131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[16:48]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Gott er að heyra umhyggju hv. þingmanns fyrir fjárhagsstöðu sveitarfélaga, ekki síst þeirra minni og þeirra sem veikustum og höllustum fæti standa. Hv. þingmanni verður nokkuð tíðrætt um hver fjárhagsstaða sveitarfélaganna er og segist bera mikla umhyggju fyrir þeim og dreg ég það ekki í efa.

En svo vill til að hv. þingmaður var á 128. löggjafarþingi 1. flutningsmaður að frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum þar sem sameining sveitarfélaga er tekin með allt öðrum hætti en gert er í því ferli sem hér hefur verið til umræðu í dag, þ.e. hér hefur verið valið hið lýðræðislega ferli þar sem hlustað er á sveitarstjórnarmenn og þar fram eftir götunum og íbúum sveitarfélaganna ætlað að greiða atkvæði um það hvernig þeir vilja skipa sínum málum.

Í frumvarpi hv. þingmanns sem ég nefndi frá 128. löggjafarþingi fer nú lítið fyrir áhyggjum af fjárhagsstöðu sveitarfélaga eða yfirleitt þessari lýðræðislegu nálgun því þar á bara Alþingi með einu pennastriki að ákveða — eins og reyndar hv. þingmaður vék að í síðari hluta ræðu sinnar — að í stað tölunnar 50 komi talan 1.000. Þar á sem sagt Alþingi einhliða að taka þessa ákvörðun hvort sem íbúum minni sveitarfélaga, við skulum segja 800 manna sveitarfélaga, líkar betur eða ver.

Því spyr ég hv. þingmann hvað valdi þessum sinnaskiptum, af hverju áhyggjur hans hafi kviknað allt í einu núna sem ekki virtust vera til staðar þegar hann flutti þetta frumvarp.