131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:01]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Við ræðum hér lítið frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Efni þess er ekki þess eðlis að hér hefði þurft að standa umræða í heilan dag því að hér er nánast eingöngu um það að ræða að verið er að fresta kosningu um sameiningu sveitarfélaga frá 23. apríl á þessu ári til 8. október. Þessi seinkun á sameiningarkosningunum er í sjálfu sér nauðsynleg og er algjörlega nauðsynlegt að frumvarp þetta verði að lögum og það fyrr en seinna því að í dag er lagaskylda á sveitarfélögunum að þau kjósi um sameiningu sveitarfélaga þann 23. apríl samkvæmt þeim lögum sem áður voru sett. Öllum er nú orðið ljóst að sú dagsetning stenst ekki og menn ná ekki að kjósa um sameiningu sveitarfélaga 23. apríl eins og til stóð og eins og hæstv. ráðherra gerði ráð fyrir þegar hann mælti fyrir breytingu á sveitarstjórnarlögunum þess efnis að sveitarfélög færu í sameiningarkosningu þann 23. apríl.

Meginefni umræðunnar hér er hvers vegna þetta hafi tekið svona langan tíma. Hvað er það sem veldur því að við þurfum að fresta kosningu um sameiningu sveitarfélaga þetta lengi? Menn hafa talað um hvort starfið hafi verið nægilega skilvirkt. Menn hafa talað um hvort tekist hafi að ná samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um hin ýmsu sameiginlegu málefni og velt því fram og til baka. Ég held að partur af því hvað þetta hefur allt saman tekið langan tíma og hve illa hefur gengið sé að starfið hafi ekki farið nægjanlega vel af stað strax í upphafi.

Í ágúst 2003 ákvað ríkisstjórnin að hefja samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga um átak til að efla sveitarstjórnarstigið hér á landi. Þá fóru menn að velta fyrir sér hvað fælist í því að efla sveitarstjórnarstigið. Menn ræddu það fram og til baka og niðurstaða flestra var sú að við mundum efla sveitarstjórnarstigið með því að flytja aukin verkefni frá ríkinu yfir til sveitarfélaganna, fela sveitarfélögunum að reka ýmis verkefni sem ríkið rekur í dag. Með því mundum við gera þau öflugri og til að þau gætu tekið þessi nýju verkefni yrðu þau að verða stærri og þess vegna þyrfti að fara í kosningu um sameiningu. Svona var mér sem sveitarstjórnarmanni kynnt þetta á sínum tíma og svona var þetta kynnt t.d. á fundi sveitarstjórnarmanna á Suðurnesjum, fyrsta fundi þar sem þetta nýja átak var kynnt.

Í athugasemdum við lagafrumvarpið sem nú er lagt fram og eins og það frumvarp til laga sem samþykkt var á síðasta þingi um sameiningu sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

„Átakið felur einkum í sér þrennt: Að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga, að fækka fámennum sveitarfélögum með sameiningu sveitarfélaga og aðlaga tekjustofna sveitarfélaga breyttum verkefnum og breyttri sveitarfélagaskipan.“

Þegar við horfum á þessa þrjá áherslupunkta í athugasemdunum, í fyrsta lagi að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga, verður að segjast alveg eins og er, burt séð frá svari hæstv. félagsmálaráðherra við andsvari mínu í upphafi fundar um að ekki hefði staðið til að menn vissu á þessum tímapunkti hvaða verkefni ætti að færa, að það var kynnt svo í upphafi að við sveitarstjórnarmenn mundum vita hvaða verkefni verið væri að tala um að flytja áður en við þyrftum að taka afstöðu til þess að kjósa um sameiningu sveitarfélaga, og við mundum líka vita hvaða fjármunir ættu að fylgja þeim verkefnum sem flyttust frá ríkinu til sveitarfélaganna. Enda stendur þetta alveg klárt og kvitt í athugasemdum við núverandi frumvarp til laga, og er reyndar tekið orðrétt upp úr athugasemdum við fyrra frumvarpið sem flutt var á síðasta þingi, að meiningin var að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna og styrkja þannig sveitarfélögin, að fækka fámennum sveitarfélögum og að semja upp á nýtt um breytta tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og þá aðallega, eins og segir hér í textanum, hvaða fjármunir ættu að fylgja þeim nýju verkefnum sem sveitarfélögin tækju að sér frá ríkinu.

Það var nokkuð fljótlega ljóst að verkefnastjórnin mundi heykjast á því að fara langt með hugmyndir um verkaskiptinguna. Jú, menn listuðu upp á blað hvaða verkefni gætu hugsanlega flust frá ríkinu til sveitarfélaganna og einnig að það væru einhver verkefni sem gætu flust frá sveitarfélögum yfir til ríkisins, en þegar kom að því að taka málið aðeins lengra og taka það upp í tekjustofnanefndinni stóð allt fast. Þá stóð allt fast vegna þess að menn gátu ómögulega komið sér niður á hvernig ætti að byrja að ræða hvaða fjármunir ættu að fylgja hvaða verkefnum, hvort ætti að koma fyrst, eggið eða hænan, og hvernig menn ætluðu að gera þetta.

