131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:01]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það fari ekki illa á því að efna til einhvers konar eldhúsdags um málefni sveitarfélaganna eins og í rauninni er verið að gera í dag með þeirri umræðu sem fram fer um stöðu sveitarfélaganna, bæði með hliðsjón af framtíðarskipulagi þeirra og eins hinni fjárhagslegu stöðu. Tilefnið er þetta litla frumvarp sem hér liggur fyrir um að fresta gildistökuákvæði um hvenær eigi að greiða atkvæði um sameiningarátak sem fyrirhugað er. Ég er alveg sammála því að það er sjálfsagður hlutur að fresta þeirri atkvæðagreiðslu og ég tel að um það mál geti tekist prýðileg sátt meðal allra þingmanna. Vonandi verður hægt að ljúka afgreiðslu þess sem fyrst þannig að þau mál liggi einfaldlega klárlega fyrir.

Þetta mál hefur hins vegar þróast þannig sem er mjög gott að núna fer fram ágætisumræða um hina margslungnu stöðu sveitarfélaganna og við skiptumst á skoðunum um þessi mál. Líka vegna þess að það er komin niðurstaða í langvinnar viðræður sveitarfélaganna og ríkisins um fjárhagsstöðu og fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga sem vissulega skilar verulegum árangri. Sérstaklega er það athyglisvert að næstu þrjú árin verður veitt verulegt fjármagn til hinna minni sveitarfélaga í landinu þar sem vandinn hefur eingöngu verið til staðar. Sannleikurinn er nefnilega sá að það þarf að ræða þessi mál með tvenns konar hætti, annars vegar að fjalla um fjárhagsstöðu sveitarfélaganna og síðan hitt, sem er auðvitað undirliggjandi þessu frumvarpi, spurningarnar sem lúta að sameiningunni og hvernig menn vilja fara í þau mál.

Það er einfaldlega rangt sem haldið hefur verið fram að sveitarfélög í landinu glími við almennan fjárhagslegan vanda. Það er rangt t.d. sem kemur fram í bókun Lúðvíks Geirssonar, bæjarstjóra í Hafnarfirði, um þetta. Það er ekki þannig. Sveitarfélög eru ekki að glíma við almennan fjárhagslegan vanda. Mörg þeirra, a.m.k. ýmis, eru hins vegar að glíma við mikinn fjárhagslegan vanda. Þegar við skoðum þessi mál í heild sinni blasir það við að sveitarfélög hafa verið í vanda, þau voru rekin með 6,5 milljarða halla árið 2003. Það er talið að sá halli muni hafa verið miklu minni á síðasta ári, um 3 milljarðar, og um 1,5 milljarðar kr. á þessu ári áður en gripið er til þeirra aðgerða sem hér er verið að tala um og mæla fyrir um. Þetta byggi ég á þjóðhagsspánni sem lögð var fram þann 15. janúar og er auðvitað það gagn sem við helst getum stuðst við í þessu sambandi.

Engu að síður höfum við fréttir af því að staða ýmissa sveitarfélaga sé mjög alvarleg. Þegar við fáum tölur um hana segir það okkur að staða sveitarfélaganna sé að skána að þessu leytinu eins og ég rakti. Á sama tíma og við vitum að ýmis sveitarfélög búa við gríðarlegan vanda blasir það við og er auðvitað fyrst og fremst það sem við lesum út úr þessu að bilið milli þeirra sveitarfélaga sem búa við bærilegan fjárhag og hinna sem búa við slæman fjárhag eykst. Vandinn er með öðrum orðum alls ekki almennur. Þetta er sértækur vandi tiltekinna sveitarfélaga við tilteknar aðstæður. Það er þetta, virðulegi forseti, sem við verðum þess vegna að beina sjónum okkar að, hvernig við ætlum að greiða úr vanda sveitarfélaga sem sannarlega hafa búið við tekjubrest sem í langflestum tilvikum stafar af vanda og erfiðleikum í atvinnugreinum viðkomandi sveitarfélaga og því að sveitarfélögin búa við fólksfækkun. Það er fólksfækkunin auðvitað og hinn efnahagslegi samdráttur í slíkum sveitarfélögum sem veldur því að sveitarfélögin rata í vandræði.

