131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:56]

Guðjón Hjörleifsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson talar fyrst um hve opinskár ég sé og að ég tali hreinskilnislega um stöðuna. Svo segir hann að ég sé forritaður í seinna orðinu, sem gengur ekki alveg upp. Ég sagði að ég teldi að höfuðborgin og nágrannasveitarfélögin stæðu vel og sagðist ætla að taka málið upp í félagsmálanefnd á þeim forsendum sem ég var að ræða.

Góðar tillögur. Ég er að tala um góðar tillögur. Við erum að tala um 9 milljarða kr. innspýtingu á næstu þremur árum. Ég tel það mjög gott. En mér finnst þessar varanlegu tölur, 1.500 millj. kr., þar sem við erum að tala um að 360 millj. kr. fari beint á höfuðborgarsvæðið þar sem ekki er fjárhagsvandi, að það eigi að endurskoða þann lið sérstaklega. En hafa ber í huga að hluti af þessu kemur frá ríkissjóði en að öðru leyti er skapað svigrúm fyrir sveitarfélögin, frestun framkvæmda, breytingar og annað sem er mjög gott.

Ég er mjög sáttur við breytingarnar varðandi varasjóðinn. Varasjóðurinn hefur verið sveltur fjárhagslega. Ég þekki það sjálfur sem bæjarstjóri í Vestmannaeyjum til langs tíma. Það hefur verið mjög erfitt að fá peninga til að bregðast við varðandi breytingar á íbúðum eða jafnvel niðurrifi á húsum. Á þessu hafa hvílt skuldir og viðhaldi ekki hefur verið sinnt nógu vel af því að þetta hafa verið tómar íbúðir. Þróunin er þannig og þannig er það líka t.d. á Vestfjörðum. Ég held t.d. varðandi þær tillögur að Vestfirðir og Vestmannaeyjar komi mjög vel út úr breytingu á varasjóðnum.