131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:42]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Við erum að ræða lítið frumvarp um breytingu á sveitarstjórnarlögunum sem snýr að því að fresta sameiningarkosningum í sveitarfélögum sem til stendur að sameina og tel ég að það eigi að gerast og ég mun án efa styðja þetta mál. En umræðan hefur farið út og suður og ætla ég að taka þátt í henni, m.a. hefur umræðan snúist um landsbyggðina, stöðu sveitarfélaganna og eitt og annað.

Ég ætla að byrja ræðu mína á að gera athugasemd við hvernig nefnd sú var skipuð sem fjallaði um þessa breytingu varðandi sameiningu sveitarfélaganna. Það gerðist mjög ólýðræðislega. Tveir flokkar sem eiga fulltrúa á Alþingi fengu ekki að vera með. Mér finnst með ólíkindum að sjálfur hæstv. félagsmálaráðherra skuli standa þannig að málum, sérstaklega í ljósi þess að samstarfsráðherra Norðurlanda kom síðan hérna upp fyrir skömmu og kynnti einhverja lýðræðisskýrslu. Ég tel einmitt að Framsóknarflokkurinn ætti að skoða þessa þætti, þ.e. hvernig eigi að standa heiðarlega að lýðræðinu. En þetta kom nú kannski ekki alveg á óvart, vegna þess að flokkurinn hefur hvað eftir annað orðið uppvís að mjög ólýðræðislegum vinnubrögðum. Maður veltir fyrir sér ýmsu í framhaldi af þessu máli. Það má nefna hvernig þeir leyna því hverjir greiða í kosningasjóði flokksins, en grunur leikur á því að þeir rétti þeim jafnvel ríkisfyrirtæki sem greiða í sjóði flokksins. Það er með ólíkindum. Það hefur verið staðfest hér af hæstv. viðskiptaráðherra að hún hafi rétt S-hópnum fyrirtæki fyrir mjög lítið verð. Í þessum ræðustóli staðfesti hún það.

Ég er sammála því sem fram kom hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, að vandi sveitarfélaganna er sértækur vandi. Þetta er að megninu til vandi minni sveitarfélaganna og ekki síst vandi sjávarbyggða. Ég hef tekið eftir því að þegar stjórnarþingmenn, ég nefni sem dæmi hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson, þurfa að gera upp við sig hvort þeir standi með heimabyggð sinni, Bolungarvík, eða flokknum sínum, Sjálfstæðisflokknum, í aðför að heimabyggð þeirra standa þeir hvað eftir annað með flokknum. Síðasta dæmið um það var þegar hann tók upp á að styðja, þrátt fyrir það að hafa gengið undir borða sem á stóð „Orð skulu standa“ á Ísafirði, að afleggja sóknardagakerfið sem kemur Bolungarvík mjög illa. Það er mjög sérstakt að verða hvað eftir annað vitni að því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins, landsbyggðarþingmenn, skuli í raun ganga gegn hagsmunum byggða sinna.

Oft er erfitt að fá um þetta umræðu á þinginu og ræða málin. Ég vil nefna, vegna þess að hæstv. forseti er í stólnum, að hér var bönnuð umræða hér í þinginu, bannað að ræða utan dagskrár um atvinnuástand á Siglufirði. Og það var ekki hv. þm. Halldór Blöndal sem stóð hvað mest á móti því. Nei, það voru þingmenn Siglfirðinga sjálfir sem stóðu á móti þeirri umræðu, hv. þingmenn Kristján L. Möller og Birkir Jón Jónsson. Þeir vildu ekki ræða þetta og það finnst manni voðalega sérstakt.

Vandi landsbyggðarinnar er m.a. að kjörnir þingmenn standa ekki með fólkinu. Víða er slæmt atvinnuástand, t.d. á Bolungarvík. Það kom fram í fréttum Stöðvar 2 í gær að tíu fjölskyldur hygðust flytja þaðan í burtu og 5% af útsvarstekjunum hyrfu þar með úr sveitarsjóði. Þarna er einmitt vandi sveitarfélaganna. Atvinnutækifærin dragast saman og flokkarnir sem bera ábyrgð á því eru stjórnarflokkarnir, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur. Því verður ekki á móti mælt.

Atvinnutækifærum hefur fækkað. Ég þekki það vel af Norðurlandi vestra að fólk vill gjarnan búa úti á landi. En því miður gefast ekki fjölbreytileg störf og störfin eru lægra launuð en á höfuðborgarsvæðinu. Fleira hefur gerst. Flokkurinn sem gefur sig út fyrir að vilja minnka umsvif hins opinbera, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur gert þveröfugt undanfarin ár. Hann hefur þanið þau út, alveg gífurlega, um heil 10% sem hlutfall af landsframleiðslu á örfáum árum. Það er með ólíkindum að flokkurinn skuli síðan ganga undir þeim merkjum að vilja báknið burt.

