131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[16:53]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tók ekki afstöðu til efnis þess frumvarps sem hv. þingmaður flutti fyrir tveimur árum þar sem átti að færa íbúatöluna úr 50 upp í 1.000 með einhliða ákvörðun Alþingis. Ég var á engan hátt að taka afstöðu til þess. Ég hef sjálfur ekki myndað mér skoðun á því hver draumastaðan er í því hver lágmarksfjöldi íbúa í sveitarfélagi eigi að vera. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að því eigi íbúarnir sjálfir að ráða. Það er sú lýðræðislega leið sem var valin í þeirri aðferð sem hér er farin því að niðurstaðan er alltaf sú, hv. þingmaður, að í lýðræðinu er það fólkið sjálft sem fær að greiða atkvæði um það. Það er sú aðferð sem farin er í átaki hæstv. félagsmálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það er hin lýðræðislega leið. En hv. þingmaður fer í frumvarpi sínu nefnilega ekki hina lýðræðislegu leið því það á að ákveða það algjörlega einhliða án nokkurs samráðs við íbúana sjálfa, Alþingi á að skipa þessum málum einhliða. Það tel ég ekki lýðræðislega leið. Hún kemst a.m.k. ekki nálægt þeirri lýðræðislegu leið sem hér er valin þar sem íbúar sjálfir fá að greiða atkvæði um hvernig þeir vilja skipa sínum málum. Nær lýðræðinu verður ekki komist.

Þarna greinir okkur á um aðferðafræði og kannski um skilgreiningu á lýðræði. Þar að auki, af því að hér hefur umræðan um fjárhagsstöðu sveitarfélaga verið kannski meginþemað í umræðunni í dag og hv. þingmaður vék að því, er í því frumvarpi sem hv. þingmaður flutti fyrir tveimur árum ekki minnst einu orði á fjárhagsstöðu sveitarfélaga. Þar átti Alþingi einungis að taka þessa ákvörðun. Hvort sem íbúum minnstu sveitarfélaganna líkaði betur eða verr þá skyldu þeir sameinast hvað sem tautaði og raulaði, hvort sem fjárhagur þeirra var góður eða slæmur. Það er aðferðafræði sem mér hugnast ekki. Þess vegna m.a. hef ég tekið þátt í þessari lýðræðislegu leið sem nú er farin. Þar greinir okkur greinilega á og það er gott að það skuli þó vera komin hér einhver málefnalegur ágreiningur fram í umræðunni.