Tekjustofnanefndin sem skipuð var fulltrúum ríkis og sveitarfélaga hóf störf 17. desember árið 2003 en vegna ágreinings um hlutverk og verkefni nefndarinnar fór það svo að störf hennar lögðust niður 19. apríl. Menn gátu ekki einu sinni komið sér niður á hvað þessi nefnd ætti að gera og störf hennar lögðust niður.

Blásið var lífi í hana aftur með því að undirrita sameiginlega viljayfirlýsingu hæstv. félagsmálaráðherra, hæstv. fjármálaráðherra og formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga 17. september 2004 og tók nefndin aftur til starfa 13. október. Ég held að allir sem velta þessum dagsetningum fyrir sér og skoða starf nefndarinnar geri sér alveg grein fyrir hve óhönduglega tókst til strax í upphafi þegar tekjustofnanefndin ætlaði að velta því upp hvaða tekjur ættu að fylgja hvaða verkefnum. Menn frusu bara fastir í því feni og komust hvorki áfram né aftur á bak þangað til formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga virðist hafa rölt upp í ráðuneyti og menn handsöluðu þar, þrír, hvað það væri sem gera þyrfti til að koma starfinu af stað aftur.

Þrátt fyrir að tekjustofnanefndin héldi áfram að funda gerðist ósköp lítið. Hún tók aftur til starfa, eins og ég sagði, 13. október 2004. Það er síðan 16. febrúar sem ráðherrarnir tveir, hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, héldu fund með verkefnisstjórninni um eflingu sveitarstjórnarstigsins þar sem þeir greindu frá því að fulltrúum ríkisins í tekjustofnanefnd væri veitt umboð til að leggja fram nýjar tillögur, en létu það jafnframt fylgja alveg skýrt, og það kom skýrt fram af hálfu hæstvirtra ráðherra, að ekki væri á nokkurn hátt mögulegt að koma frekar til móts við sjónarmið sveitarstjórnarfulltrúanna í tekjustofnanefnd.

Þarna var, eins og ég sagði fyrr í dag í andsvari, komin upp sú staða að það var á engan hátt hægt að ná samkomulagi í tekjustofnanefndinni þrátt fyrir að menn væru bara að tala um núverandi verkefni sveitarfélaga, engin ný verkefni, bara núverandi verkefni. Sveitarstjórnarfulltrúarnir lögðu mikla áherslu á að reyna að fá eitthvað til baka af þeim mikla halla sem sveitarfélögin hafa orðið fyrir á undanförnum árum við að reka þá lögbundnu þjónustu sem þau hafa þurft að reka. Það kom lokatilboð frá ríkinu: Annaðhvort þetta eða að það átak sem sveitarstjórnarmenn og Samtök íslenskra sveitarfélaga höfðu að hluta til haft forgöngu um að fór af stað yrði að engu, mundi koðna niður, og menn hættu að tala saman og mundu jafnvel láta hlutina bara liggja.

Þegar maður horfir á þessa stöðu er ekkert undarlegt við það að einhverjir fulltrúar sveitarfélaganna í umræddri nefnd velti því fyrir sér hvort betra sé að taka það sem boðið er en að láta starfið falla niður. Ég verð að segja alveg eins og er að lítið leggst fyrir kappana, sveitarstjórnarkappana í tekjustofnanefndinni að samþykkja þetta lokatilboð ríkisins eftir þær yfirlýsingar sem þeir höfðu gefið öllum þorra sveitarstjórnarmanna á fjármálaráðstefnu síðastliðið haust þar sem þeir fullyrtu, þeir sóru fyrir fullum sal af sveitarstjórnarmönnum að það kæmi ekki til greina, það kæmi aldrei til greina að semja um tekjuskiptingu við ríkið sem væri í einhverjum dúr við það sem við sjáum hér.

Það er því öllum ljóst sem fylgst hafa með þessu máli á einhvern hátt að hér er um nauðasamning að ræða, nauðasamning sem ríkið býður sveitarfélögunum og hluti af sveitarstjórnarfulltrúunum telur sig þurfa að gleypa.

