131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[14:26]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er vert að rifja upp hvernig var farið af stað í þetta verkefni um eflingu sveitarstjórnarstigsins og þróun vinnu tekjustofnanefndar. Ég tel reyndar ekki sérstaka ástæðu til að fara yfir það hér. Það hefur verið gert við önnur tækifæri. En þetta varð niðurstaðan í þessum áfanga. Auðvitað þarf að vinna betur að því síðar og koma með tillögur þegar ákveðið verður hvaða verkefni færast yfir til sveitarfélaganna. Þetta er sá áfangi sem náðist núna. Sumt eru réttlátar og ágætar breytingar en sumt er hrein viðbót við tekjustofna sveitarfélaga sem skiptir miklu máli. Það að gera lítið úr því er fáránlegt.

Auðvitað komu fram tillögur, t.d. um útsvarshækkanir og aðrar tillögur sem er ekki hægt að fallast á þegar staðan er sú að stór hluti sveitarfélaganna nýtir sér ekki þær heimildir sem hann hefur til útsvarshækkana.