131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[16:30]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að þarfar umræður hafi farið fram hér í dag. Ríkisstjórnin hefur boðað mikið átak til að efla sveitarstjórnarstigið í landinu og nú ættu menn að vera farnir að sjá í hvað stefnir með árangur af þessu átaki. Þess vegna er ágætt að fá málið hér til umræðu.

Niðurstaða ríkisstjórnarinnar er sú að ekki sé hægt að fara fram með málið eins og til var stofnað, það þurfi lengri tíma, og þess vegna eigi að fresta kosningum um sameiningu sveitarfélaga fram á haustið, væntanlega til þess að tryggja árangurinn. Átakið felur í sér þrennt samkvæmt yfirskriftunum: Að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga, að fækka fámennum sveitarfélögum með sameiningu þeirra og aðlaga tekjustofna sveitarfélaga breyttum verkefnum og breyttri sveitarfélagaskipan.

Þess vegna er ástæða til að spyrja: Er það gert með þeim viðbótartillögum sem eru hér? Er ástæða til að halda að frekar takist að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaga með þessum tillögum? Því held ég að sé hægt að svara beint út: Það er ekki ástæða til að líta þannig á að þessi niðurstaða hvetji til þess að forsvarsmenn sveitarfélaganna vilji bæta nýjum verkefnum við sveitarfélögin. Hér hjakka menn í nákvæmlega sama farinu og þeir hafa gert vegna vanda sveitarfélaganna hvað varðar fjárhagsstöðu.

Að fækka fámennum sveitarfélögum með sameiningu — er þetta framlag til þeirra verkefna, þeirra fyrirætlana? Ég held ekki.

Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu en ég vil gjarnan, hæstv. forseti, að hæstv. félagsmálaráðherra hlýði á mál mitt að hluta til. Hann hefur nú gengið úr salnum þannig að ég veit ekki hvort hann heyrir. Ég ætla að halda áfram máli mínu en ég óska eftir því að honum sé gert viðvart með það að mig langi til þess að bera fram við hann spurningu.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill þá upplýsa að hæstv. félagsmálaráðherra brá sér frá örstutta stund og er væntanlegur í salinn eftir andartak.)

Það mætti líkja því sem hér er að gerast við það að ausa lekan bát, að útgerðarmaður sem hefði tekið þá ákvörðun að nú ætlaði hann að gera við skipið sitt héldi áfram að ausa til þess að reyna að halda skipinu á floti. Það er það sem hér er að gerast. Sveitarfélögin eiga í miklum fjárhagsvanda, hann á að leysa til skamms tíma með þessum ráðstöfunum. Framtíðarlausn á vanda sveitarfélaganna er þess vegna ekki fólgin í því sem hér er að gerast.

Ég tek undir það sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði hér fyrr í dag, eitthvað á þá leið að auðvitað eiga menn að viðurkenna sjálfstæði sveitarfélaga og þeirra sem fara með völdin fyrir hönd fólksins sem býr í þeim. Það þarf auðvitað að vera þannig svigrúm til tekjuöflunar hjá sveitarfélögunum að þar sé hægt að reka þá starfsemi sem nauðsynleg er, a.m.k. þá starfsemi sem ætlast er til að sveitarfélögin reki. Það verður svo að vera íbúanna sjálfra hvort þeim finnst að þeir sem hafa fengið völdin í hendur við kosningar hafi staðið sig sem skyldi. Ef þeir fara að beita skattlagningarvaldinu fram yfir það sem eðlilegt er vænti ég þess að þeir sitji ekki mjög lengi í sveitarstjórnum.

Ég tel að það svigrúm sem sveitarfélög hafa haft fram að þessu til að ákveða tekjustofna sína sé uppurið fyrir þó nokkuð löngu síðan. Það var dálítið svigrúm í útsvarinu hér áður og sveitarfélögin gátu þess vegna gripið til þess að hækka útsvarið, t.d. tímabundið ef menn voru í miklum framkvæmdum eða ef eitthvað bjátaði á af einhverjum ástæðum. Það svigrúm er ekki til staðar lengur.

Ég vil nefna í því sambandi að ég fékk svar frá hæstv. félagsmálaráðherra í vetur við því hvernig sveitarfélögin í landinu hefðu nýtt sér þessa tekjustofna, þ.e. annars vegar útsvarið og hins vegar fasteignaskatta. Niðurstaðan af þeim svörum er sú að sveitarfélögin í landinu hafa gjörnýtt útsvarið til tekjuöflunar nema sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu, örfá. Þar fyrir utan er um að ræða litla hreppa sem hafa miklar tekjur en vega ekki neitt í raun og veru í þessu sambandi.

