131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[16:58]

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Í tengslum við það litla frumvarp sem við erum að fjalla um hafa önnur atriði verið rædd og gert það að verkum að umræðan hefur orðið svo löng og hörð, þ.e. tekjustofnar sveitarfélaga, hvernig við tryggjum sveitarfélögunum best tekjur til komandi ára. Þetta litla frumvarp er eingöngu um að breyta dagsetningu á hugsanlegum sameiningarkosningum frá 23. apríl næstkomandi, eftir um það bil 35 eða 37 daga, til 8. október 2005. Ég sagði hér í morgun, virðulegi forseti, að mér kæmi þetta frumvarp ekki á óvart, þ.e. að það þyrfti að breyta þessari dagsetningu og kallaði það klúður. Ég vil gera það enn einu sinni og segi: Þetta er auðvitað klúður. Þetta er klúður hæstv. ríkisstjórnar vegna þess að tekjustofnanefndin náði aldrei neinum árangri. Auðvitað hlýtur tekjustofnanefndin að þurfa að koma með álitlegan, góðan pakka þar sem unnið yrði fyrst og fremst á bráðavanda sveitarfélaganna, eins og tekjustofnanefndin ætlaði sér, og í öðru lagi tekið á tekjustofnum til framtíðar fyrir sveitarfélögin.

Á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga sem var haldin á Nordica-hótelinu í haust var skipst á skoðunum um þessi mál og mér er mjög minnisstætt, virðulegi forseti, þegar einn af nefndarmönnum í tekjustofnanefnd, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri og sjálfstæðismaður, lýsti því hvernig fundirnir gengju í tekjustofnanefnd þar sem fulltrúar sveitarfélaganna kæmu til fundar við algjörlega umboðslausa embættismenn ríkisstjórnarinnar í tekjustofnanefnd. Þetta væru ekkert annað en huggulegir kaffifundir þar sem væri spjallað um málið, farið í kringum hlutina — og engin niðurstaða. Þetta voru orð Kristjáns Þórs Júlíussonar.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, lýsti því líka hvernig samráðsfundir sambandsins og ríkisstjórnar færu fram. Þetta væru huggulegir fundir þar sem ráðherrar kæmu til funda, það væri tæpt á málum og rætt lítils háttar um málefni sveitarfélaganna, þessi sameiginlegu mál. Síðan væri boðið í hádegisverð í ráðherrabústaðnum og að honum loknum væri fundi slitið.

Virðulegi forseti. Má ég líka minnast þess að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta er lýsing tveggja sjálfstæðismanna á samskiptum, vinnulagi, milli ríkisins og sveitarfélaganna í landinu. Er nema von, miðað við lýsingu þeirra, að hér þurfi að koma með þetta frumvarp á síðustu stundu til að breyta dagsetningum og fresta þessu ferli, sameiningarkosningunum, ánægjulegu verkefni sem var búið til og að mér fannst vera á ágætri leið? Því er klúðrað með þessari niðurstöðu í tekjustofnanefndinni.

Það kemur líka fram í gögnum sem hæstv. félagsmálaráðherra dreifði hér í morgun um niðurstöður og tillögur tekjustofnanefndar hvernig þetta var. Nefndin hóf störf 17. mars 2003. Störf lágu niðri vegna ágreinings frá 19. apríl til 17. september 2004 og síðan hófust viðræður 13. október eftir að formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga var búinn að undirrita einhverja viljayfirlýsingu við fjármálaráðherra og félagsmálaráðherra um áframhaldandi vinnu.

