131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[16:50]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé nokkuð ljóst að stærri sveitarfélög eru betur fær um að sinna fjármálum sinna umbjóðenda en þau litlu. Þess vegna held ég að þetta frumvarp, sem ég hef flutt reyndar oftar en einu sinni hafi í raun verið skynsamlegt að því leyti.

Ég spyr aftur á móti hv. þingmann. Hann telur að þessi tillaga mín hafi ekki verið góð en heldur sig við að styðja það sem er í sveitarstjórnarlögum. Lögþvingun er í sveitarstjórnarlögum og sú lögþvingun hefur oft verið notuð. Sveitarfélög sem hafa verið lengur en þrjú ár með færri íbúa en 50 verða að sameinast samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Spurningin er þess vegna ekki um lögþvingunina, þ.e. hvort hún er, heldur hvaða íbúafjöldi eigi að vera á bak við hana. Nú spyr ég hv. þingmann: Hvaða íbúafjölda vill hann hafa á bak við þessa lögþvingun? Hvenær á lýðræðið að gilda og hvenær á lögþvingunin að gilda? Eru einhver sérstök rök fyrir því að það eigi að vera við 50 íbúa markið?

Ég tel að svo sé ekki og ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst að á Alþingi hafi menn vikið sér allt of lengi undan því að taka afstöðu til þeirrar ábyrgðar sem þeir bera á því 50 íbúa lágmarki sem þarna er til staðar. Er hv. þingmaður sannfærður um að þetta sé akkúrat íbúafjöldinn sem eigi að vera lágmarkið?