131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:40]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar er verið að veita 10 milljarða eða meira í gegnum jöfnunarsjóðinn og það hlýtur að vera ástæða til að setja spurningarmerki við það hvort menn séu ekki komnir á undarlegar brautir þegar t.d. stór hluti af þessum fjármunum er kannski notaður til að keyra börn, svo ég taki beint dæmi sem er hér nærtækt, safna þeim saman í Innri-Akraneshreppi og keyra þau í gegnum Akranes og upp í Leirársveit í skóla. Þetta borgar jöfnunarsjóðurinn. Erum við ekki komnir á undarlegar brautir þegar við erum farnir að nota sameiginleg samskot til að vinna með þessum hætti gegn hagkvæmum lausnum? Ég held að það sé full ástæða til að menn skoði þessi mál svolítið vandlega og að lengra verði ekki farið á þessum brautum. Ef ég nefni aftur dæmi af sambærilegum sveitarfélögum, Stykkishólmi og Grundarfirði, þá liggur það þannig að áður en jöfnunarsjóður kemur til á síðustu árum þá hefur Stykkishólmur verið með hærri tekjur á íbúa en Grundarfjörður. En þegar búið er að taka tillit til jöfnunarsjóðsins eru tekjurnar orðnar hærri í Grundarfirði á íbúa. Þarna eru menn farnir að ganga lengra en skynsamlegt er í jöfnun og einhverjir verða að segja það upphátt. Það kann vel að vera að það sé ekki vinsælt alls staðar að segja hlutina eins og þeir eru. En svona er þetta.

Hv. þingmaður er hér á fullri ferð í því að heimta að jöfnun verði enn þá meiri en hún hefur verið. En samt er hún komin í ógöngur.