Útþenslan hefur aðallega orðið á höfuðborgarsvæðinu. Það kom m.a. fram í skýrslu, sem vonandi verður rædd hér von bráðar. Hún var gefin út í Háskólanum að Bifröst og Vífill Karlsson samdi hana. Það er verulegt fjárstreymi af landsbyggðinni og inn á höfuðborgarsvæðið. Þetta er einmitt vandi sveitarfélaganna og sá halli sem hér er um að ræða.

Ég get tekið undir það að ekki sé endilega rétt leið að laga stöðu sveitarfélaga á landsbyggðinni með því að stækka endalaust jöfnunarsjóð og vera að færa peninga á milli sveitarfélaga. Ég held að það verði að horfa á rót vandans, þ.e. hvers vegna störfunum er að fækka á landsbyggðinni. Við ættum að reyna að snúa þeirri þróun við. Ég hefði talið það eðlilegt. Við í Frjálslynda flokknum höfum nefnd fiskveiðistjórnarkerfið enda er augljóst að það skilar ekki nokkrum árangri. Fiskveiðar eru aðalatvinnuvegur landsbyggðarinnar en þorskaflinn er helmingi minni nú en fyrir daga þessa kerfis. Hlutur hins opinbera eykst hins vegar og enn meira af skattfé landsbyggðarinnar rennur suður. Það er einmitt það sem við eigum að horfa á hér, hver er rót vandans. Við þurfum að reyna að ráðast að henni í staðinn fyrir að færa endalaust peninga á milli sveitarfélaganna og búa til flókna jöfnunarsjóði sem tveir menn í landinu skilja, eða var það einn?

En það þarf að svara annarri spurningu, þ.e.: Hvað eiga sveitarfélögin að vera stór? Ég tel það mikilvæga spurningu. Hvaða verkefnum eiga þau að sinna? Ég ferðast mikið um kjördæmið og ég verð ekki var við að sveitarstjórnarmenn sækist eftir auknum verkefnum. Ég verð heldur ekki var við það að sveitarstjórnarmenn sæki mjög í sameiningu sveitarfélaga sem standa illa. Ég átta mig í raun ekki á því hvað breytist t.d. á Ströndum við að sameina Drangsnes og Hólmavík. Hvaða grundvallarbreyting verður þar? Ég sé það ekki.

En það væri grundvallarbreyting ef breyting yrði á fiskveiðistjórnarkerfinu, ef þorp og bæir fengju útræðisrétt og að sama skapi mundi lifna yfir Breiðdalsvík og Stöðvarfirði ef þau þorp fengju að njóta fiskimiðanna. Ég held að þar sé rót vandans en ekki að sameina einhver sveitarfélög. Þótt það sé eflaust góðra gjalda vert þá er það engin allsherjarlausn.

Ég tel að umræðan um sameiningu sveitarfélaga sé ákveðin flóttaleið fyrir ýmsa þingmenn landsbyggðarinnar, ekki síst hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þeir ræða sífellt um sameiningu sveitarfélaga til að komast hjá því að ræða um raunverulegan vanda landsbyggðarinnar. Ef maður skoðar raunveruleg dæmi eins og Drangsnes og Hólmavík, hvað breytist þar? Hvaða verkefni eiga menn að taka að sér þar?

Ég var einmitt á ágætum fundi á Drangsnesi ekki fyrir svo löngu. Þá var ekki mikill áhugi á að taka fleiri verkefni að sér. Hvað breytist t.d. á Tálknafirði við að sameinast Vesturbyggð? Það væri fróðlegt að fá það fram í umræðunni hjá hæstv. félagsmálaráðherra. Hvað breytist til batnaðar? Ég sé það ekki. En í Vesturbyggð og Tálknafirði mundi margt batna ef þau þorp og bæir fengju að róa til fiskjar.

Eins kemur upp spurningin um hve stór sveitarfélög eigi að vera. Ég þekki það úr Skagafirði að þar er t.d. útdeilt gæðum, byggðakvóta. Í ekki stærra sveitarfélagi var enginn fulltrúi frá Hofsósi við að útdeila þessum gæðum. Það fórst svo illa úr hendi sveitarstjórnarinnar að byggðakvótinn fór allur í allt annað sveitarfélag, megnið af honum suður á land. Það sýnir að sveitarfélög mega ekki verða of stór. Þá fara menn að fjalla um málaflokka og svæði sem þeir þekkja lítið til. Enda hafa menn stofnað hverfasamtök eða svæðissamtök í Skagafirði sem eflaust vilja fá eitthvert vald og fá að ráða málum sínum, kannski skipulagsmálum eða einu og öðru, þannig að ef að líkum lætur verða menn kannski komnir með þrjú stjórnsýslustig, ríkið, hverfi og síðan stór sveitarfélög.