Margvíslegar tölur liggja fyrir um þetta. Mér er t.d. kunnugt um að í aðdraganda þeirrar vinnu sem hérna er verið að byggja á hafi komið fram að sum sveitarfélög, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu, hafa upplifað gífurlega tekjuaukningu á tilteknu árabili á meðan önnur sveitarfélög hafa verið í þeirri stöðu að tekjur þeirra hafa staðið í stað eða jafnvel minnkað á sama tíma og verðlagsþróunin hefur verið þeim óhagstæð. Það þýðir að meira ber í milli þess að þau ná endum saman en áður. Þetta er auðvitað vandinn.

Við þurfum ekki annað en að velta fyrir okkur fréttum síðustu daga. Hafa menn ekki tekið eftir því t.d. að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að bjóða út lóðir og mokgræða? Það er svo komið að verðlag á íbúðarlóðum á höfuðborgarsvæðinu er á fermetra orðið hærra eða a.m.k. jafnhátt og íbúðarverð í fermetrum á einstökum íbúðum úti á landsbyggðinni. Sú er staðan. Og halda menn að það sé þá ekki munur á aðstöðu slíkra sveitarfélaga sem geta mokað til sín tekjunum með því að bjóða út lóðir og hinum sem búa við það að íbúunum fækkar og tekjur þeirra minnka af þessum ástæðum?

Hafa menn kannski ekki tekið eftir því að fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur rokið upp úr öllu valdi? Vita menn ekki að það þýðir að fasteignaskattarnir hafa hækkað samfara þessu jafnvel þó að menn hafi ekki hækkað skattprósenturnar, jafnvel þó að menn hafi í ýmsum tilvikum lækkað þessar prósentur?

Í Viðskiptablaðinu 15. janúar sl. er ákaflega greinargott yfirlit þar sem þetta kemur mjög greinilega fram. Ef sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu á síðustu þremur árum eru skoðuð sést að frá 2001–2004 hafa fasteignaskattar þessara sveitarfélaga hækkað úr 26% upp í 71%. Tvö sveitarfélög eru með 61% og 71% hækkun. Þetta er engin smáviðbót sem kemur þarna í kassa sveitarfélaganna. Svo voga menn sér það, eins og bæjarstjórinn í Hafnarfirði sem fær 71% hækkun á fasteignasköttum á þessum árum, að tala um einhvern almennan vanda sveitarfélaganna. Þetta er enginn almennur vandi. Það er sértækur vandi sem við erum að horfa til, og það er alveg lágmarkskrafa þegar við ræðum þessi mál að menn a.m.k. setji sig í þær stellingar að reyna að greina vandann rétt. Ef menn greina þennan vanda út í loftið verða tillögurnar út í loftið, alveg eins og maður hefur orðið var við í dag. Menn tala um að það sé sérstakt bjargræði fyrir sveitarfélög í landinu að hækka útsvar þó að allir viti að það kæmi ekki neitt að notum fyrir þau sveitarfélög sem hafa það verst í landinu í dag. (Gripið fram í.) Það er ekkert sem máli skiptir. Ég er hissa á þessu frammíkalli frá hv. þingmanni Samfylkingarinnar. Ég hélt að hann myndi eftir því að hann væri ekki lengur í Alþýðubandalaginu með þessum gömlu jöxlum úr Vinstri grænum, hann er kominn í Samfylkinguna, þessi maður, og þarf ekki að vera að verja tillögur úr alþýðubandalagsvinstri-grænni átt með frammíköllum sínum.

Það eru þessi litlu sveitarfélög, minni sveitarfélög sem hafa búið við versnandi tekjuþróun sem þarf fyrst og fremst að horfa til. Það er auðvitað verið að gera það með þessum tillögum. Við sjáum það þegar við skoðum tillögurnar að verið er að leggja til 2,1 milljarð á þremur árum í sérstakt viðbótarframlag til jöfnunarsjóðs, það er verið að gera ráðstafanir varðandi varasjóð húsnæðismála sem kemur sérstaklega þeim sveitarfélögum til góða þar sem menn búa við það að íbúum hefur fækkað svo að menn standa uppi með tómar íbúðir í félagslegu húsnæði. Svo eru líka ýmsar aðrar aðgerðir í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Menn verða auðvitað að átta sig á hver vandinn er þegar verið er að tala um þessa hluti en ekki blaðra eitthvað út í loftið um einhvern almennan vanda sem er ekki til staðar. Það á fyrst og fremst að reyna að koma til móts við hagsmuni þessara sveitarfélaga og það er auðvitað ákveðið áhyggjuefni hvernig sú umræða fer fram. Hún er ekki umræða eingöngu þar sem hagsmunir ríkis og sveitarfélaga takast á. Það er auðvitað ljóst mál að hér takast líka á ólíkir hagsmunir sveitarfélaganna sjálfra. Þess vegna er mjög mikilvægt að halda á lofti þeim sjónarmiðum sem ég er að rekja.

