131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[16:01]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér heyrðist hv. þm. Guðjón Hjörleifsson vera að tala sig upp í að um einhver tímamót væri að ræða í átaki til eflingar sveitarstjórnarstigsins. Mig langar að biðja hann um að útskýra það eilítið nánar. Eru þau tímamót fólgin í því að skilað er auðu hvað verkefnatilflutning frá ríki til sveitarfélaga varðar og enginn veit neitt og jafnvel minna nú en fyrir fimm árum? Eru tímamótin fólgin í því að jöfnunarsjóður, sjóður allra tíma í huga hv. þingmanns sem öllu á að bjarga og allt á að gera, er núna á annan tug milljarða króna og ég heyri ekki betur en að hv. þingmaður vilji enn þá bæta þar í? Kannski hann lýsi hugmyndum sínum í þá veru hvernig ýtrustu óskir hans væru um stærð og umfang Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í sveitarfélagaflórunni. Vill hann einfaldlega að jöfnunarsjóður hafi helming af öllum tekjum sveitarfélaga, 50 milljarða, þannig að við látum bara félagsmálaráðuneytið um að skammta úr hnefa til sveitarfélaganna? Er það draumsýn hans á sterkum og öflugum sameinuðum sveitarfélögum? Sér hann þessi tímamót þannig? Eða eru tímamótin kannski fólgin í þeirri draumsýn sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson lýsti áðan þar sem hann fann því allt til foráttu að verið væri að fjargviðrast til og frá með sameiningarmálin, af hverju fólk gæti ekki bara fengið að vera í friði heima í sínu héraði, í örbirgð ef ekki vildi betur og gætu þá sótt suður í ráðuneytið endrum og sinnum og fengið tékkann sinn úr hendi Húnboga og hinna ágætu embættismanna í félagsmálaráðuneytinu? Er það sú draumsýn sem hv. þingmaður var að reyna að lýsa áðan?