131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[14:31]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykja það heldur kaldar kveðjur til Framsóknarflokksins að segja að Sjálfstæðisflokkurinn taki þá helst að sér sem minna mega sín.

Hvað varðar tillögur okkar í skattamálum þá höfum við lagt fram tillögur sem ganga einmitt út á að jafna aðstöðumun sveitarfélaganna, um eflingu jöfnunarsjóðs og um breytt fyrirkomulag, breyttar reglur sem þar eigi að vinna samkvæmt og ég var að vísa í skírskotun í það. Við höfum bent á að almennt sé vandi sveitarfélaganna að aukast. Skuldastaða þeirra versnar um 3–5 milljarða á hverju ári. Hún hefur hlaðist upp í 35 milljarða á síðustu 11 árum. Þetta er vandi sem við þurfum að horfast í augu við og við höfum gert það í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við höfum sett fram tillögur til úrbóta, ekki bara varðandi útsvarshækkun, síður en svo — (Forseti hringir.) það er gert í samhengi við tekjuskattsbreytingarnar — heldur á ýmsum öðrum sviðum.