Mig langar aðeins að koma að því sem menn hafa verið að ræða um og ætti auðvitað að vera hið stóra tilefni umræðunnar vegna frumvarpsins sjálfs, þessar sameiningarhugmyndir sem uppi eru. Ég vil lýsa viðhorfum mínum í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar að það sé sjálfsagður hlutur og við eigum að reyna að stækka þessar stjórnsýslueiningar. Það er mikilvægt að nærþjónusta íbúanna sé sem öflugust og það þarf þess vegna að stuðla að því að sveitarfélögin séu sem öflugust. Það er öllum mönnum ljóst að ef sveitarfélögin eru veik, of smá, geta þau ekki ráðið við nema tiltekna þjónustu. Þess vegna gefur það augaleið og þarf í sjálfu sér ekki að hafa mjög mörg orð um það að nauðsynlegt er að þau sveitarfélög stækki.

Menn verða að hafa eitt í huga, að sameining sveitarfélaga hefur orðið gífurleg á síðustu árum. Mér reiknast svo til að á síðustu 15 árum hafi sveitarfélögum fækkað um meira en helming. Þau eru komin niður fyrir 100 ef við tökum með þær sameiningar sem búið er að ákveða þó að þær taki ekki gildi fyrr en á árinu 2006. Það er alveg ljóst mál að við erum að ná í þessum efnum gífurlegum árangri. Við erum að gjörbreyta og höfum gjörbreytt landslagi sveitarfélaganna. Þess vegna segi ég: Liggur eitthvað meira á? Þurfum við eitthvað að keyra þessi trippi óskaplega hratt? Er ekki langsamlega eðlilegast að við vinnum þessi mál þannig að sameining sveitarfélaganna fari fram á forsendum íbúanna og að það séu íbúarnir sjálfir sem taki um það ákvörðun hvort þeir telji skynsamlegt fyrir sína hagsmuni að sameining eigi sér stað? Auðvitað þarf að leggja öll spil á borðið. Auðvitað þarf að gera mönnum grein fyrir því hvaða möguleikar geta falist í sameiningunni. En það verður að vera þannig að íbúarnir sjálfir geti tekið þessar ákvarðanir.

Ég hef dálítinn beyg af því eins og málin hafa verið kynnt oft og tíðum, og þá er ég ekki sérstaklega að tala um það sem lýtur að ríkisvaldinu heldur einfaldlega í umræðunni almennt, að menn hafi verið að horfa á málið þannig að þessi sameining verði að fara fram, nánast sama hvað tautar og raular. Ég vil segja að menn verða að tryggja það að sameining sveitarfélaganna sé ekki knúin þannig fram að menn séu með svipuna á sveitarfélögunum og segi: Ef þið ekki gangið inn í sameininguna verður tekjustofnunum breytt ykkur í óhag.

Íbúar sveitarfélaganna horfa á þessi mál út frá hagsmunum sínum og þeir spyrja: Til hvers mun sameiningin leiða? Mun hún t.d. leiða til þess að störfum muni fækka á okkar svæði? Þannig er það í ýmsum tilvikum þar sem ég þekki til. Sameining sveitarfélaga mun leiða til þess að opinberum störfum muni fækka. Er það ekki ábyrgðarhluti af hálfu t.d. sveitarstjórnarmanna við slíkar aðstæður að mæla með sameiningu sem gæti leitt til þess að opinberum störfum fækkaði á svæðum þar sem opinber störf vantar, þar sem vantar fleiri störf? Auðvitað er það ábyrgðarhluti.

Menn horfa líka til þess hvort landfræðilegar forsendur séu til sameiningar, samgöngulegar forsendur, er hægt að komast greiðlega á milli ýmissa kjarna og hluta hins nýja sveitarfélags? Þessu þarf að svara. Þetta þarf að liggja fyrir og menn hafa heldur vonda reynslu af því frá gamalli tíð þegar fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra bjó til alls konar bókanir sem kenndar voru við virðulegan hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra um alls konar hluti sem ætti að stefna að og kanna og hanna ef menn vildu vera svo góðir að fara út í sameininguna. Þegar upp var síðan staðið var auðvitað ekki til staðar innstæða fyrir slíku. Því fór sem fór að margir urðu mjög ósáttir við þetta og þetta er eitt af því sem tefur núna fyrir sameiningarferlinu. Menn óttast það að menn fari út í sameiningar á forsendum einhvers sem er óljóst og þess vegna er eitt af því sem þarf að liggja fyrir að þetta sé samgöngulega samfellt svæði sem um er að ræða þannig að menn geti sameinast og unnið sem einn maður innan síns sveitarfélags.

