131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:46]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að verða við þeim óskum hv. þm. Jóns Gunnarssonar að upplýsa hér hvernig staðan samkvæmt þessari könnun er á Suðurnesjum. Þar kemur fram og ég ítreka það sem ég sagði áðan að hér byggir á þriggja mánaða uppsöfnuðum svörum ríflega 1.700 manna.

Í Reykjanesbæ eru 78,6% hlynnt þeim áformum sem uppi eru í því sveitarfélagi varðandi sameiningu sveitarfélaga, 12% andvíg, 9,4% taka ekki afstöðu eða svara hvorki né. Staðan er, eins og ég sagði áðan, allnokkuð önnur í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Ég held að það kunni að vera rétt hjá hv. þingmanni að það liti kannski eitthvað afstöðu hans. Þar eru 29,3% hlynnt þeim hugmyndum sem uppi eru, 63,8% andvíg og 6,9% svara hvorki né. Þetta er staðan á Suðurnesjum, hæstv. forseti, og ég tek fram að þarna er fólk að svara til um þær hugmyndir sem uppi hafa verið. Endanlegar tillögur sameiningarnefndar verða kynntar á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á morgun og þar verða nokkrar breytingar gerðar eins og kemur fram í því að upphaflegar tillögur gerðu ráð fyrir að sveitarfélögunum fækkaði í 39 en tillögur nefndarinnar nú gera ráð fyrir að þeim fækki heldur minna, þ.e. í 46.