Virðulegi forseti. Ég vil taka það skýrt fram að ég er hlynntur sameiningu sveitarfélaga, ég er hlynntur kosningu um sameiningu sveitarfélaga. Ég er hlynntur því að sveitarfélögin fái betri tekjustofna. En ég verð að segja alveg eins og er að sú niðurstaða sem hér er verið að kynna og hæstv. félagsmálaráðherra er að stæra sig af að séu 9,5 milljarðar á þremur árum — ég kem vonandi að þeirri upphæð síðar — er ekki neitt neitt. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, og mér þykir leitt að þurfa að segja það, það eru stór orð, en ég lýsi vanþóknun minni á störfum formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga og tel að hann sé á góðri leið með að skipta sveitarfélögunum upp í tvær andstæðar fylkingar, þ.e. stóru sveitarfélögin gegn þeim litlu. Ég tel það hluta af vandamálinu við að komast að vitrænni niðurstöðu um tekjustofna sveitarfélaga að Sjálfstæðisflokkurinn geti ekki hugsað sér, og allra síst formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í minni hluta borgarstjórnar Reykjavíkur, að ef sveitarfélögin fái að hækka tekjustofna sína eða Reykjavíkurborg fái á annan hátt allt of mikið sé Reykjavíkurborg stjórnað af R-listanum. Þetta eru stór orð, virðulegi forseti, en þau verð ég að segja.

Það er mikill munur á því hvernig sveitarfélögin hafa það, ef svo má að orði komast. Stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa það miklu betra en litlu sveitarfélögin úti um landið. Og það batnar ekkert með því að taka tvö févana sveitarfélög og sameina þau. Það þarf að styrkja tekjustofnana og þar er himinn og haf á milli þess hvort við erum að tala um stóru sveitarfélögin eða þau litlu. Mér sýnast litlu sveitarfélögin ekki eiga sér marga málsvara hjá stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, því miður.

Á því blaði sem hér hefur verið dreift eru sex reitir settir niður um auknar tekjur sveitarfélaga og ég spyr t.d.: Hvað mun það gefa litlum sveitarfélögum — og skiptir mig þá ekki máli þó að búið verði að sameina 5, 6 eða 7 lítil sveitarfélög — í auknar tekjur út á 5. lið þar sem talað er um að breyta lögum um skráningu og mat fasteigna og tekjustofna sveitarfélaga þannig að greiðsla fasteignaskatts hefjist frá næstu mánaðamótum eftir að eign er fyrst metin í fasteignamat? Hvað mun þetta gefa þeim sveitarfélögum í tekjur þar sem ekkert er verið að byggja? Ekki neitt.

Hvað mun það gefa sveitarfélögum í aukna tekjustofna þó að einhver sveitarfélög fari í það að vinna að fráveitumálum viðkomandi sveitarfélaga og að þau fái endurgreiddan áfram greiddan virðisaukaskatt af framkvæmdinni, þ.e. 20%? Hvað mun það gefa þeim sveitarfélögum sem ekki hafa efni á því í dag að fara í fráveituframkvæmdir? Ekki krónu. Hvað mun það gefa og hvernig mun sú upphæð skiptast sem hér er talin 1.200 millj. á árunum 2006, 2007 og 2008 þar sem ríkisstofnanir eiga loksins að fara að greiða fasteignagjöld til sveitarfélagsins eins og hver annar? Hvernig skiptist þetta niður, virðulegi forseti, eftir sveitarfélögum á landinu? Það væri gaman að sjá hvernig ríkiseignir skiptast eftir sveitarfélögum landsins og það hlýtur þá að vera auðvelt fyrir reiknimeistara félagsmálaráðuneytisins að sýna okkur fram á það hvernig þessar 1.200 millj. skiptast. Getur það kannski verið að 800 eða 1.000 millj. af þessu lendi á höfuðborgarsvæðinu? Ætli það sé ekki eitthvað í þá veru?

Sveitarfélögin á landsbyggðinni, sem mörg hver berjast í bökkum, og sveitarstjórnir sem eru á fleygiferð við að skera niður sjálfsagða þjónustu viðkomandi sveitarfélaga hafa ekki mikinn fjárhagslegan ávinning af þeirri hungurlús sem hér er verið að tala um. Og enn heldur áfram að — ég fæ hér skilaboð um að ekkert flug verði meira í dag þannig að ég held áfram. Enn er verið að draga á milli sveitarfélaga, litlu og stóru sveitarfélaganna. Á mbl.is birtist í dag frétt frá hinum góða meiri hluta Reykjavíkurborgar, R-listanum: „Öll reykvísk leikskólabörn njóti 7 stunda gjaldfrjálsrar vistar á dag.“ Hinn ágæti borgarstjóri lýsir áformum borgaryfirvalda um hvernig öll reykvísk leikskólabörn skuli njóta þessarar gjaldfrjálsu leikskólavistar í áföngum á næstu árum.

