131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:35]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann treysti ekki sveitarstjórnarmönnum fyrir svigrúmi til að ákveða gjöld, t.d. útsvar á umbjóðendur sína. Hvað eftir annað hefur hæstv. ráðherra haft þau orð uppi að sveitarstjórnarmenn hafi ekki nýtt svigrúm sitt til að nýta tekjustofnana.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst mikið vanta upp á að það sé í lagi með tekjustofna sveitarfélaganna ef sveitarfélögin fara að nýta þá að fullu, því þarna þarf auðvitað að vera einhver möguleiki til staðar til að taka ákvarðanir um nýtingu tekjustofna.

Þegar sveitarfélögin í landinu eru farin að nýta tekjustofnana þannig, eins og á árinu 2003, að það voru einungis 1.100 milljónir eftir og fimm af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu áttu 1.000 af þeim 1.100 milljónum sem hægt hefði verið að bæta við er farið að nýta tekjustofnana miklu lengra en skynsamlegt er. Þá hlýtur að vera æðihart um tekjur hjá ýmsum sveitarfélögum sem hlut eiga að máli. Þarna vantar upp á og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti ekki verið mér sammála um að nauðsynlegt sé að þarna sé svigrúm til staðar fyrir sveitarfélögin til þess að beita.

Hæstv. ráðherra sagði líka að það kynni vel að vera að menn þyrftu að koma að því að lokum að lögþvinga sveitarfélögin. Ég tel að stefnan sem menn tóku á hv. Alþingi, að stækka sveitarfélögin, hafi þurft að vera grundvölluð á einhverjum niðurstöðum að lokum. Þær niðurstöður tel ég vera að sveitarfélögin þurfi að ná ákveðinni stærð og þess vegna verði að horfast í augu við það að vegferðin leiðir til þess (Forseti hringir.) að menn verða að klára gönguna.