131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[14:27]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir var mjög leitandi í málflutningi sínum, undrandi og forviða yfir tillögum sem fram höfðu komið frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í skattamálum. Hún sagðist ekki skilja þær. Mig langar að reyna að varpa ljósi á afstöðu okkar.

Þegar ríkisstjórnin bar fram þá hugmynd og gerði að lögum á endanum að lækka skattprósentuna þá lögðum við til að sú lækkun næði ekki fram að ganga. Þegar sýnt var að þetta yrði keyrt í gegn vildum við að skatttekjur ríkissjóðs vegna þessa yrðu færðar yfir til sveitarfélaganna í auknum heimildum þeirra til álagningar útsvars. Þannig mundum við styrkja stöðu þeirra.

Við sögðum þó alla tíð, sem kemur greinilega fram í greinargerð með þingmálum okkar, að við litum ekki á þetta sem neina heildar- eða allsherjarlausn. Við lögðum áherslu á, svo að ég vitni í greinargerð þingmálsins, með leyfi forseta, að þessu „yrði fylgt eftir með breytingum á úthlutunarreglum jöfnunarsjóðs, þannig að framlög sjóðsins nýtist til enn frekari tekjujöfnunar og jöfnunar á aðstöðu sveitarfélaganna, þá gæti það orðið til umtalsverðra bóta.“

En hin almenna skoðun okkar er sú að það þurfi að styrkja fjárhagsstöðu sveitarfélaga og það til frambúðar með föstum framlögum í stað skammtímalausna sem hér hefur verið boðið upp á í of ríkum mæli.