131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:40]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir það með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að sveitarstjórnarmönnum er fyllilega treystandi til að ráðstafa skatttekjum sveitarfélaganna og reka þau. Það hefur aldrei hvarflað annað að mér. Við getum því verið sammála um það. Ég get líka tekið undir það að það er bara nokkuð sem við vitum að sveitarstjórnarmenn fara að öllu jöfnu mjög gætilega í fjármál sveitarfélaga þannig að við þurfum ekkert í sjálfu sér að rökræða það. Við þekkjum það báðir.

Auðvitað eru tekjustofnar sveitarfélaga mikilvægir og skipta máli. En í því sambandi skiptir líka máli hvernig atvinnuástand er. Það er kannski grundvallaratriðið hvernig atvinnuástand er í sveitarfélögunum því sveitarfélög fá tekjur sínar mikið til vegna atvinnu sem fram fer í viðkomandi sveitarfélögum. Það er mál sem við skulum nú kannski ekki taka tíma núna í að ræða. Það er umræðuefni út af fyrir sig og skiptir auðvitað verulegu máli í þessu. Því miður þá vitum við að sums staðar á landinu er vandi sveitarfélaganna til kominn vegna þess að ekki hefur gengið nógu vel í atvinnulífinu og menn hafa orðið fyrir áföllum o.s.frv. Það er margt sem spilar inn í þetta.

Við hv. þingmaður erum sammála um að við treystum sveitarstjórnarmönnunum fyllilega.