131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:36]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmanni tókst að tala bæði með og á móti sameiningu sveitarfélaga í ræðu sinni — það er út af fyrir sig svolítið afrek — því að hann taldi brýnast að útvega fjármagn til að styðja við litlu og veikburða sveitarfélögin og svo hélt hann því fram að sameiningu sveitarfélaga þyrfti að fylgja fjölgun opinberra starfa í viðkomandi sveitarfélögum. Nú hlýtur að verða að tryggja það öðruvísi en með sameiningu sveitarfélaga. Það hlýtur að tengjast öðrum málum en beinlínis sameiningunni því að auðvitað munu sameiningu sveitarfélaga fylgja fækkun opinberra starfa. Það liggur í hlutarins eðli. Ef menn ætla að fjölga störfum þá verða þeir að gera það á annan hátt. Það þýðir ekkert annað en að segja hlutina eins og þeir eru. En hv. þingmaður kallaði það gervilausn að tala um að leysa fjárhagsvanda sveitarfélaganna með hækkun á útsvarinu sem mér finnst óbilgjarnt að gera vegna þess að fyrir liggur að sveitarfélögin í landinu hafa gjörnýtt útsvarið til tekjuöflunar.

Ég fékk svar frá hæstv. félagsmálaráðherra í vetur um hvernig sveitarfélögin hefðu nýtt sér útsvarið til tekjuöflunar og það kom í ljós að einungis fimm sveitarfélög hafa ekki nýtt sér það nánast til botns og þau eru öll á höfuðborgarsvæðinu. Tvö af þeim hafa núna tekið ákvarðanir um að nýta líka í botn þannig að raunverulega er verið að fullnýta þennan tekjustofn. Þess vegna hlýtur maður að spyrja sig: Er einhver gervilausn fólgin í því að gefa sveitarfélögunum möguleika á því almennt að hafa hærri tekjur af útsvari?