Þess vegna er það ákaflega mikilvægt að þegar menn fara í sameininguna liggi allir þessir hlutir fyrir, menn sjái algjörlega myndina fyrir sér, mönnum sé ekki stillt upp fyrir tveimur vondum kostum, annars vegar þeim að sameinast, missa frá sér opinber störf, hafa ekki möguleika á því að búa samgöngulega á einu svæði og hins vegar ef menn ekki sameinast verði það til þess til lengri tíma vegna breytinga á jöfnunarsjóðsreglum að þeir missi frá sér tekjur. Þetta eru ekki þeir kostir sem við eigum að búa sveitarfélögum. Við eigum þvert á móti að reyna að stilla þessi mál þannig af að við getum í góðri samvinnu við íbúana tryggt það að sveitarstjórnarstigið verði öflugt þannig að menn geti tekist á við ný verkefni en það sé gert þannig að það leiði ekki til neikvæðra afleiðinga.

Virðulegi forseti. Þess vegna segi ég: Ég tel að þessi sameiningarmál hafi verið á prýðilegum rekspöl. Gífurlega mikið er búið að gerast í þessum efnum. Hins vegar er heilmikið verk óunnið en við megum ekki líta á sameiningu sem trúaratriði. Við eigum að líta á sameiningu sem tæki til að styrkja og efla þessar byggðir og það gerum við ekki ef það leiðir til þess að sameiningin í sjálfu sér, þ.e. sameining eða ekki sameining, hafi áhrif á tekjumöguleika viðkomandi sveitarfélaga. Við getum einfaldlega ekki gengið þannig fram gagnvart sveitarfélögunum að segja við þau: Ef þið sameinist fáið þið þetta, ef þið ekki sameinist fáið þið ekki þetta. Við verðum að hafa þetta hlutlaust að þessu leytinu og við verðum að búa þannig um hnúta að sveitarfélögin sjálf og íbúar þeirra sjái hagsmuni sína í því að reyna að stuðla að styrkingu sveitarstjórnarstigsins sjálfs til lengri tíma. Það gengur einfaldlega ekki að gera það þannig að segja að við þurfum að stækka sveitarfélögin af því að þau eiga að takast á við stærri verkefni og síðan hafi það einhverjar hliðarafleiðingar, aðrar afleiðingar sem við ætlumst ekki til og veiki síðan það landsvæði í sjálfu sér byggðalega.

Virðulegi forseti. Það gengur á tímann í þessum efnum og sjálfsagður hlutur í sjálfu sér að vera ekki að orðlengja allt of mikið um þetta. Ég hef farið yfir það hvernig vandinn í sveitarstjórnarstiginu er ekki almenns eðlis, heldur sérstaks eðlis. Það þarf fyrst og fremst að horfa til þess að menn reyni að leysa þennan vanda, ekki með gervilausnum eins og var verið að tala um í morgun varðandi hækkun útsvarsins, heldur með lausnum sem miðast að því að færa fjármagnið inn í þau sveitarfélög sem virkilega þurfa á þessu fjármagni að halda. Það eru tiltekin sveitarfélög, tiltekin landsvæði sem þurfa á því að halda öðrum fremur. Menn eiga ekki að vera að setja sig í þá blekkingu að það sé hægt að gera allt fyrir alla og það sé enginn vandi að gubba peningum út úr ríkissjóði inn í sveitarsjóðina sem í mörgum tilvikum hafa fengið stórauknar tekjur á síðustu árum af ástæðum sem ég hef verið að fara yfir. Það þarf líka að búa þannig um hnútana að þessi sveitarfélög og þróun þeirra fari fram í góðri samvinnu og sátt við íbúana sjálfa og það sé gert með þeim hætti að byggðirnar styrkist en veikist ekki, leiði ekki til þess að opinberum störfum fækki og leiði ekki til þess að sveitarfélögin verði þannig samansett að íbúarnir sjálfir, allir, geti ekki haft sambærilegan aðgang að þeirri þjónustu sem óhjákvæmilega mun auðvitað safnast saman þar sem stjórnsýslan er, stjórnsýslan verður og er öflugust. Þar verður alltaf meginbyggðarkjarninn í hverju sveitarfélagi. Það er ákaflega mikilvægt að við stöndum þannig að þessu máli, og ég trúi því og treysti að hæstv. félagsmálaráðherra vilji og muni gera það. Hann hefur talað þannig gagnvart sveitarfélögunum að ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að hæstv. félagsmálaráðherra hafi góðan skilning á því máli.

