131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[14:35]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er gott að heyra að við höfum öflugan fulltrúa í því að reyna að draga úr vexti útgjalda hins opinbera, við getum þá væntanlega sameinast í baráttu okkar í því málefni. En ég hlýt að spyrja þingmanninn af þessu tilefni hvort hann sé þá á móti þeim tillögum sem nú eru uppi um að styrkja og efla mjög fjárhag sveitarfélagana. Skiptir það ekki nokkru máli að fjárhagur sveitarfélaganna styrkist um 9,5 milljarða á næstu þremur árum og síðan varanlega um 1,5 milljarða eða má kannski skilja orð þingmannsins svo að hann sé hreinlega á móti því að efla sveitarfélögin? Eru það skilaboðin sem hann kom með í andsvari sínu?