Ég get upplýst að þessar tölur segja um árið 2003 að þar hafi u.þ.b. 1.100 millj. gengið af hvað varðar fullnýtingu á útsvarstekjunum, en þessi sveitarfélög sem ég var að nefna hafi í raun og veru átt yfir milljarð af þessum 1.100 millj. Ég skal svo sem telja þau upp: Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Seltjarnarnes, Garðabær og Reykjanesbær. Tvö af þessum fimm sveitarfélögum eru núna búin að taka ákvörðun um að fullnýta þessa tekjustofna. Eftir sitja þá, að því er ég best veit, þrjú en kannski ekki nema tvö sveitarfélög. Ég gat ekki séð að Reykjanesbær hefði efni á því að nýta ekki útsvarið miðað við þá stöðu sem það sveitarfélag er í og ég ímynda mér að þar þurfi menn að taka til sín þá tekjustofna sem við á.

Sem sagt, niðurstaðan er bara þessi: Útsvarið er að fullu nýtt af hálfu sveitarfélaganna og þá eru engir tekjustofnar að marki sem sveitarfélögin geta nýtt sér til viðbótar.

Úr því að hæstv. félagsmálaráðherra er kominn í gættina langar mig til að segja við hann fáein orð. Í fyrsta lagi finnst mér hann einum of oft hafa sagt það sem vörn í þessum málum að sveitarfélögin hafi ekki nýtt sér tekjustofna sína. Ég var að fara yfir það hér að fimm sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu nýttu ekki tekjustofna sína nánast til fulls á árinu 2003. Af 1.100 millj. sem ekki var nýtt af öllum sveitarfélögum samanlagt samkvæmt svari hæstv. ráðherra sjálfs voru fimm sveitarfélög með eitthvað í kringum milljarð af þessum 1.100 millj. Það voru einungis 100 millj. eftir sem einhver sveitarfélög hefðu getað nýtt sér.

Nú eru tvö af þessum fimm sveitarfélögum búin að gjörnýta þessa tekjustofna. Hæstv. ráðherra hefur gefið býsna ódýr svör þegar hann hefur verið spurður um þessi efni og hefur vísað til þess að sveitarfélögin hafi ekki nýtt útsvarið.

Fasteignaskattarnir hafa verið nýttir með svipuðum hætti þó að auðvitað sé það allt öðruvísi tekjustofn og miklu erfiðari fyrir sveitarfélögin að nýta. Þar eru það sömu sveitarfélögin sem höfðu ekki nýtt sér hann nánast að fullu, sem var reyndar á árinu 2003, vantaði 3,6 milljarða upp á að þar nýttu menn alla tekjumöguleika í botn. En 2,7 eða 2,8 milljarðar af þessari upphæð voru einmitt sömu sveitarfélaganna og ég nefndi áðan. Svo vita þingmenn örugglega að það að ætla að nýta fullkomlega fasteignaskattana til tekjuöflunar er ómöguleiki fyrir mörg sveitarfélög. Til þess þurfa menn að fara að leggja á húsnæði sem er ekki notað úti um sveitir og hvaðeina sem vitað er að ekki er nokkur möguleiki að nýta að fullu til tekjuöflunar fyrir sveitarfélögin.

Ég segi bara eins og er að mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að svara þeirri spurningu hér í dag hvort hann trúi því í einlægni að átak ríkisstjórnarinnar til eflingar sveitarfélaganna sé að takast hjá honum. Ég er á þeirri skoðun að það geti engan veginn tekist með þessu. Þá er hér sérstaklega að nefna til þá fyrirætlan að fækka fámennum sveitarfélögum með sameiningu. Er það leiðin til þess að spýta meiru í jöfnunarsjóðinn, er það leiðin til þess að fækka þessum sveitarfélögum? Er það leiðin að fara að borga meira fyrir flutning á, við skulum segja, skólabörnum í gegnum eitt sveitarfélag yfir í annað til að fara í skólann, eins og ég nefndi hér sem dæmi í dag í andsvari? Er það leiðin, er skynsemi fólgin í því að nota jöfnunarsjóð með þeim hætti að sveitarfélög séu farin að hafa hærri tekjur eftir að jöfnunarsjóður kemur til en sambærileg sveitarfélög áður en jöfnunarsjóður kemur til? Er hæstv. ráðherra sannfærður um að þarna sé skynsamlega að málum staðið?