Þetta leiðir okkur kannski aftur að því að velta fyrir okkur hvaða form er á samskiptum ríkisins og sveitarfélaganna. Hvernig er hið formlega samstarf milli þessara tveggja stjórnsýslustiga? Er það nægjanlega skilvirkt? Er það nægilega markvisst og vita menn hvernig komast á út úr einmitt slíkri stöðu eins og þarna var uppi þar sem algjör pattstaða var og ekkert gerðist? Nei, það eru í sjálfu sér engar reglur um það, menn vita ekki hvernig þeir eiga að komast út úr slíkri stöðu. Það er ekkert sem heitir að ef ekki næst samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga sé hægt að skjóta því til einhverrar óvilhallrar úrskurðarnefndar sem úrskurði í málinu með hvaða hætti það deilumál sem uppi er á milli þessara tveggja stjórnsýslustiga skuli til lykta leitt. Það er ekkert slíkt form.

Það þýðir einfaldlega það, herra forseti, að þegar ríkið og sveitarfélögin setjast niður og fara að ræða einhver málefni sem sveitarfélögin leggja áherslu á að þurfi að ganga til betri vegar þá hefur ríkið algjöra yfirburðastöðu við það borð og hagar sér þar eins og foreldri gagnvart óvitabörnum. Það byrjar að ræða fram og til baka hvað hugsanlega væri hægt að gera og hvað þau vilji fá í vasapeninga, sveitarfélögin, á næstu missirum. Og þegar ríkinu blöskrar það sem upp er sett er bara þumbast við og ekkert gerist þangað til allir eru orðnir það illa settir að eitthvað verður að gerast. Þá er komið með einhverja hungurlús, hún lögð á borðið og sagt: Þið getið fengið þetta en þá verðið þið að taka það strax. Við vitum að þið eruð orðin svöng og þið getið fengið þetta fóður hér en þið fáið ekkert að borða ef þið takið það ekki.

Ég sá það í fylgiskjali II við tillögur tekjustofnanefndar, sem hæstv. ráðherra var svo góður að dreifa hér eftir ræðu sína af því að við vorum að heyra þessar tölur og tillögur nefndarinnar í fyrsta skipti, að þar er gert ráð fyrir að sameiginlega verði unnið að því að efla samráð ríkis og sveitarfélaga um langtímamarkmið í fjármálum hins opinbera, m.a. við endurnýjun á samstarfssáttmála ríkis og sveitarfélaga. Þetta er göfugt markmið og nauðsynlegt og kannski í dúr við það sem ég sagði, að menn verði með einhverjum hætti að formfesta þessi samskipti milli ríkis og sveitarfélaga betur í framtíðinni en verið hefur hingað til.

Það er annað atriði í þessu fylgiskjali II sem vekur athygli mína, herra forseti, og það er punktur nr. 2. Þar virðast aðilar sammála um að sameiginlega verði unnið að því að öll lagafrumvörp og reglugerðir er varða sveitarfélögin á beinan og/eða verulegan hátt verði kostnaðarmetin af viðkomandi ráðuneyti. Reglur þar um taki gildi 1. janúar 2006. Loksins virðist vera, eins og þegar fara á að setja reglur eða lög á hinu háa Alþingi sem snerta sveitarfélögin, að menn ætli að fara að velta því fyrir sér: Kostar þetta sveitarfélögin einhverja fjármuni? Ef svo er ætla menn sér væntanlega að bæta það upp með einhverjum hætti þannig að sveitarfélögin geti náð í tekjur fyrir þeim aukna kostnaði sem þar yrði.

En það eru ekki allir hæstv. ráðherrar inni á þeirri línu sem þarna kemur fram. Ég vek athygli á því að í gær átti ég stutta athugasemd hér við hæstv. menntamálaráðherra um námskrá grunnskóla. Þar var hæstv. ráðherra spurð að því hvort hún væri að endurskoða námskrá grunnskóla með það í huga að stytta ætti framhaldsskólann. Hugmyndir höfðu heyrst um það og það kom fram í svari hæstv. ráðherra að hún hefði í hyggju að flytja talsvert mikið nám úr framhaldsskólanum niður í grunnskólann. Eftir að ég heyrði hæstv. ráðherrann halda þessu fram í svari sínu spurði ég bara beint hvort þá væru einhverjar viðræður við sveitarfélögin um það, því að a.m.k. miðað við mína reynslu af rekstri grunnskóla yrðu sveitarfélögin fyrir talsvert miklum kostnaði ef það ætti að fara að auka kennslumagnið og fara lengra í grunnskólanum en gert er í dag.

