131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:21]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var um margt fróðlegt að hlýða á ræðu hv. þm. Einars Kristins Guðfinnssonar og kemur ekki á óvart, enda hv. þingmaður búinn að lofa því að hann mundi skapa nokkra þörf fyrir andsvör. Við það stóð hv. þingmaður. Ég tel að hann hafi einnig staðfest það sem ég sagði m.a. í ræðu minni, að hluti af þeim vanda sem við ættum við að glíma varðandi eflingu sveitarstjórnarstigsins væri að það væri ekki alveg taktur í stjórnarliðinu. Ég held að ræða hv. þingmanns hafi sýnt okkur vel fram á að það er ekki mikill taktur í því. Hér voru farnir nokkrir hringir til að tala gegn því að almennilega yrði tekið á því að efla sveitarstjórnarstigið, að sameina sveitarfélög, og ýmsar kúnstir leiknar til að benda á að það væri ekki hægt og að það ætti að gerast á forsendum íbúanna. Að sjálfsögðu á að gera það á forsendum íbúanna eins og lög gera ráð fyrir en það er hægt með ýmsum stjórnvaldsaðgerðum að hafa áhrif á hvernig það er gert.

Hv. þingmaður segir að með tillögunum sem nú liggja fyrir sé fyrst og fremst verið að færa til hinna minni sveitarfélaga vegna þess að vandinn sé sértækur hjá þeim og það sé verið að koma til móts við þau. Það er kannski einmitt hluti af þessum vanda að það er verið að nota jöfnunarsjóðinn of mikið til að halda lífi í hinum minni sveitarfélögum. Ég get fullyrt það við hv. þingmann að sveitarfélögin hin stærri og meðalstóru og stærri en þau minnstu munu ekki líða öllu lengur að þetta verði gert svona því að þetta stendur þróun sveitarstjórnarstigsins fyrir þrifum.

Það er rangt hjá hv. þingmanni að hér sé eingöngu um sértækan vanda að ræða hjá sveitarfélögunum. Hann er bæði sértækur og almennur. Vandinn er m.a. sá í byggðamálunum — hv. þingmaður setti þetta svolítið í þann farveg og þá held ég að hv. þingmaður muni ekki ná miklum árangri ef hann ætlar að halda sig við það að færa ekki verkefni til sveitarfélaganna. Við getum engin verkefni fært áfram til sveitarfélaganna ef draumur hv. þingmanns á að rætast um að engin sveitarfélög megi sameina fyrr en hraðbrautir eru búnar að tengja saman alla byggða bæi í þeim.