131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[16:05]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni heiðarleg svör. Þá liggur alveg ljóst fyrir að í hans huga er ekki um það að ræða að reyna að flytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga þegar kollegar hans á sveitarstjórnarstiginu eru hræddir við það. Ég undrast það ekki nokkurn skapaðan hlut að almennur ótti hafi gripið um sig meðal sveitarstjórnarmanna sem þurfa að eiga viðskipti við ríkisvaldið. Það gefur augaleið að reynsla þeirra af samskiptum við sitjandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er með þeim hætti að þeir koma örugglega ekkert hlaupandi til þeirra viðræðna um að reyna að skapa nýjum verkefnum viðunandi framlag frá ríki þegar tilflutningur verður. Hræðslan er því skiljanleg í þeirra röðum.

Eins og hv. þingmaður sagði af fullri hreinskilni eru menn hættir að þora að tala um þetta. Ég held að þeir séu steinhættir að þora að tala um þetta í kjölfar þeirrar merku „niðurstöðu“ sem hér er að finna fyrir framan okkur. Ég undrast satt að segja að hv. þingmaður, sveitarstjórnarmaður í Vestmannaeyjum og fyrrum bæjarstjóri þar til margra ára og farsæll að mörgu, skuli taka undir þetta falska viðlag að um 9 milljarða tilflutning sé að ræða. Hann veit betur, að stór hluti fjármagnsins eru fjármunir sem sveitarfélögin eiga sjálf og er í þeirra eigin sjóðum en eru með lögum bundnir í ráðstöfunarvald ríkisins. Það er því alrangt og hann veit að á þremur árum eru ekkert nýir milljarðar að koma í hólf sveitarfélaganna.

Ég hef vanist því í samskiptum mínum við hv. þingmann og ágætan vin minn að hann tali hreint úr pokanum og hann hefur gert það sumpart hér, en ég held að hann eigi að taka skrefið til fulls og viðurkenna að tillögur tekjustofnanefndar eru hvorki fugl né fiskur. Það veit hann að kollegar hans á sveitarstjórnarstiginu eru sammála um í hjarta sér þó sumir þeirra kunni að tala tungum tveimur.