Þá svaraði hæstv. menntamálaráðherra þannig, og ég leyfi mér að lesa það beint upp, með leyfi forseta:

„Það er rétt að það komi strax fram að Samband íslenskra sveitarfélaga kom að sjálfsögðu að verkefninu sem lýtur að því að stytta námstíma til stúdentsprófs og fulltrúi þeirra sagði skýrt og skorinort að hægt væri að rúma þetta innan grunnskólans án þess að það hefði kostnað í för með sér, því grunnskólinn hefur einfaldlega lengst það mikið. Svigrúm hefur skapast til að þétta námsefnið og taka við auknu námsefni í grunnskólann.“

Með öðrum orðum hafði hæstv. menntamálaráðherra talað við einhvern fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem ég veit ekki enn hver er, og sá fulltrúi átti að hafa sagt hæstv. ráðherra að það væri allt í lagi að demba svolitlu af námsefni niður í grunnskólann, það skipti engu máli fyrir sveitarfélögin kostnaðarlega. Ég verð bara að segja að ef hæstv. ráðherra fer þarna með rétt mál er þessi umræddi fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga ekki með hagsmuni sveitarfélaganna í huga, einfaldlega vegna þess að allir gera sér grein fyrir því að ef flytja á fyrstu áfanga í framhaldsskóla niður í grunnskólann mun það hafa verulegan kostnað í för með sér fyrir sveitarfélögin, bæði í formi þess að kennarar þurfa að fara að einhverju leyti í endurmenntun, það þarf að ráða kennara kannski með öðruvísi menntun og allt umfang kennslu kostar, alveg burt séð frá því hverju menn halda fram eða vilja halda fram.

Aftur að tekjustofnanefndinni vegna þess að hún er meginmálið sem við höfum verið að ræða hér í dag og hún er meginástæðan fyrir þessu litla frumvarpi sem sjálfsagt er að flýta fyrir að verði að lögum vegna þess að það er nauðsynlegt að létta þeirri lagaskyldu af sveitarfélögunum að þurfa að kjósa núna strax í apríl. Meginástæðan fyrir þeim langa tíma sem við höfum tekið hér á hinu háa Alþingi til að ræða þetta er einmitt þessar tillögur tekjustofnanefndarinnar. Það hefur komið fram hér í dag, bæði hjá hæstv. ráðherra og öðrum hv. ræðumönnum, að einn fulltrúi sveitarfélaganna skilar bókun og er andvígur því að sveitarfélögin samþykki þær tillögur sem ég hef leyft mér að kalla nauðasamning ríkisins til sveitarfélaganna.

Eftir að hafa lesið í gegnum þá bókun eða sérálit sem þessi fulltrúi hefur í nefndinni, Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, sem situr þar fyrir sveitarfélögin, sýnist mér sem í því felist ekkert annað en árétting um einmitt það sem fulltrúar sveitarfélaganna sögðu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í haust, akkúrat það sem þar kom fram, einmitt það sem allir sveitarstjórnarmenn, sem munu væntanlega verða á þessu landsþingi á morgun, voru einhuga um að væru kröfur og óskir sveitarfélaganna til ríkisins varðandi tekjuskiptingu. Ég get ekki séð hvernig sveitarfélögin eiga að geta fallist á þær tillögur sem koma frá tekjustofnanefndinni á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á morgun. Það er þó eitthvað sem sveitarstjórnarfulltrúar þurfa að sjálfsögðu að ræða á þingi sínu og hljóta að gera á morgun og við fréttum af því.

Það sem ég óttast er að það hve óhönduglega hefur tekist til í tekjustofnanefndinni og hve óhönduglega hefur tekist til varðandi það að reyna að skilgreina verkefni sem flyttust frá ríkinu til sveitarfélaga, og hvaða kostnaður gæti fylgt þeim og hvaða tekjur kæmu á móti, geti orðið til þess að eyðileggja annars gott mál, það mál að efla sveitarstjórnarstigið. Ekki nokkur maður getur verið á móti því að efla sveitarstjórnarstigið í landinu. Eins og búið er að vinna málið og eins og búið er að undirbúa það af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra er það í uppnámi. Svo gæti farið að við gætum þess vegna þurft aftur á hinu háa Alþingi að taka fyrir svona lítið frumvarp, sem er lítið mál, þar sem fresta þurfi sameiningarkosningu enn og aftur ef viðbrögð sveitarstjórnarmanna verða slík að ekki sé hægt að fallast á þessa tekjuskiptingu eins og hér er verið að leggja til.

Þetta gæti sem sagt orðið til þess að kosningar um sameiningu sveitarfélaga sem fram áttu að fara 23. apríl — og ég held að langflestir sveitarstjórnarmenn hafi verið tilbúnir til að vinna að af fullum heilindum og fullum krafti við að reyna að efla sveitarstjórnarstigið — en fara í staðinn fram þann 8. október verði margar, fullt af sameiningarkosningum, en lítið um sameiningar. Það getur orðið ósköp lítið um sameiningar vegna þess að undirbúningurinn sem hefur verið á málinu af hálfu hæstv. félagsmálaráðherra er slíkur að við erum farin að heyra íbúa í sveitarfélögunum sem voru mjög jákvæðir fyrir sameiningu segja nú: Þetta er ekki hægt, það er ekki hægt að samþykkja sameiningu vegna þess að þetta mál er allt í uppnámi.

Sú er bara, því miður, herra forseti, staða málsins í dag.