131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:29]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir ýmislegt í ræðu hv. þingmanns. Þá á ég við að þegar við erum að ræða vanda sveitarfélaganna á þetta oft við. Þetta er sérstakur vandi, þetta er oft vandi sjávarbyggðanna. Ég tel löngu tímabært að sjálfstæðismenn, svo sem hv. þm. Einar Guðfinnsson, ræði það hvers vegna sjávarbyggðunum hafi vegnað svona illa í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Það er mikið áhyggjuefni. Ég verð að segja að maður verður líka var við að í stjórnartíð þeirra flokka sem ráða nú er svo mikið afskiptaleysi af sjávarbyggðunum og af landsbyggðinni. Við horfum á mál koma upp t.d. í Bolungarvík og það er ekkert rætt hér. Fólkið er bara látið flytja í burtu. Það er fólksfækkun, það kemur upp atvinnubrestur mögulega á Stöðvarfirði og það má ekki ræða einu sinni vanda einstakra byggðarlaga vegna nýrrar reglu í þinginu. Þegar á að ræða t.d. atvinnuástand á Siglufirði spretta jafnvel upp þingmenn frá Siglufirði sjálfum og vilja ekki ræða þessa hluti.

Ég tel þetta einmitt vera meginþungann í umræðu um hvers vegna sjávarbyggðirnar standi svona illa. Ég teldi mjög áhugavert ef hv. þingmaður ræddi það nú og tæki svolítið á þeim vanda hvers vegna Sjálfstæðisflokknum hafi ekki tekist betur upp en raun ber vitni. Ef við tökum aftur Bolungarvík er þar gífurleg fólksfækkun. Þetta er sorglegt og það er orðið löngu tímabært að hv. stjórnarliðar ræði þessa hluti.