Ég vil náttúrlega í leiðinni mótmæla harðlega — og ég undrast satt að segja alveg sérstaklega að fyrrverandi sveitarstjórnarmenn, t.d. hv. þm. Guðjón Hjörleifsson hér áðan sem leggur til að það eigi að hætta við að veita fjármuni sem búið er að nefna að eigi loksins að koma úr ríkissjóði til að borga með eðlilegum hætti fyrir fasteignir í sveitarfélögum — vegna þjónustu sveitarfélaganna, hvað eru fasteignagjöld annað? — og í staðinn eigi peningarnir að fara í þennan jöfnunarsjóð í viðbót. Á hvaða ferðalagi eru menn eiginlega þegar svo er komið? Ég vissi ekki betur en að það væri sameiginleg barátta sveitarstjórnarmanna til margra ára að láta ríkið borga eðlilega fyrir fasteignir sínar í sveitarfélögunum. Þá stóð aldrei til að sum sveitarfélög ættu að fá þá peninga en önnur ekki. Þetta er gjörsamlega fáránleg umræða sem hv. þingmaður var hér með. Þegar hið opinbera er loksins að fallast á kröfuna koma menn sem hafa sjálfir barist fyrir henni og bjóða upp á þá leið að kippa þessu bara til baka og setja smávegis í jöfnunarsjóðinn í staðinn.

Ég ætla að nefna það að ég tel að enn þá sé einn möguleiki opinn til þess að láta þessa sameiningu takast með einhverjum hætti, þetta sameiningarátak. Hann er sá að nú verði íbúalágmarkið hækkað, því verði bætt inn í þessa tillögu sem hér er til umræðu að hækka íbúalágmarkið þannig að eftir þrjú ár þurfi minni sveitarfélög að hafa sameinast einhverjum öðrum, menn komi sér saman um það hver sú tala eigi að vera. Ekki trúi ég því að hér í sölum Alþingis séu allir á þeirri skoðun að íbúalágmark í íslenskum sveitarfélögum eigi að vera 50, eða hvað? Það finnst mér ekki passa við ræðurnar sem hafa verið haldnar hér. En það er það sem stendur í lögunum og hér á Alþingi bera menn ábyrgð á þeim. Vilja menn bera ábyrgð áfram á því að íbúalágmarkið sé 50 íbúar? Ekki vil ég það.

Ég tel að ef þessu væri bætt inn í tillöguna væri enn þá hægt að bjarga þessu átaki ríkisstjórnarinnar í horn og fá fram a.m.k. þá breytingu sem mjög nauðsynlegt er að verði, þ.e. að að mestum hluta til komumst við út úr þeim vanda sem er fólginn í því að hér eru býsna mörg pínulítil sveitarfélög sem eru þrándar í götu þess að hægt sé að flytja verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna. Á meðan menn ráða ekki við það verkefni að fullu verður ekki hægt að taka þá stóru ákvörðun sem er fólgin í því að flytja veigamikil verkefni til sveitarfélaganna. Þetta finnst mér að hv. nefnd þurfi að fjalla um í fullri alvöru, að hækka þetta íbúalágmark, og ef það yrði gert er ég sannfærður um að niðurstaðan yrði allt öðruvísi. Ég tel reyndar að full ástæða væri til að bæta þessu inn í og um leið að gefa jafnvel lengra svigrúm til ákvarðananna vegna þess að auðvitað yrðu menn að gefa þessum sveitarfélögum a.m.k. þriggja ára tíma til að taka þessar ákvarðanir. Sveitarfélög sem þyrftu að taka þátt í sameiningu, vegna þess að íbúalágmarkið hefði verið hækkað, fengju allt það svigrúm.

Ég ætlast ekki til þess að svona ákvörðun sé tekin með það stuttum fyrirvara sem er fólginn í því ferli sem hér er í gangi. Þetta er að mínu viti það sem hefði þurft að fylgja þeim tillögum sem menn hafa svo sem verið með í þessu átaki. Ef í þeim hefði líka verið fólgin sú ákvörðun að hækka íbúalágmarkið hefði verið tryggt að þetta átak hefði tekist að stórum hluta til.

Ég ætla að láta hér staðar numið, hæstv. forseti. Ég tek bara undir umfjöllunina um tekjustofnamálið. Það er bara skammtímaplástur, bara verið að halda áfram að ausa lekan bát, en það er ekki ráðist í að gera við hann eins og menn höfðu þó ætlað. Það er engan veginn verið að ganga þannig frá málum að þetta átak sem hæstv. ríkisstjórn hefur farið af stað með takist með þeim brag sem eðlilegt hefði verið að stefna að.