131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:38]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hv. þingmaður er sammála mér um að ástæða sé til þess að sveitarfélögin hafi svigrúm til þess að ákveða tekjustofna sína. Ég er á þeirri skoðun að sveitarstjórnarmönnum sé fyllilega treystandi til þess og að auðvitað muni kjósendur veita sveitarstjórnarmönnunum sínum aðhald sem til þarf þannig að menn fari ekki með þetta vald þannig að þar sé keyrt fram úr öllum eðlilegum viðmiðunum. Ég man bara eftir því að þegar ég var í sveitarstjórn á sínum tíma var þetta svigrúm ekki notað til fulls og menn vönduðu sig mjög og báru sig býsna mikið saman við önnur sveitarfélög til þess að ekki væri hægt að benda á að verið væri að ganga lengra en þörf væri á í álagningu gjalda í þessu sveitarfélagi miðað við önnur. Þannig mun það auðvitað vera áfram. Það verður alltaf glíma milli sveitarstjórnarmanna og þeirra sem fela þeim völdin í kosningum um hvað langt eigi að ganga í þjónustunni. Vel kann að vera að einhvers staðar hafi menn gengið of langt. Ég ætla ekki að dæma svo sem um það. Það verður hver og einn kjósandi að gera í sínu sveitarfélagi.

Ég er á þeirri skoðun að í sölum Alþingis eigi menn ekki að ganga þannig fram að ekkert svigrúm sé til staðar fyrir sveitarstjórnarmennina til að taka ákvarðanir og bera ábyrgð á álagningu gjalda í sínu sveitarfélagi. Þá eru menn komnir fram úr sjálfum sér. Ef deila á öllu hér út með einhvers konar skerfum í jöfnunarsjóð og öðru því um líku, alls konar framlögum, stýra öllu héðan með þessum miðstýrða hætti sem orðin er niðurstaðan núna en láta sveitarstjórnarmönnunum ekkert annað eftir en að taka allt sem að þeim kemur, þá finnst mér menn ekki vera á réttum leiðum.