131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

1. fsp.

[15:05]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra út í viðhorf hans og ríkisstjórnar hans til stöðu efnahagsmála og sérstaklega stóriðjustefnunnar í því sambandi. Það er óþarfi að fjölyrða um þau hættumerki sem við blasa alls staðar í efnahagslífi okkar og í hagstjórnarlegu tilliti um þessar mundir og lýsa sér einkum í verðbólgu, viðskiptahalla og óviðunandi afkomu útflutnings- og samkeppnisgreina.

Stóriðjustefnan á þar stóran hlut að máli. Um það eru velflestir ef ekki allir hagfræðingar sammála. Í þeim efnum hefur verið opið hús. Það hefur verið opinn faðmur og menn hafa aldrei verið glaðari en þá daga sem sendinefndirnar eru fleiri en færri sem fara um landið og skoða kosti þess í því skyni.

Hæstv. iðnaðarráðherra fagnaði því sérstaklega að svo mikill væri áhugi erlendra fjárfesta að fimm eða sex aðilar væru nú að sýna því áhuga að byggja hér eða stækka álver og mikil ósköp, það er ekki nema von. Útsölur eru alltaf vinsæl fyrirbæri í samfélaginu og fjölmennar samkomur. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur einnig farið um Norðurland og þar eru menn á mörgum stöðum að slást um hituna.

Hins vegar ber nú svo við að það virðist votta fyrir efasemdum í hæstv. ríkisstjórn um að kannski sé að verða nóg komið. Að vísu á að fara upp í 1 millj. tonna í framleiðslu en þó eru hugsanlega einhverjar efasemdir farnar að læðast að ríkisstjórninni um ruðningsáhrifin sem stefnan hefur í för með sér. En þar duga ekki hálfkveðnar vísur. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra: Kemur til greina að opinber yfirlýsing verði gefin út um breyttar áherslur í þessum efnum, að nóg sé komið í bili? Ég vísa í því sambandi sérstaklega til þingsályktunartillögu okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að einmitt þetta verði gert sem liður í því að reyna að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.