Virðulegi forseti. Rétt áður en ég lýk máli mínu langar mig að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra tveggja spurninga sem ég hef ekki áttað mig á og væri gott að fá svar við, annaðhvort núna eða þá síðar ef þau svör liggja ekki fyrir.

Fyrri spurningin sem mig langar að bera upp við hæstv. félagsmálaráðherra lýtur að þeim fyrirhuguðu breytingum á greiðslu fasteignaskatta sem eiga að verða til þess að styrkja fjárhagsstöðu sveitarfélaganna um 600 millj. kr. þegar allt er talið, þegar allt verður komið í kring svo að ég vitni í sálmaskáldið. Gert er ráð fyrir því að sveitarfélögin fái greidda fasteignaskatta af opinberum byggingum eins og ég hef skilið þetta mál og það er gert ráð fyrir því að þetta verði 600 millj. kr. Liggur fyrir á þessari stundu hvernig þessi skipting verður milli sveitarfélaga?

Á sínum tíma freistaði ég þess að fá upplýsingar um þetta þegar ég var ungur varaþingmaður. Hæstv. þáverandi fjármálaráðherra sem nú er kominn til Bessastaða taldi sig ekki geta svarað þeirri spurningu en þegar kominn var öflugur og góður fjármálaráðherra síðar, hæstv. fjármálaráðherra Friðrik Sophusson, var hægt að svara þessum spurningum. Þannig eru framfarirnar í landinu. Þær upplýsingar eru því til frá eldri tíma en nú vildi ég spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort af þessu tilefni hafi verið farið út í það að skoða þetta með nýrri tölum. Mínar tölur og hæstv. fjármálaráðherra Friðriks Sophussonar eru eitthvað eldri og ég vildi gjarnan heyra hvernig þessi skipting verður. Ég geri ráð fyrir því, út frá þumalputtaaðferðinni, að skiptingin sé nokkuð misjöfn milli sveitarfélaganna. Minni sveitarfélögin hafa því miður fæst mikið af opinberum byggingum, fyrir utan þessar kirkjur og jafnvel heilsugæslustöð, en mörg önnur sveitarfélög hafa miklu meiri opinberar byggingar og sem betur fer ýmis sveitarfélög á landsbyggðinni.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra um það sem hér er í 5. tölulið af tillögunum. Talað er um að lögum um skráningu og mat fasteigna og tekjustofna sveitarfélaga verði breytt þannig að greiðsla fasteignaskatts hefjist frá næstu mánaðamótum eftir að eign er fyrst fasteignametin. Ég verð að játa að ég er ekki gamall sveitarstjórnarmaður eins og mér sýnist helftin hér vera, eða meira en það, meiri hluti hv. þingmanna sem hér eru inni, já — við erum bara tveir, virðulegi forseti, sem erum ekki gamlir sveitarstjórnarmenn hér inni, þrír, þannig að mér er ekki alveg kunnugt um … (HBl: ... er nú bjartara yfir okkur.) Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra sem er gamalreyndur sveitarstjórnarmaður og fyrrverandi varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hvað þetta þýðir nákvæmlega. Eins og ég hef skilið þetta mundi þetta væntanlega þýða að þar sem verið er að byggja hús og fjölga þeim muni þetta fyrst og fremst gagnast. Þetta eru þá 200 millj. sem eru einhvers konar stuðningur við þessi sveitarfélög og væntanlega hugsað til að mæta þeim mikla herkostnaði sem felst í því að taka við viðbótaríbúafjölda. Við þekkjum það frá gamalli tíð. Fyrir fáeinum árum var talið að kostnaðurinn við að búa til aðstöðu í nýju sveitarfélagi væri um það bil 5 millj. á nýjan íbúa þannig að þetta er auðvitað heilmikill kostnaður, en síðan stórgræða sveitarfélögin. Þau fara að moka inn peningum með fasteignasköttunum sínum og nýju útsvarstekjunum þannig að ég vorkenni svo sem ekki þessum sveitarfélögum. Það er hins vegar þannig, virðulegi forseti, að þarna virðist mér komið til móts við þessi sveitarfélög og væri fróðlegt að átta sig á því hvort eitthvað liggi fyrir um einhverja skiptingu á þessum tekjum milli sveitarfélaganna.