131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[14:39]

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur gert tekjustofna sveitarfélaga að umtalsefni í framsögu um það frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Það gefur mér tilefni til að ræða vandamál sem blasa við og tengjast reglum um mat á fasteignum og um álagningarstofn fasteignaskatts. Það eru vandamál sem snúa að tekjulágum einstaklingum og tekjulágum sveitarfélögum.

Um aldamótin hófst Fasteignamat ríkisins handa við endurmat á öllu íbúðarhúsnæði í landinu. Það endurmat leiddi til verulegra hækkana árið 2001 á áður gildandi fasteignamati íbúðarhúsnæðis. Bæði ríkisstjórnin og sveitarstjórnir lýstu því yfir að endurmatið mundi ekki leiða til hækkana á eignarskatti og fasteignaskatti. Raunin varð allt önnur.

Við álagningu gjaldárið 2002 greiddu framteljendur sem áttu ekki aðrar eignir en skuldlausar tveggja til fjögurra herbergja íbúðir eignarskatt í fyrsta skipti á ævinni. Fasteignaskattar hafa einnig hækkað vegna endurmatsins og enn frekar á grundvelli verulegra hækkana á markaðsverði íbúðarhúsnæðis, en skv. 27. gr. laga nr. 6/2001 skal matsverð fasteignar vera gangverð hennar umreiknað til staðgreiðslu.

Íbúðaverð hækkaði á öllu landinu milli áranna 2003 og 2004 að Vestfjörðum undanskildum. Verð á íbúðarhúsnæði á Austurlandi hækkaði mest eða um 35%, í Reykjavík nam hækkunin tæpum 14%, á Norðurlandi vestra 12,1% og á Norðurlandi eystra 10,6%. Í öðrum landshlutum nam hækkunin 9–10% nema á Vestfjörðum eins og áður sagði, en þar lækkaði íbúðaverð, hæstv. félagsmálaráðherra, um 1,7%. Þær tölur sem ég fór með byggi ég á frétt úr Fréttablaðinu nýlega.

Almennt má segja að hækkun íbúðaverðs á milli áranna 2003 og 2004 hafi numið að meðaltali 10% umfram almennar verðlagshækkanir samkvæmt vísitölu neysluverðs og hefur haft í för með sér sambærilega hækkun fasteignaskatta. Allt bendir til þess að matsverð fasteigna muni hækka verulega umfram almennt verðlag á þessu ári vegna mikillar eignaverðbólgu sem hófst á síðasta ári. Eignaverð hækkaði til að mynda um 4,1% að raunvirði í janúar og um 25% að raunvirði síðustu tólf mánuði. Allir vita að þessa eignaverðbólgu má að miklu leyti rekja til verulega aukins framboðs lánsfjár til íbúðakaupa fyrir tilstilli banka sem ekki vita aura sinna tal og eru í vandræðum með að velta og fjárfesta stórgróða sinn og auð.

Ég vek athygli á því að fasteignaskattar eru í eðli sínu gjöld sem ætlað er að mæta kostnaði sveitarfélaga við að þjónusta fasteignaeigendur og þessi gjöld eru álögð óháð tekjum. Útsvar er hins vegar lagt á sem hlutfall af tekjum, sem hlutfall af tekjuskattsstofni. Veruleg hækkun á markaðsverði íbúðarhúsnæðis síðustu mánuði og, hæstv. félagsmálaráðherra, fyrirsjáanleg hækkun á þessu ári umfram almennar verðlagshækkanir ætti ekki að mínu mati að hafa áhrif á stofn til álagningar fasteignaskatts. Kostnaður sveitarfélaga af þjónustu við íbúðareigendur eykst ekki í réttu hlutfalli við hækkun á markaðsverði íbúða. Það vita allir. Þessi eignaverðbólga, sem ég kalla svo, hefur bitnað og mun bitna harðast á þeim sem lægstar hafa tekjurnar, svo sem eldri borgurum og einstæðum foreldrum. Og vel að merkja, það má halda því fram með gildum rökum að viðmiðun fasteignaverðs við gangverð, við markaðsverð, mismuni einnig sveitarfélögum. Er þannig ljóst að sveitarfélög á Vestfjörðum standa höllum fæti og er fjárhagsstaða þeirra þó nógu slæm fyrir vegna fólksfækkunar. Brýnt er að setja nýjar reglur um álagningarstofn fasteignaskatts og styrkja tekjustofna sveitarfélaga með öðrum hætti en síhækkandi fasteignasköttum sem á eru lagðir óháð tekjum, öflun tekna til sveitarfélaga verður að miða við tekjur einstaklinganna sem þar búa. Það er brýnt að álagningargrundvelli fasteignaskatts verði breytt fyrir álagningu 2006 svo að íbúðareigendur þurfi ekki að sæta stórfelldum álögum umfram almennar verðlagshækkanir og svo að sveitarfélögum verði á árinu 2006 ekki mismunað aftur.

Útbýtt var á þinginu í dag þingsályktunartillögu frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um mat á fasteignum og um álagningargrundvöll fasteignaskatts. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra sameiginlega að skipa nefnd til að gera tillögur um breytingar á reglum um ákvörðun matsverðs íbúðarhúsnæðis samkvæmt lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, og á reglum um álagningarstofn og álagningu fasteignaskatts samkvæmt lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Skal nefndin leita leiða til að finna nýjan álagningargrundvöll fasteignaskatts þannig að álagning endurspegli kostnað sveitarfélaga af þjónustu við íbúðareigendur, enn fremur að rofin verði tengsl álagningarstofns við skyndilegar breytingar á markaðsverði íbúða og álagning fasteignaskatts taki fremur breytingum í takt við almennar verðlagshækkanir.“

Það er grundvallaratriði í mínum augum í þessu sambandi að skatturinn er lagður á óháð tekjum og sú aðferð mismunar sveitarfélögum. Hún gerir það í „det lange løb“. Þetta er jafnframt að mínu mati verðugt og brýnt verkefni fyrir tekjustofnanefnd sveitarfélaganna og hún verður ávallt að hafa það a.m.k. að leiðarljósi að sveitarfélög sitji við sama borð. Ég spyr því hæstv. félagsmálaráðherra um afstöðu hans til málsins, til þeirra fasteignaskattahækkana sem þegar hafa orðið vegna eignaverðbólgu og þeirra hækkana sem blasa við vegna þeirra hækkana sem ég veit að hæstv. ráðherra gerþekkir og byrjuðu haustið 2004. Hvað ætlar hæstv. félagsmálaráðherra að gera í málinu? Hvað leggur hæstv. félagsmálaráðherra til? Vill hann aftengja þessa tímasprengju hækkana fasteignaskatta á næsta ári?

Þingflokkur Vinstri grænna hefur þungar áhyggjur af stöðu mála og við höfum lagt fram ábyrgar tillögur í þeim efnum og þingsályktunartillaga þessi er í þeim málefnalega og ábyrga anda.