131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:14]

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum lítið frumvarp um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem felur í sér að breyta ákvæðum um væntanlegan kjördag vegna sameiningarkosninga frá 23. apríl til 8. október. Ég held að full rök hafi komið fram í umræðunni fyrir því að frumvarpið sé komið fram og verði afgreitt frá Alþingi sem lög. Farið hefur verið yfir það í umræðunni, sem ég ætla ekki að endurtaka, hvernig það verkefni hefur gengið fyrir sig sem snýr að eflingu sveitarstjórnarstigsins. Sú breyting sem hér er lögð til er fyrst og fremst til að gefa samstarfsnefndum sveitarfélaganna sem tillögurnar varða góðan tíma til starfa sinna því að á þeim hvílir mikilvægt verkefni, að kynna fyrir íbúum sínum það sem um er að ræða í málinu og að samstarfsnefndir geti beitt sér eins og þeim ber í málinu.

Hins vegar kemur fram í frumvarpinu að gert er ráð fyrir því að þann 23. apríl verði kosið um sameiningu sveitarfélaga í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu og Kolbeinsstaðahreppi. Þar hefur alllengi verið vinna í gangi við að undirbúa málið og liggur því fyrir niðurstaða í því og ekki eftir neinu að bíða með að láta kosningu fara fram.

Umræðan hefur að mestu leyti farið fram um sveitarstjórnarstigið almennt, tekjustofna, sameiningu o.s.frv. Það verkefni sem hér er um að ræða og fór af stað 2003 byggir að mínu mati fyrst og fremst á ákveðnu frumkvæði sem Samband íslenskra sveitarfélaga tók varðandi eflingu sveitarstjórnarstigsins, stækkun sveitarfélaganna með sameiningu o.s.frv. Hér er því um að ræða samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga og verður að halda þeirri áherslu sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur haft varðandi stækkun sveitarfélaga og fækkun þeirra til haga í umræðunni. Lögð hefur verið mikil áhersla á þau mál síðustu ár og jafnvel svo að menn hafa talað um að fara þyrfti í lögþvingun varðandi sameiningu sveitarfélaga. Hins vegar hefur ekki verið vilji til þess á vettvangi Alþingis og ég er sammála því að það sé vænlegra að fara þá leið sem nú hefur verið farin, þ.e. að gefa íbúunum kost á að ákveða hvernig þeir vilja haga málum sínum.

Ég hef tekið þátt í störfum sameiningarnefndar sem mun leggja fram tillögur um sameiningu sveitarfélaga og tillögur um hvar kjósa skuli um sameiningu síðar á þessu ári og vil nota tækifærið og lýsa því að mér hefur fundist það starf hafa gengið mjög vel. Í nefndinni hafa verið fulltrúar frá sveitarfélögunum, fulltrúar félagsmálaráðherra og frá þingflokkum á Alþingi. Það hefur verið unnið mjög markvisst og mikil samstaða verið í því starfi og ég sé ástæðu til að hrósa samnefndarmönnum fyrir það. Það hefur allt saman gengið mjög vel og nefndin hefur lagt mikla áherslu á að eiga góð samskipti við sveitarstjórnarmenn úti um allt land þar sem fjallað hefur verið um þessi mál og tillögur sem nefndin mun kynna byggja m.a. á áliti frá sveitarstjórnarmönnum. Það er líka rétt að segja frá því að nefndin hefur einnig stuðst við skoðanakannanir sem gerðar hafa verið á einstökum svæðum þar sem álit íbúanna hefur komið fram varðandi sameiningu sveitarfélaga almennt.

Samkvæmt lögum sem samþykkt voru á sl. ári er nefndinni falið að gera tillögurnar og grundvallaratriði að íbúarnir ákveði sjálfir niðurstöðuna og hlutist þannig til um eigin mál.

Ég vonast til þess, virðulegur forseti, að Samband íslenskra sveitarfélaga muni fylgja þessu öllu saman eftir í samræmi við þær áherslur sem sambandið hefur lagt á að fækka í sveitarfélögum og stækka þau sem leið til að efla sveitarstjórnarstigið. Ég geri ráð fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga muni gera það og hef ekki ástæðu til að ætla annað.

Í umræðunni hefur kannski mest farið fyrir umræðu um tekjustofna sveitarfélaga. Það er alveg ljóst að fjárhagslegar aðstæður sveitarfélaganna eru mjög mismunandi eftir stærð þeirra og staðsetningu og því erfitt að ræða tekjustofnamál sveitarfélaga sem eitthvert einhlítt fyrirbæri því að þar eru ýmsar útfærslur í gangi. En þær tillögur sem fyrir liggja og hæstv. félagsmálaráðherra kynnti í upphafi umræðunnar gera ráð fyrir ýmsum leiðum sem eiga að mæta mismunandi aðstæðum sveitarfélaga og ég tel að þær niðurstöður séu að mörgu leyti ágætar. Þróun tekjustofna hefur alltaf verið í gangi og mun eflaust verða í gangi til framtíðar því að ég held að menn geti ekki litið svo á að þó svo að einhver niðurstaða liggi fyrir einhverju sinni sé hún endanleg varðandi tekjustofna sveitarfélaga. Ég held því að fullyrða megi að hér eftir sem hingað til muni þau mál vera til umfjöllunar og í þróun.

