131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

1. fsp.

[15:12]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég sé ekki allt svart í þessum efnum, en ég sé heldur ekki allt hvítt eins og mér virðist því miður hæstv. forsætisráðherra gera áfram og fer þá að verða lítið hafandi með efasemdir hæstv. iðnaðarráðherra eða nýju stefnuna sem boðuð var á iðnþinginu.

Vandi minn er sá að ég deili áhyggjum með forsvarsmönnum iðnaðarins, sjávarútvegsins, ferðaþjónustunnar, nýsköpunar- og sprotafyrirtækjanna sem búa nú við óviðunandi skilyrði vegna þess að það er ójafnvægi í íslensku hagkerfi, m.a. og alveg sérstaklega af völdum stóriðjustefnunnar og skattalækkunarstefnunnar sem ríkisstjórnin hefur keyrt inn með handafli í hagkerfið. Það þarf að hætta handaflinu sem heldur uppi gengi krónunnar, skapar bullandi viðskiptahalla, erlenda skuldasöfnun og er að gera starfsskilyrði almenns atvinnulífs gersamlega óbærileg. Því miður hafa allir, nema einn mikilvægur aðili, áttað sig á þessu og það er ríkisstjórnin undir forustu hæstv. forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, sem er alveg meðvitundarlaus í þessum efnum eins og við heyrum af svörum hans eða svaraleysi hér.