131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[15:57]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í heilaþvottastöð íhaldsins hefur gleymst að skola einlægnina úr þeim hv. þingmanni sem hér var að tala. Það er gott því að kannski eru allt of fáir slíkir á þingi, sem segja hlutina eins og þeir eru.

Af því að hv. þingmaður á sæti í sameiningarnefnd, sem kemur til með að kynna á morgun tillögur um hvaða sveitarfélög eigi að kjósa um sameiningu sín á milli þá langar mig að forvitnast um hvort hægt sé að fá upplýsingar um, fyrst við komum báðir úr Suðurkjördæmi, hvaða tillögur komið hafa fram um sameiningu sveitarfélaga. Það hefur verið að kvisast á göngunum að lagt verði til að Garður og Sandgerði sameinist Reykjanesbæ og kosið verði um slíka sameiningu. Eins hefur kvisast að Ásahreppur muni ekki kjósa um sameiningu við önnur sveitarfélög. Þeir sem til þekkja vita að Ásahreppur hefur miklar tekjur af fasteignagjöldum af virkjunum og stendur ákaflega vel. Þar sagði sveitarstjórnin: Nei, við viljum ekki sameinast neinu öðru sveitarfélagi. En eins og hv. þingmaður veit sögðu sveitarstjórnir í Garði og Sandgerði nákvæmlega hið sama: Nei, við viljum ekki kjósa um sameiningu við önnur sveitarfélög. Við teljum okkur standa betur ein og sér. Þá fer maður að velta fyrir sér hvaða reglur gilda þegar sameiningarnefndin kemur með tillögur.

Þarna eru þrjár sveitarstjórnir sem allar hafa skilað sams konar umsögn til sameiningarnefndar og sagt: Nei, við teljum ekki rétt að við kjósum um sameiningu að þessu sinni. Svo fer sameiningarnefndin yfir og hún kemst að þeirri niðurstöðu að taka mark á einni sveitarstjórn en hunsa tvær. Mig langar að vita hvort það er rétt sem hefur kvisast á göngunum, að svona verði tillögurnar og hvaða reglur gildi um hvaða sveitarstjórnir skuli hunsa og á hvaða sveitarstjórnum skuli taka mark.