Það liggur líka fyrir að ýmis sveitarfélög fullnýta ekki tekjustofna sína, væntanlega vegna þess að þau sveitarfélög eru betur sett en önnur, og þarf að taka það með í reikninginn líka í umræðunni. Fyrir mitt leyti gerði ég mér ekki vonir um, hver sem niðurstaða yrði úr tekjustofnanefndinni, að allir yrðu himinlifandi yfir henni, fyrst og fremst vegna þess sem ég hef áður farið yfir, að aðstæður eru mismunandi. Ég held að það sé nánast sama hvaða niðurstaða hefði fengist að komið hefðu fram gagnrýnisraddir á einhverja þætti þess, þannig er málum háttað.

Í tengslum við tekjustofnana ræða menn um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og alveg ljóst að jöfnunarsjóður er mjög mikilvægur mörgum sveitarfélögum þó svo hann sé þyrnir í augum ýmissa aðila, sérstaklega kannski í þeim stærstu. Ég hef heyrt ýmsa ræða um jöfnunarsjóðinn með mjög neikvæðum formerkjum sem ég tel mjög ómaklegt vegna þess að jöfnunarsjóðurinn er ákveðið tæki til jöfnunar. Þegar mönnum finnst Jöfnunarsjóður sveitarfélaga á Íslandi vera orðinn hálfgert skrímsli, eins og sumir hafa orðað það, er rétt í því sambandi að bera hann saman við jöfnunarsjóði sem sveitarfélög annars staðar á Norðurlöndum notast við. Þá er jöfnunarsjóðurinn á Íslandi bara peð miðað við stærðir sjóðanna á Norðurlöndum.

Hins vegar er rétt sem fram hefur komið og við þekkjum að reglur jöfnunarsjóðsins eru mjög flóknar og segja má að það sé eðli málsins samkvæmt. En í þeim tillögum sem liggja fyrir frá tekjustofnanefnd er gerð tillaga um að farið verði í endurskoðun á reglum jöfnunarsjóðs og ég held að allir hljóti að vera sammála um að leita þurfi leiða til að einfalda þær. Ég veit að menn hafa reynt að leita leiða til þess í fyrri verkefnum sem hafa lotið að því að endurskoða reglur um jöfnunarsjóð, þannig að þetta er auðvitað mál sem menn þurfa að vinna áfram. En ég vil leggja áherslu á að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga skiptir gríðarlega miklu máli fyrir mörg sveitarfélög og ég tel full efni til að efla hann frekar en hitt.

Hér hefur farið fram umræða í allan dag um þetta mál og ég hef veitt því athygli hve sumir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar virðast vera eitthvað pirraðir út af málinu og umræðu um málið. Til dæmis við upphaf umræðunnar fyrr í dag fannst mér mjög athyglisvert hve hv. þingmenn Samfylkingarinnar voru haldnir mikilli ólund í málinu, svo að ég orði það bara þannig, og vert að velta fyrir sér af hverju það stafar. Að sjálfsögðu hafa menn fært rök fyrir skoðunum sínum varðandi niðurstöður tekjustofnanefndar eins og eðlilegt er. En ég velti því fyrir mér, sem ég veit að ýmsir aðrir gera, hvort Samfylkingin sé með ólund yfir því að nú sé að nálgast niðurstaða í málinu og þeir hafi gjarnan viljað að málið mundi ekki ná fram að ganga og málefni sveitarfélaganna væru í hálfgerðu uppnámi við næstu sveitarstjórnarkosningar.

Ég ætla ekkert að fullyrða um þetta en ég hef heyrt ýmsa velta þessu fyrir sér og væri gaman að heyra frá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar einhverja skýringu á þessu. Ég þykist náttúrlega vita að þeir muni ekki taka undir þetta. En svona er umræðan og við þekkjum það í þessum málum sem öðrum og er svo sem ekkert meira um það að segja.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mjög mikið en vil í lokin leggja áherslu á að þróun sveitarstjórnarstigsins á sér mjög langa sögu, hvort sem við lítum til þess hvernig sveitarfélögin eru skipuð í landinu, hvort sem við lítum til verkefna þeirra eða tekjustofna. Þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það verða í framtíðinni. Ég hef ekki búist við því að það sem út úr verkefninu kæmi, sérstaklega varðandi tekjustofnana og verkefnin, væri eitthvað sem væri endanleg niðurstaða um aldur og ævi. Þetta er mál sem er alltaf í brennidepli og ríki og sveitarfélög fjalla um sín í milli og mun því náttúrlega alltaf halda áfram að þróast. Ég lít því svo á að við séum að fjalla um áfanga á langri leið, hvernig sem á málið er litið, og ber þá von í brjósti að sú niðurstaða sem mun fást úr verkefninu sem nú er í gangi verði til þess að efla sveitarfélögin í landinu því ljóst er að sveitarfélögin skipta gríðarlega miklu máli fyrir samfélag okkar, ekki bara sem byggðamál eins og sumir hafa lagt málið upp heldur almennt fyrir samfélag okkar. Ég veit að við vonumst öll til þess að sú niðurstaða sem fæst út úr verkefninu verði sveitarfélögunum og íbúum landsins til hagsbóta til framtíðar. Það er auðvitað aðalmálið.