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari ákvörðun borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík, R-listans. Þetta er fínt, það er stórkostlegt að Reykjavíkurborg skuli geta boðið upp á þetta. Auðvitað er það hlutverk R-listans að koma þessu fram, ekki mundu sjálfstæðismennirnir gera það. En ætli ýmis sveitarfélög úti á landi geti fylgt í farið á Reykjavíkurborg og boðið sams konar þjónustu, sveitarfélög sem eru að skera niður, jafnvel loka og stytta tímann á leikskólum eins og það er í dag, hafa ekki tekjustofna til að taka þátt í því og fá litla ávexti af þessari hungurlús sem ég kalla hér tillögu frá tekjustofnanefnd? Nei, það mun halda áfram í þeim sama farvegi að íbúar stóru sveitarfélaganna geta fengið þessa þjónustu eins og R-listinn er að bjóða hér upp á en íbúar litlu sveitarfélaganna úti á landi fá hana ekki. Er það einhver sanngirni, eiga þeir íbúar að vera 2. eða 3. flokks þegnar í þessu landi? Nei, það er nefnilega sífellt að renna meira á milli í þessum efnum.

Mér finnst lítill bragur á þeirri breytingu sem hér er verið að gera, virðulegi forseti, og ég batt miklu meiri vonir við fyrrverandi bæjarfulltrúa í Hveragerði, fyrrverandi varaformann Sambands íslenskra sveitarfélaga, að hann kæmi með betri og ásættanlegri niðurstöðu til að leysa fjárhagsvanda sveitarfélaganna sem er mikill, bæði bráðavandann og eins langtímavandann. Það er hins vegar ekki gert. Hér er öllu skotið á frest, þetta er með öðrum orðum ekki neitt neitt. Áform sem eru svo hér sett á blað um einhverja frekari yfirlýsingu fyrir lok apríl — þetta er allt saman gamalkunnugt og verður sennilega eitthvað svipað.

Getur verið að hæstv. félagsmálaráðherra hafi lagt af stað upp í þessa vegferð með meiri vonir um að breyta tekjustofnum sveitarfélaga? Ég held nefnilega að svo hafi verið en að hæstv. félagsmálaráðherra hafi fljótlega rekið sig á vegg. Sá veggur er ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, e.t.v. út af því sem ég nefndi áðan, að þá fengi R-listinn í Reykjavíkurborg allt of miklar tekjur úr að spila. Þá virðist það vera enn þá einu sinni, virðulegi forseti, sem Framsóknarflokkurinn, þessi B-deild Sjálfstæðisflokksins, hafi þurft að lúffa fyrir Sjálfstæðisflokknum.

Ég vil svo hér í lokin spyrja hæstv. félagsmálaráðherra út í tölur. Ég hef reynt að fara í gegnum þetta blað, m.a. með fulltrúum félagsmálaráðuneytisins sem hér eru í hliðarherbergi, til að finna út þá 9,5 milljarða sem út úr þessu eiga að koma. Ég sé að það ljósrit er væntanlega komið þannig að vonandi sé ég það þá betur á eftir en ég vildi fá að sjá hvernig það væri. Ég óttast það — það er gamalt spakmæli eitthvað á þá leið að í hvert skipti sem tveir hafa sest niður og gert eitthvert samkomulag sé ljóst að annar hafi verið plataður — að menn hafi verið plataðir í þessu tilfelli og að það sé verið að plata sveitarfélögin.

Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan, virðulegi forseti, ég varð fyrir verulegum vonbrigðum með að sjá þetta plagg. Þetta er ekki neitt neitt, hér er málum skotið á frest og sveitarfélögin í landinu þurfa enn þá að skera niður lögbundna og sjálfsagða þjónustu. Það mun enn þá skilja á milli íbúa litlu sveitarfélaganna úti um landið, sama þó að þau verði sameinuð í haust, og á milli stóru sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Það er óþolandi misrétti, virðulegi forseti, að svoleiðis skuli þurfa að ganga áfram.