Nú er til umræðu á Norðurlandi vestra að sameina allt gamla Norðvesturkjördæmið. Þá verður hlutverk íbúasamtaka og hverfasamtaka meira og þau munu þá eflaust vilja fá að ráða einhverju. Þá verður kannski komin þriðja stjórnsýslueiningin.

Við megum ekki gleyma því að í nýsameinuðum sveitarfélögum, t.d. í Snæfellsbæ, hefur í raun, þar sem sveitarfélögum í kringum jökulinn var slegið í eitt sveitarfélag, sameiningin ekki farið fram að fullu. Nú í vetur var skólakerfið á Hellissandi og Ólafsvík samtvinnað. Segja má það sama t.d. um Dalvíkurbyggð.

Enn er unnið úr sameiningu sem varð fyrir nokkrum árum. Þetta sjáum við einnig í Norðausturkjördæminu, á Dalvík þótt sameiningin sjálf hafi átt sér stað fyrir löngu. Ég tel að menn verði að fara yfir þá sameiningu sem orðið hefur og sjá hvort búið er að vinna úr henni. Mér verður t.d. hugsað vestur á Snæfellsnes. Nú eru Ólsarar og íbúar á Hellissandi nýbúnir að vinna úr skólasameiningu þar. Eiga þeir síðan að fara aftur í enn eina sameininguna? Það er eitthvað sem Grundfirðingum hugnast ekki.

Eitt mál sem ég vil nefna að lokum og sem mér finnst til algerrar skammar fyrir hæstv. félagsmálaráðherra. Það er mjög öfugsnúið. Nemendur í sameinuðum stórum sveitarfélögum, svo sem í Skagafirði og Ísafirði, búa við skertar húsaleigubætur í samanburði nemendur sem koma úr öðrum sveitarfélögum en þar sem skólinn er staðsettur. Þetta sést ef maður skoðar nemendur frá Bolungarvík og Þingeyri. Þótt þeir búi nær skólanum er réttur bolvískra nemenda til húsaleigubóta sem nemenda Menntaskólans á Ísafirði meiri en þeirra sem eiga lögheimili á Þingeyri. Þetta er öfugsnúið. Félagsmálaráðherra hefur margoft verið bent á þetta. Ég furða mig á því að hann skuli ekki kippa þessu í liðinn. Það væri fróðlegt að vita hvort félagsmálaráðherra hafi gengið frá þessu. Þetta á að vera tæknilegt mál og ætti að vera forgangsverkefni að leysa það áður en menn láta t.d. íbúa Bolungarvíkur greiða atkvæði um málið. (Gripið fram í: Hann heyrir þetta ekki.) Ráðherra heyrir þetta ekki. Hann er frammi að spjalla og eflaust að gera eitthvað merkilegra en að hlýða á háttvirta þingmenn.

En það væri fróðlegt ef hæstv. félagsmálaráðherra greindi okkur frá því hvort hann hafi gengið frá því að nemendur í sameinuðum stórum sveitarfélögum — af því að hæstv. félagsmálaráðherra er kominn hér í salinn — í Skagafirði og Ísafirði, búi við jafnan rétt og þeir sem búa utan sveitarfélaganna en jafnvel nær viðkomandi skólastofnun.

Ég vara einnig við því að umræða um sameiningu sveitarfélaga sé lausn fyrir byggðavandann. Byggðavandinn verður leystur um leið og ríkisstjórnin fer frá völdum og áherslur, t.d. Frjálslynda flokksins, ná fram að ganga í fikveiðistjórn og raunverulegur vilji verður til að leysa byggðavandann.

Það er mjög átakanlegt að vera var við, t.d. síðustu helgi á Ísafirði, að eftir að menn höfðu lofað háskóla á Ísafirði kom eitthvað þangað sem er hvorki er fugl né fiskur. Blásið var til opnunarhátíðar á einhverju sem lítið sem ekkert var. Flugvélar voru fylltar af fyrirmönnum að sunnan. Telja menn að þetta sé leiðin til að leysa byggðavandann? Ég hefði talið að það væri nær fyrir Framsóknarflokkinn að reyna að standa t.d. við þau orð hæstv. forsætisráðherra að nú væri komið að Norðvesturkjördæminu. Svo er ekki.

Á Ísafjörð kom eitthvað sem kallast háskólasetur. Hvers vegna ganga menn ekki alla leið og setja í það örfáar milljónir? Ég veit ekki hvort það fór jafnhá upphæð í að fljúga öllu þessu fína liði að sunnan til að skála fyrir því sem ekkert er.

Ég ætla að láta máli mínu lokið nú. Ég vonast til að menn fari að átta sig á því bæði í Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum að byggðastefna þeirra gangi ekki lengur, að menn ræði raunverulegan vanda sveitarfélaganna og taki á atvinnumálum landsbyggðarinnar en séu ekki með plástra og tilfærslur á fé á milli sveitarfélaga í gegnum jöfnunarsjóði sem enginn skilur hvorki upp né niður í, nema e.t.v. tveir menn.