomulag í minni orðabók heldur heitir það nauðasamningur, sem mér virðist að hluti af fulltrúum sveitarfélaganna ætli að taka. Reyndar á eftir að fara í þessa umræðu á landsþingi sveitarfélaganna á morgun og ég trúi því ekki, miðað við þann anda sem var á fjármálaráðstefnunni síðasta haust, að fulltrúar sveitarfélaganna mæti á landsþing, kokgleypi allt sem sagt var á fjármálaráðstefnunni og fallist á nauðasamninginn sem hér er lagður fram.

1,5 milljarðar til frambúðar sagði hv. þingmaður, á sama tíma og sveitarfélögin eru rekin með 3–4 milljarða kr. halla á hverju ári. Þetta er geysilega stórt skref og til mikillar aðstoðar fyrir þau sveitarfélög sem eru í miklum fjárhagsvanda eða hitt þó heldur.