131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:42]

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega ekki tilefni hjá hv. þingmanni þótt hann finni eitt dæmi um að jöfnunarsjóður virki ekki eins og hann á að virka að fella svona harðan dóm yfir sjónum. Ég get fundið líka ýmis dæmi um jöfnunarsjóðinn sem ég mundi vilja hafa allt öðruvísi en nú.

Ég var ekkert að leggja það til, virðulegi forseti, að jöfnunarsjóðurinn ætti að ganga lengra í jöfnunarátt en hann gerir núna. Ég er einfaldlega að segja að það er verið er að bjóða upp á ósanngjörn býtti ef það er gert með þeim hætti og ég segi, ef það væri gert með þeim hætti. Hægt væri að segja sem svo að annaðhvort sameinist þið og það mun leiða til þess að jöfnunarsjóðnum verður beitt ykkur í hag en ef þið ekki sameinist þá fáið þið lakari tekjur. En síðan á hinn bóginn standa menn frammi fyrir því að ef þeir sameinast þá leiðir það til þess að störfunum fækkar á svæðinu þeirra, byggðasvæðinu. Þetta eru kostir sem er ekki hægt að stilla mönnum upp gagnvart. Ég er einfaldlega að segja það sem áhugamaður um sameiningu sveitarfélaga að mér finnst að þannig þurfi að búa um hnútana að sveitarfélög standi ekki frammi fyrir tveimur slæmum kostum. Það á auðvitað að reyna að gera á þann hátt að það hafi ekki í för með sér að það fækki opinberum störfum sem við á landsbyggðinni horfum til sem sóknarfæris, m.a. vegna þess að búið er að benda á að ójafnræði er í skiptingu opinberra starfa í landinu. Því megum við ekki sem stjórnvald eða áhugamenn um sameiningu sveitarfélaga ganga svo hart fram í því að sameina sveitarfélög að það hafi síðan einhverjar aðrar neikvæðar afleiðingar. Það er þetta, virðulegi forseti, sem ég var einfaldlega að reyna að árétta. Ég held að hv. þingmaður ætti ekkert að reyna að snúa út úr þeim orðum mínum. Ég hélt því fram og ég er áhugamaður um að stækka og efla sveitarfélög. En það þarf að gera á skynsamlegum forsendum þannig að það leiði til þess að byggðirnar eflist. Ekki getur það verið markmið að sameina sveitarfélög til að veikja byggðarlög eða er það þannig? Er trúaratriðið orðið svo mikið? Er trúarjátningin orðin svo mikil hjá hv. þingmönnum í þessum efnum, t.d. hv. þingmanni Jóhanni Ársælssyni að hann vilji allt til vinna, jafnvel veikja byggðirnar, til þess að hann megi bara horfa á stærri sveitarfélög?