131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:26]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt, menn verða að hafa forsendur til að styðja sameininguna en til þess þarf einmitt ríkisvaldið að koma til skjalanna. Þar komum við nákvæmlega að meginþunga málsins, þ.e. að það sé einhver vilji á þeim bæ til að flytja verkefnin til sveitarfélaganna. Sveitarfélögin þurfa þá auðvitað að vera í stakk búin til að taka við þeim.

Það sem ég átti við þegar ég var að tala um jöfnunarsjóðinn var að hinum minnstu sveitarfélögum sem allir vita að eru mörg hver allt of lítil í dag þyrfti að skapa aðstæður til að þau mundu sameinast. Hv. þingmaður getur ekki falið byggðavandann eingöngu í þessu. Hann ætti að líta sér örlítið nær og inn á stjórnarheimilið. Ég vona að hv. þingmaður hafi m.a. kynnt sér fróðlega skýrslu sem nýkomin er út og fjallað er um í þessu ágæta blaði sem Rannís gaf út fyrir stuttu: Landsbyggðin blæðir, Reykjavík græðir. Og hvað skyldi vera sagt þar? Jú, þar segir Vífill Karlsson m.a., með leyfi forseta:

„Samkvæmt fyrstu niðurstöðum mínum eru 75% af öllum umsvifum hins opinbera í Reykjavík einni. Það fær þó ekki nema 42% af skatttekjum sínum frá borginni.“

Þarna er kannski hluti af vandanum kominn fram, hv. þingmaður, þegar við erum að tala um byggðavandamálin. Ef við værum tilbúin í það að flytja verkefnin til sveitarfélaganna og flytja þessa þjónustu út á land væri kannski hægt að (Forseti hringir.) snúa sér við, annars ekki.